Herdís nýr forstjóri Sýnar

Herdís Fjeldsted er nýr forstjóri Sýnar.
Herdís Fjeldsted er nýr forstjóri Sýnar. mbl.is/Árni Sæberg

Herdís Dröfn Fjeldsted hefur verið ráðin forstjóri Sýnar og mun hún hefja störf í næstu viku. Hún er fyrrverandi forstjóri Valitor og framkvæmdastjóri Framtakasjóðs Íslands. 

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að Herdís hafi verið ráðin að loknu ráðningarferli og muni hefja störf 11. janúar. Auk starfa sinna hjá Valitor og Framtakasjóði hefur Herdís setið í stjórn fjölda bæði skráðra og óskráðra fyrirtækja hérlendis og erlendis. Má þar meðal annars nefna Arion banka, Icelandair Group, Icelandic Group og Promens. Þá er Herdís stjórnarformaður Eyris Venture Management.

Herdís er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er með meistaragráðu í fjármálum frá sama skóla.

Í tilkynningunni er haft eftir Herdísi að hún sé þakklát fyrir það traust sem henni sé sýnt og full eftirvæntingar að taka við keflinu hjá Sýn. „Ég hlakka til að kynnast starfseminni, starfsfólkinu og viðskiptavinum félagsins. Sýn samanstendur af spennandi rekstrareiningum í fjarskiptum, fjölmiðlum og í upplýsingatækni, og það verður spennandi að taka þátt í því með stjórn og starfsmönnum að efla þær einingar enn frekar og hámarka virði þeirra.“

Herdís hefur sýnt að hún er framúrskarandi stjórnandi sem hefur jákvæð áhrif á rekstur og afkomu þeirra félaga sem hún lætur sig varða. Við erum að fá einstaklega öfluga manneskju í starfið og hlökkum til samstarfsins. Á þessum tímamótum viljum við jafnframt þakka Páli Ásgrímssyni – sem gegnt hefur starfi forstjóra tímabundið - sérstaklega fyrir sitt framlag en hann hverfur nú aftur til starfa sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Sýnar,“ er haft eftir Jóni Skaftasyni, stjórnarformanni félagsins í tilkynningunni.

Nokkrar breytingar voru gerðar í nóvember á rekstri Sýnar, sem meðal annars rekur Bylgj­una, Stöð 2, Vísi og Voda­fo­ne á Ísland. Þannig var sett á laggirnar ný sjálfstæð rekstrareining innan félagsins sem nefnist Vef­miðlar og út­varp. Inn­an nýju rekstr­arein­ing­ar­inn­ar eru allar fjöl­miðla­ein­ing­ar Sýn­ar utan Stöðvar 2.

Nýlega gekk Sýn einnig frá kaupum á Já.is og þá falla Já.is, Bland.is, Tal og tengd vörumerki und­ir vef­miðla og út­varp. 

Stöð 2 varð að sjálf­stæðri rekstr­arein­ingu með áherslu á áskrift­ar­tekj­ur og inn­lenda dag­skrár­gerð. Frétta­stofa Vís­is, Stöðvar 2 og Bylgj­unn­ar starfar þvert á þess­ar ein­ing­ar.

Stuttu áður, eða í október, hafði stjórn Sýnar komist að samkomulagi við þáverandi forstjóra, Yngva Halldórsson, um starfslok hans. Hann hafði þá starfað sem forstjóri í rúmlega ár, en hann tók við af Heiðari Guðjónssyni, sem hafði verið einn stærsti eigandi og forstjóri félagsins um nokkurt skeið. Við starfslok Yngva tók Páll Ásgrímsson við sem tímabundinn forstjóri og hefur hann sem fyrr segir nú aftur horfið til starfa sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar um miðjan desember kom svo fram að stjórn félagsins hefði ákveðið að taka framtíðar eign­ar­hald og stefnu vef­miðla og út­varps til frek­ari skoðunar. Var sú ákvörðun grund­völluð á grein­ingu Kviku banka sem vann að grein­ingu á rekstri og virði vef­miðla og út­varps, en það eru þeir miðlar sem settir höfðu verið í sérstaka rekstrareiningu stuttu áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK