Að sækja tækifærin og landa þeim

Bjarni Benediktsson ræðir við fréttamann Asian News International, ANI, í …
Bjarni Benediktsson ræðir við fréttamann Asian News International, ANI, í kjölfar undirritunarinnar. Ljósmynd/EFTA

„Þessu ferli var hrundið af stað í janúar 2008 en kraftur komst í þessar viðræður fyrir ári og áhugi var fyrir því allt í kringum borðið að láta reyna á það hve langt væri hægt að ganga í þessari lotu.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is eftir undirritun fríverslunarsamnings milli Indlands og Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, það er að segja Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein, í Nýju-Delí á Indlandi í morgun.

Segir ráðherra samninginn stórmerkilegan, til dæmis sé þar kominn fyrsti fríverslunarsamningur sem Indland gerir við Evrópuríki „og fyrir EFTA-ríkin hefur þetta auðvitað mikla þýðingu fyrir EFTA-stoðina, bæði í þeim tilgangi að ná samningum við vaxandi hagkerfi en eins eru EFTA-ríkin að tengja sig við það svæði í heiminum sem er að vaxa hvað örast og hér eru gríðarleg áform uppi til næstu áratuga um áframhaldandi hagvöxt til að auka kaupmátt og lífsgæði landsmanna sem eru ekki fáir, þeir eru meira en helmingi fleiri en allir Evrópubúar“, segir Bjarni enn fremur.

Grunnur framtíðarviðskipta

Með nýja samningnum séu tollar fyrir ýmsar íslenskar útflutningsafurðir felldir niður og opnist þar með tækifæri fyrir sjávarafurðir og iðnaðarvöru auk þess að skapa ramma fyrir þjónustuviðskipti sem Bjarni kveður hafa verið töluvert hlutfall af heildarviðskiptum Íslendinga við Indverja, svo sem á sviði hugbúnaðar.

„Þetta er samningur sem horfir til langrar framtíðar og það …
„Þetta er samningur sem horfir til langrar framtíðar og það sem stjórnvöld hér eru að gera er að teppaleggja veginn inn í framtíðina,“ segir Bjarni. Ljósmynd/EFTA

„Svona samningur skapar grunn fyrir framtíðarviðskipti og eykur þar með traust í viðskiptum milli landanna. Indland lagði mjög mikla áherslu á það í samningalotunni að fá skuldbindingu frá ríkjunum um fjárfestingu inn í framtíðina og ákveðin viðmið til næstu tuttugu ára eru í samningnum um talsverða aukningu í beinni fjárfestingu til Indlands,“ segir Bjarni.

Með því vilji Indverjar meðal annars bæta lífsgæði heima fyrir og draga úr þörfinni fyrir innflutning til Indlands. Fyrir EFTA-ríkin, þar með talið Ísland, segir ráðherra komið mjög kærkomið tækifæri þar sem mikill vöxtur sé í hvers kyns framleiðslu á Indlandi og efnahagsmiðja heimsins sé með hverju árinu að færast frá Evrópu í austurátt „og það er ekki síst fyrir vöxtinn sem á sér stað hér á Indlandi“, segir hann.

Þreifingar um fríverslunarsamning Indlands og EFTA-ríkjanna hófust fyrir 16 árum, …
Þreifingar um fríverslunarsamning Indlands og EFTA-ríkjanna hófust fyrir 16 árum, í janúar 2008, en fengu byr undir báða vængi fyrir ári og í morgun var komið að undirritun. Ljósmynd/EFTA

„Þetta er samningur sem horfir til langrar framtíðar og það sem stjórnvöld hér eru að gera er að teppaleggja veginn inn í framtíðina og í framhaldinu mun það ráðast hvernig atvinnulífið grípur þessi tækifæri og hleypur með þau vegna þess að fyrir fjárfestana og atvinnulífið gildir að sækja tækifærin og landa þeim,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, staddur í Nýju-Delí eftir undirritun fríverslunarsamnings Indlands og EFTA-ríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK