Hagvaxtarhorfur í BNA og evrusvæðinu ólíkar

Greinendur telja að seðlabanki Bandaríkjanna fari hægt í sakirnar í …
Greinendur telja að seðlabanki Bandaríkjanna fari hægt í sakirnar í vaxtalækkunum. AFP/Mandel Ngan

Greinendur segja að hagvaxtarhorfur í Bandaríkjunum og evrusvæðinu séu ólíkar. Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, segir að það sem hafi knúið áfram hagvöxt í Bandaríkjunum sé uppsafnaður sparnaður í covid-faraldrinum sem hafi enst lengur en hagfræðingar gerur ráð fyrir, mikil meðgjöf í ríkisfjármálum og ör innflutningur vinnuafls, auk þess sem Bandaríkin eru orkuútflytjandi og hafa því notið góðs af orkuverðshækkunum undanfarinna ára öfugt við Evrópu.

„Þeir þættir auka eftirspurnina en þegar líður á þetta ár tel ég líklegt að áhrif þeirra fjari út og það muni hægja á hagvexti í Bandaríkjunum. Það verður á hinn veginn í Evrópu, því þar sjáum við að orkuverðshækkanir, sem hafa haldið aftur af hagvexti, hafa að mestu gengið til baka og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila er farinn að aukast þar sem verðbólgan hefur lækkað,“ segir Hafsteinn.

Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku og Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku og Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Samsett mynd

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandbanka, segir að nýlegir hagvísar bendi til þess að tímabundinn samdráttur gæti mælst á evrusvæðinu á fyrri helmingi þessa árs.

„Almennt eru horfur á að vöxtur í stærstu hagkerfum evrusvæðis verði lítill þetta árið þótt brúnin gæti lyfst nokkuð á almenningi og stjórnendum fyrirtækja þar með lækkandi vöxtum á seinni helmingi ársins,“ segir Jón Bjarki og bætir við að vísbendingar um lakari vöxt í Evrópu hafi verið túlkaðar sem jákvæð tíðindi þar sem væntingar um minni eftirspurnarþrýsting og lægri vexti vegi þyngra en áhyggjur af hag stærri fyrirtækja vegna minni hagvaxtar.

„Almennt virðist vera bjartsýni á helstu mörkuðum og hafa aukist undanfarið eftir því sem verðbólga hjaðnar og styttist í vaxtalækkunarferli hjá helstu seðlabönkum,“ segir Jón Bjarki.

Ítarlega er fjallað um alþjóðahagkerfið í samanburði við Ísland í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka