Þarf að gæta þess að allir séu á sömu blaðsíðu

„Ég held að allir séu sammála um þessi markmið,“ segir …
„Ég held að allir séu sammála um þessi markmið,“ segir Orri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsti formlegi fundur samgönguráðuneytisins og Símans vegna sölu á Mílu fór fram í dag. Þar voru atriði sem snúa að þjóðaröryggi rædd. Forstjóri Símans, núverandi eiganda Mílu, segir útlit fyrir að samtalið verði víkkað út og að tilvonandi eigandi Mílu, alþjóðlega sjóðsstýr­inga­fyr­ir­tæk­ið Ardian, komi að fundarborðinu ásamt sérfræðingum frá Mílu.

Margt af því sem Síminn ræddi við ráðuneytið er annað hvort til í lögum eða á leið inn í lög.

„Þannig að þetta er samtal um það hvernig hægt er að búa til eitthvað fyrirkomulag sem öllum líður vel með þar sem ríkir gagnsæi og traust,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

„Þó við séum eigendurnir núna erum við búnir að skrifa undir samning um sölu fyrirtækisins, við viljum ekki skuldbinda fyrirtækið til einhvers sem þeir hafa ekki áhuga á. Miðað við þau samtöl sem hafa farið fram þá skilja allir það sem verið er að tala um svo þarf að útfæra einhverja hluti og þá er eins gott að hafa alla sem að málinu munu koma til langrar framtíðar við borðið.“

Markmiðin þrjú

Eins og Orri rakti í samtali við mbl.is á mánudag eru þrjú yfirlýst markmið með viðræðunum sem Símanum er „ljúft og skylt að verða við.“

Fyrsta mark­miðið er að virk­ir stýri­búnaðir á innviðum verði í ís­lenskri lög­sögu. Annað mark­miðið, sem er nú þegar í frum­varpi til fjar­skipta­laga og stund­um er kallað Huawei-ákvæðið, snýst um að hið op­in­bera geti séð hvaðan búnaður­inn sem er notaður er og hverj­ir birgjarn­ir eru. Nefn­ir Orri að Míla hafi verið að byggja á Erics­son, Cisco og fleiri vest­ræn­um birgj­um.

Þriðja mark­miðið er að hið op­in­bera geti á hverj­um tíma séð hver end­an­leg­ur eig­andi er og hvað hann hyggst fyr­ir varðandi upp­bygg­ingu og fram­kvæmd­ir. Orri seg­ir eft­ir­lit á Mílu þegar vera til staðar þegar kem­ur að áform­um en fyr­ir­tækið þarf að láta vita með fyr­ir­vara hvar það hyggst ráðast í upp­bygg­ingu.

Passa að ekkert stíflist

Aðspurður segir Orri að forsvarsfólk Ardian sé meðvitað um markmiðin.

„Í samtali við Dominique Senequier, stofnanda og forseta Ardian, var komið inn á þessi atriði. Ég held að allir séu sammála um þessi markmið. Það þarf síðan að koma þessu í orð svo allir skilji þessa hluti eins. Þegar verið er að tala um tæknimál geta verið flækjustig svo það þarf bara að passa að allir séu á sömu blaðsíðu með þetta.“

Salan á Mílu er háð samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Orri segir að það sé á borði Ardian að senda inn samrunatilkynningu til eftirlitsins.

„Hún er auðvitað byggð á pappírum sem við höfum gert með þeim en við bara erum til taks fyrir Samkeppniseftirlitið og Ardian til þess að hafa þetta eins fumlaust og hægt er. Við erum í bakvarðasveitinni og pössum að ekkert stíflist í einhverri skjalaafhendingu vegna okkar.“

Næsti fundur ráðuneytisins og Símans hefur ekki verið settur á dagskrá en Orri gerir ráð fyrir því að fundað verði aftur bráðlega, vonandi á næstu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK