„Alls ekki að hætta“ yfir í að hætta á 11 dögum

Birgir Jónsson, fráfarandi forstjóri Play.
Birgir Jónsson, fráfarandi forstjóri Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í gær var greint frá því að Birgir Jónsson hefði látið af störfum sem forstjóri hjá flugfélaginu Play. Kom fram að hann hefði gert samkomulag um starfslok og að núverandi stjórnarformaður félagsins, Einar Örn Ólafsson, sem jafnframt er einn stærsti hluthafi félagsins, myndi setjast í forstjórastólinn.

Ekki voru þó nema 11 dagar síðan Birgir hafði sérstaklega tekið fram að hann væri ekki að láta af störfum sem forstjóri Play, enda væri það „draumastarfið“ sitt.

Oft er sagt að vika sé langur tími í pólitík og er ljóst að það getur einnig átt við viðskiptaheiminn. Þá hefur einnig lengi verið sagt að þegar knattspyrnustjórar tali um að þeir séu traustir í starfi að þá sé stutt í að þeir verði látnir fara.

En hvernig sem því er farið í knattspyrnuheiminum, þá er ljóst að hlutirnir voru fljótir að gerast hjá Play á síðustu dögum.

Birgir upplýsti í þar síðustu viku að hann væri genginn til liðs við sína gömlu félaga í þungarokkshljómsveitinni Dimmu. Þar er Birgir trommuleikari, en hann spilaði með Dimmu frá 2011 til 2018, auk þess að hafa spilað með nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina.

Upplýsti Birgir um þetta í færslu á Facebook, en þar nefni hann einnig að þetta hefði ekki áhrif á stöðu sína sem forstjóra Play. „Lífið er skrýtið og fal­legt. Ég fékk tæki­færi til að ganga til liðs við mína gömlu fé­laga í Dimmu. Þrátt fyr­ir mikið ann­ríki í vinn­unni þá ákvað ég að slá til. Til stend­ur að spila 5-6 tón­leika á ár­inu. Til að taka af all­an vafa þá er ég alls ekki að hætta hjá Play enda er það drauma­starfið mitt,“ sagði Birg­ir í færslunni.

Eins og fyrr segir var í gær svo greint frá því að samkomulag hefði náðst um starfslok við Birgi. Mun hann starfa hjá félaginu til 2. apríl, en svo verða félaginu til ráðgjafar næstu mánuði. Haft var eftir Birgi í tilkynningu vegna breytinganna að hann gengi stoltur frá borði.

„Það hef­ur verið æv­in­týri lík­ast að taka þátt í upp­bygg­ingu Play. Á til­tölu­lega skömm­um tíma er orðið til öfl­ugt ís­lenskt lággjalda­flug­fé­lag með framúrsk­ar­andi vöru og þjón­ustu og bjarta framtíð. Virk sam­keppni í flugi sem skil­ar sér í lægri far­gjöld­um, fjöl­breytt­um áfanga­stöðum og verðmæt­um er­lend­um gest­um er sér­stak­lega mik­il­væg fyr­ir eyju eins og okk­ar. Slík sam­keppni varðar hags­muni allra Íslend­inga. Ég geng þess vegna ákaf­lega stolt­ur frá borði. Play hef­ur nú slitið barns­skón­um og er orðið þroskað flug­fé­lag. Ég hef átt gott og náið sam­band við Ein­ar og fé­lagið er í góðum hönd­um hjá hon­um. Ég hlakka til að sjá fé­lagið blómstra und­ir hans for­ystu. Ég vil þakka viðskipta­vin­um og sam­starfsaðilum fyr­ir einkar ánægju­legt sam­starf. Ég mun svo kveðja stór­kost­leg­an hóp starfs­manna á næstu dög­um,“ var haft eft­ir Birgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK