Stjórn Íslandsbanka krafin svara

Jóhann Steinar (fyrir miðju á mynd) segir Stapa hafa krafið …
Jóhann Steinar (fyrir miðju á mynd) segir Stapa hafa krafið stjórn Íslandsbanka upplýsinga um aðkomu stjórnar að sölunni á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka til að geta tekið afstöðu til stjórnarkjörs sem fer fram í næstu viku. Finnur Árnason stjórnarformaður (til vinstri á mynd) gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Samsett mynd

Stapi lífeyrissjóður hefur krafið stjórn Íslandsbanka um upplýsingar varðandi aðkomu stjórnar að sölunni á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka og eftirfylgni stjórnar við athugasemdum innri endurskoðanda. Lífeyrissjóðurinn á 2,45% hlut í Íslandsbanka og er þar með sjöundi stærsti hluthafi bankans.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, segir í samtali við mbl.is mikilvægt að fá þessar upplýsingar fyrir hluthafafundinn, sem haldinn verður í næstu viku, til að geta tekið afstöðu til stjórnarkjörs.

Hluthafafundur Íslandsbanka verður haldinn á föstu­dag­inn í næstu viku, 28. júlí. Á fundinum verður fjallað um sátt bankans við fjár­mála­eft­ir­lit Seðlabanka Íslands (FME) og viðbrögð Íslands­banka við henni. Einnig mun fara fram kjör í stjórn bankans.

Sjö sæti eru í stjórn bankans. Í gær voru tilnefningar Banka­sýslu rík­is­ins og til­nefn­ing­ar­nefndar Íslands­banka birtar. Af þeim sjö sem eru tilnefndir eru fjórir stjórnarmenn.

Í skýrslu tilnefningarnefndar Íslandsbanka kemur fram að Finn­ur Árna­son stjórn­ar­formaður, Guðrún Þor­geirs­dótt­ir, varaformaður stjórnar, og Ari Daní­els­son stjórn­ar­maður hafi ekki gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Mbl.is ræddi söluna á hlut ríkisins í bankanum, fyrirhugað stjórnarkjör og áherslur Stapa á hluthafafundinum við Jóhann Steinar.

Væntir svara fyrir fundinn

Hvað munu þið leggja áherslu á á þess­um fundi?

„Við bíðum eftir svörum frá stjórn Íslandsbanka. Við höfum sent þeim spurningar varðandi aðkomu stjórnar að ákvörðunum á þessu máli. Við bíðum eftir svörum frá þeim áður en við leggjum endanlega línurnar fyrir fundinn.“

Þannig að þú býst við að fá svör frá stjórninni núna í vikunni eða næstu?

„Já, ég geri ráð fyrir að fá þau fyrir fundinn. Við lögðum áherslu á að fá svör nægilega snemma til að geta tekið afstöðu til þeirra upplýsinga fyrir fundinn og þyrftum ekki að taka afstöðu til þeirra á fundinum sjálfum.“

Aðkoma stjórnar liggi ekki fyrir

Tilnefningar til stjórnar voru birtar í gær. Hefðu þið viljað sjá frekari breytingar á stjórn bankans?

„Aðkoma stjórnar að ákvarðanatöku liggur eiginlega ekki fyrir, þess vegna bíðum við eftir svörum frá stjórn um hvernig þetta snéri gagnvart stjórn. Hingað til hafa þær upplýsingar sem fram hafa komið, bæði í sátt Fjármálaeftirlitsins og skýringum Íslandsbanka, fyrst og fremst snúið að starfsmönnum bankans. Þannig að við bíðum eftir upplýsingum frá stjórn um hvernig þetta var meðhöndlað og hversu mikið þetta hafi komið til kasta stjórnar, ákvarðanir eða ákvarðanaleysi. Þannig að það er erfitt að leggja mat á það fyrr en að við höfum fyllri upplýsingar um aðkomu stjórnar.“

Það segir í skýrslu tilnefningarnefndar að nefndin hafi fundað með hluthöfum og að það hafi verið skiptar skoðanir í hluthafahópnum um hversu miklar breytingar ætti að gera á stjórn. Var þá ykkar afstaða að þið gætuð ekki sagt hvort að það ætti að gera miklar breytingar eða ekki þar sem þið eruð ekki komin með þessi svör frá stjórninni?

„Já. Okkar upplegg var fyrst og fremst að okkur vanti nánari upplýsingar um aðkomu stjórnar að ákvörðunum eða skort á ákvörðunum í tengslum við þetta mál og að þess vegna væri kannski óheppilegt, að á meðan það lægi ekki fyrir, að það væri upplýsingafundur um málið og stjórnarkjör á sama fundi. Við höfum því lagt áherslu á að fá þessar upplýsingar fyrir fundinn.“

„Dýrt námskeið fyrir Íslendinga

Spurður hvernig honum hafi fundist salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka gengið segir Jóhann:

„Það liggja fyrir brotalamir í framkvæmdinni á sölunni. Framkvæmdin hefur ekki gengið sérstaklega vel miðað við það. Svo eru það ákvarðanir á næstu „levelum“ þar fyrir ofan, sem eru kannski bara pólitískar, um hvaða aðferð var notuð við söluna sem að hægt er að hafa skoðun á,“ og bætir við:

„Kannski var þetta bara dýrt námskeið fyrir Íslendinga á því hvernig á að framkvæma þetta. Ef að farið verður í frekari svona framkvæmdir þá verður það gert með öðrum hætti. Það þarf kannski bara að fara fram eitthvað mat á fjármálamarkaðnum yfir höfum hvort að þetta sé heppilegt, svona „accelerated book building“ [hraðað tilboðsfyrirkomulag], með skömmum fyrirvara á skráðu fyrirtæki, ég tala ekki um þegar um ríkishlut er að ræða. En það er kannski líka ákvörðun að pólitískum toga fremur en málefni hluthafa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK