Ölgerðin hagnast um 963 milljónir

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. mbl.is/Birgir Ísleifur

Ölgerðin hagnaðist um 963 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt árshlutareikningi félagsins frá 1. mars til 31. maí, segir í tilkynningu frá Ölgerðinni. Til samanburðar nam hagnaðurinn á sama tímabili fyrir ári 521 milljón króna og jókst um 85%.

Vörusala félagsins nam 11 milljörðum og jókst um 22% milli ára en þá nam hún 9 milljörðum. Rekstrarhagnaður félagsins, EBITDA, nam 1,2 milljörðum króna samanborið við 960 milljónir á sama tímabili fyrir ári.

Þá kemur fram að eignir félagsins námu 31 milljarði en til samanburðar námu eignirnar 25,6 milljarða króna 28. febrúar. Eigið fé nam 12,5 milljörðum en hækkaði um 2,5 milljarð frá því í lok febrúar.

Eiginfjárhlutfall félagsins er 40%.

Metsala áfengis til ÁTVR

„Það sem af er júní 2023 hefur sala á vörum fyrirtækisins aukist um 13% samanborið við júní 2022. Júní í fyrra var stærsti mánuður í sögu Ölgerðarinnar og því afar ánægjulegt að sjá áframhaldandi vöxt. Aukin hlutdeild vörumerkja Ölgerðarinnar ásamt sölu til veitingastaða og fyrirtækja skýrir stærsta hluta vaxtarins í mánuðinum,“ kemur fram í tilkynningu félagsins.

Þá segir jafnframt að vöruþróun hafi gengið vel og skilaði góðum vexti en til dæmis var orkudrykkurinn Collab í tæplega 30% vexti í fjölda eininga. Þá var metsala áfengis til ÁTVR og jókst veltan um 25% á tímabilinu.

Hvetja til endurskoðunar á áfengislöggjöfinni

„Mikill styr hefur staðið um fyrirkomulag vefsölu áfengis síðustu misseri. Óljóst regluverk og afskiptaleysi yfirvalda hafa gert það að verkum að fyrirkomulag áfengissölu hér á landi er í uppnámi. Ölgerðin leggur mikla áherslu á að fylgja öllum lögum og reglum hvað varðar sölu áfengis og hvetur löggjafarvaldið til tafarlausrar og gagngerar heildarendurskoðunar á áfengislöggjöfinni til að eyða allri óvissu og tryggja að allir sitji við sama borð, bæði innlendir og erlendir aðilar varðandi auglýsingar og annað markaðsstarf. Lagaleg óvissa og krókaleiðir til að fara á svig við lög og reglur er óviðunandi staða sem ríkisvaldið verður að taka á. Ölgerðin stígur varlega til jarðar meðan löggjöfin er ekki skýrari en raun ber vitni,“ er meðal annars haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK