Stjórnvöld stóraukið umrót, óróa og óvissu

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims.
Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims. Hallur Már

Guðmundur Kristjánsson forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Brims ræðir óvissuna í rekstrinum í ávarpi í árs- og sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2023. Hann segir m.a. að erfitt sé að bregðast við duttlungum manna, einkum stjórnmálamanna.

„Í stað þess að leggja sjávarútvegi lið með að draga úr óvissu, skapa stöðugleika og auka fyrirsjáanleika hafa stjórnvöld stóraukið umrót, óróa og óvissu með óvæntum og jafnvel ólöglegum stjórnsýsluaðgerðum, umboðslausri boðun breytinga sem gjörbreyta forsendum og grundvelli í rekstri fyrirtækja í greininni og þá voru stjórnvöld á árinu rekin heim með skömm fyrir að beita fyrir sig sjálfstæðum stofnunum í pólitískum tilgangi án nokkurra stoða í lögum,“ segir Guðmundur í ávarpinu.

Lokuðu einu fyrirtæki

Hann segir að á árinu hafi stjórnvöld lokað einu fyrirtæki í sjávarútvegi með sólarhringsfyrirvara og hafi síðan haldið greininni allri í greipum óvissu „vegna tíðinda um að embættismenn í ráðuneyti matvæla væru að skrifa ný fiskveiðistjórnunarlög án nokkurrar aðkomu þeirra sem unnið hafa eftir gildandi lögum í áratugi eða þeirra sem höfðu unnið að verkefni sem hlaut nafnið Auðlindin okkar.“

Guðmundur segir þetta hafa komið á óvart. „[…] því samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar átti að meta fjárhagslegan ávinning kerfisins og bera saman stöðuna hér og erlendis og síðan leggja fram tillögur um að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs. Hvorki mat né samanburður hafði átt sér stað þegar ráðherra svipti hulunni af nýju lagafrumvarpi sem á að gjörbreyta margvíslegum forsendum greinarinnar. Enn hefur slíkur samanburður ekki litið dagsins ljós. Það skapar að sönnu erfiðleika í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja í fjárfrekum rekstri þegar þau þurfa að búa við duttlungafullar ákvarðanir stjórnvalda sem í ofanálag segja eitt og gera allt annað. Traust til stjórnvalda brestur og þá um leið trúin á að umgjörð greinarinnar haldi en hún leggur grundvöllinn að öllum meiriháttar ákvörðunum fyrirtækja sem varða fjárfestingar og uppbyggingu til framtíðar. Vantraust sem stjórnvöld skapa með framgöngu sinni stuðla að minni fjárfestingum, stöðnun og lakari lífskjörum þjóðarinnar,“ segir Guðmundur í ávarpi sínu.

Fá ekki raforku

Hann gerir raforkuskort einnig að umfjöllunarefni og segir að Brim glími við að geta ekki fengið þá raforku sem það þarf til sinnar starfsemi á Vopnafirði. „Það skýtur skökku við í landi orkugnægta að rafmagn skuli vera af skornum skammti og skattlagt með þeim afleiðingum að hægja mun á fjárfestingum sem hraða orkuskiptum. Enginn efast um mikilvægi sjálfbærni, fjölbreytni tegundanna eða baráttunnar fyrir minni losun koltvísýrings en það er mikilvægt að leiðirnar sem stórnvöld bjóða helgist af ráðdeild og skynsemi. Sóun verðmæta í þágu markmiða sem enginn deilir um er líka sóun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK