Rúm tvöföld eftirspurn í hlutafjárútboði Amaroq Minerals

Eldur Ólafsson skoðar sýni í gullnámu Amaroq í Nalunaq á …
Eldur Ólafsson skoðar sýni í gullnámu Amaroq í Nalunaq á Grænlandi. Stefán Einar

Rúm tvöföld eftirspurn varð í nýafstöðnu hlutafjárútboði námufyrirtækisins Amaroq Minerals.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að alls verði tæplega 63 milljón nýjum hlutum úthlutað til núverandi og nýrra hluthafa, á genginu 127 krónur á hvern hlut. Hreint söluandvirði hækkunarinnar nemur 7,6 milljörðum íslenskra króna.  Í tilkynningunni segir að söluandvirði útboðsins, umfram áður fyrirhugaða 5,2 milljarða, verði varið í frekari rannsóknir á eignum félagsins í Vagar og Nanoq, sem og í aukið fjármagn fyrir verkefni félagsins í Gardaq.

Landsbankinn og Fossar fjárfestingarbanki voru sameiginlegir söluráðgjafar með útboðinu á Íslandi og Landsbankinn sölutryggði einnig útboðið að hluta.

Nýju hlutirnir nema u.þ.b. 19 prósent af útgefnu hlutafé félagsins eftir hækkunina.

Hækkað um 70%

Verð hlutabréfa félagsins hefur hækkað um ellefu prósent það sem af er árinu og um 70% síðan félagið var skráð á hlutabréfamarkaðinn í febrúar á síðasta ári.

Í tilkynningunni þakkar Eldur Ólafsson, forstjóri félagsins, hluthöfum sem þátt tóku fyrir stuðninginn.  Segir hann  sérstaklega ánægjulegt að sjá mikla eftirspurn frá norrænum lífeyrissjóðum.  „Söluandvirði útboðsins gerir okkur kleift að hraða námuvinnslu í Nalunaq, og að auki að flýta fyrir frekari rannsóknum þvert á safn okkar í gulli og verðmætum málmum á Suður-Grænlandi.

Við höfum trú á því að markmiðum okkar í Nalunaq-námunni verði náð og að möguleikar okkar á að skila virði fyrir hluthafa og samfélagið á Grænlandi aukist, og ég hlakka til að skýra frá framgangi og nánari tímasetningum Nalunaq verkefnisins síðar á þessu ári.“

Amaroq Minerals starfar á sviði námuvinnslu og býr yfir námuvinnsluréttindum á landi sem hefur að geyma verulegt magn af gulli í jörðu auk annarra verðmætra málma á Suður-Grænlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK