Ari tekur við af Jóni sem forstjóri Origo

Stjórnendur Origo.
Stjórnendur Origo. Ljósmynd/Aðsend

Jón Björnsson hefur ákveðið að láta af starfi forstjóra Origo í lok apríl næstkomandi. Ari Daníelsson, sem verið hefur stjórnarformaður Origo, tekur við keflinu.

„Þetta hafa verið lærdómsrík og góð fjögur ár með Origo. Löng saga Origo, þekking þess og sterk staða á markaði dró mig að þessu tækifæri fyrir fjórum árum. Ég var viss um að með auknum fókus og sjálfstæði eininga, væri hægt að skapa enn sterkari samstarfsaðila í upplýsingatækni. Til þess þurfti að ýta undir skýran fókus hjá hverju teymi, skapa framtíðarsýn á hverjum stað og setja aukna áherslu á rekstrarlega frammistöðu,” segir Jón í tilkynningu.

„Ég tel okkur komin á þann stað í þeirri árangursríku vegferð að það sé góður tími núna til að aðili með djúpa þekkingu og skarpa sýn taki við keflinu og þroski frekar þau hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki sem mynda Origo.

Ég mun halda áfram að styðja vegferðina í hlutverki stjórnarformanns Origo lausna, sem er nýstofnað sjálfstætt dótturfélag um þann þátt starfseminnar sem lítur að innflutningi og sölu á tölvu- og tæknibúnaði,” bætir hann við.

Þekkir félagið vel

Ari Daníelsson, sem tekur nú við starfi forstjóra, hefur setið í stjórn Origo frá árinu 2022 og gegnt stöðu stjórnarformanns frá árinu 2023. Ari þekkir félagið því vel, að því er kemur fram í tilkynningunni, og býr auk þess að umfangsmikilli þekkingu, reynslu og menntun á sviði tækni, fjármála og stjórnunarstarfa á alþjóðlegum vettvangi.

„Það hefur verið frábært að starfa með Origo í hlutverki stjórnarmanns síðustu ár og ég hlakka til að koma enn þéttar að áframhaldandi sókn félagsins í hlutverki forstjóra.  Síðustu ár hafa verið tími uppbyggingar og umbreytinga og því starfi er hvergi nærri lokið.

Til þess að vera leiðandi þarf að tryggja sveigjanleika og aðlögunarhæfni á tímum þar sem tæknibreytingar hafa aldrei verið jafn örar, kröfur viðskiptavina aldrei eins miklar og samkeppni um hæfileikaríkt starfsfólk er stöðugt viðfangsefni. Á sama tíma er Origo í einstakri stöðu til þess að sækja fram á fjölmörgum sviðum hugbúnaðarlausna og tækniþjónustu á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og það ætlum við að gera,” segir Ari í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK