Lægri í títani en allir í heiminum

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Íslands, fagnar nýjum fríverslunarsamningi og segir …
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Íslands, fagnar nýjum fríverslunarsamningi og segir hann styrkja fyrirtækið í harðri samkeppni við Brasilíu. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta bætir okkar samkeppnisstöðu mjög. Við erum með einn stóran viðskiptavin á Indlandi sem kaupir af okkur afurðir sem nýtast í rafmagnsstál,“ segir Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Íslands, í samtali við mbl.is um nýundirritaðan fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Indland en hagstæðari tollar styrkja stöðu Elkem gagnvart brasilískum keppinautum.

„Við erum aðallega að keppa við Brasilíu þar og kostnaðarstaðan og samkeppnin við Brasilíu þegar þú ert á Íslandi getur verið erfið. Þannig að það að viðskiptavinurinn fái þessa lækkun á tollum, það hjálpar,“ segir Álfheiður en tollalækkunin til Indverja nemur 5,5 prósentum.

Afurðin mjög stöðug

Helsta söluvaran til Indlands sé svokallað HP-efni, kísilmálmur með lágt títaninnihald. „Hann er notaður í framleiðslu á rafmagnsstáli og á þessum vettvangi erum við með þennan stóra viðskiptavin á Indlandi og marga viðskiptavini í Japan. Þessir viðskiptavinir sækja í okkur vegna þess hvernig framleiðandi við erum, þeir eru aðallega að sækja í kísilinn,“ segir Álfheiður frá.

Mikill kísill sé notaður í rafmagnsstál og því hærra sem kísilinnihaldið sé, því betra. Gildi annarra efna þurfi samtímis þessu að vera mjög lágt, svo sem títans. „Við getum framleitt efni sem er lægra í títani en allir aðrir í heiminum hérna á Íslandi og erum líka með mjög stöðuga framleiðslu,“ útskýrir forstjórinn.

Járnblendiverksmiðjan í forgrunni og álver Norðuráls á Grundartanga fjær.
Járnblendiverksmiðjan í forgrunni og álver Norðuráls á Grundartanga fjær. mbl.is/Árni Sæberg

Elkem keppi því ekki í verðlagningu, viðskiptavinir fyrirtækisins kaupi fyrst og fremst þaðan vegna þess hve stöðuga afurð þeir fái. „Þeir geta treyst efninu sem þeir fá og þess vegna eru þeir tilbúnir að borga aðeins meira, við getum ekki selt á sama verði og Brasilía. En þegar svona samningur er gerður hjálpar það, við getum sýnt fram á að þessi samningur skilar lækkun í formi tolla sem Indland er að fella niður,“ segir Álfheiður.

Hún segir kostnaðinn á Íslandi háan, ekki sé sama hvar gripið er niður þegar kísilmálmframleiðsla er til skoðunar. Þess vegna er frábært að fá svona samninga og þeir hjálpa okkur mikið, það eru hreinar línur,“ segir Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Íslands, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK