Merkja minni eftirspurn eftir ferðum til Íslands

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Uppfærð afkomuspá Icelandair gerir ráð fyrir 220 milljarða króna tekjum á þessu ári og að hagnaður komi til með aukast frá því í fyrra. Þá er bókunarstaðan fyrir sumarið góð.

„Bókunarstaðan fyrir sumarið er ágæt, líkt og kemur fram í afkomuspánni er fjallað um markaðinn yfir hafið á milli Norður-Ameríku og Evrópu í gegnum Ísland. Markaðurinn frá Íslandi er mjög sterkur en ferðamannamarkaðurinn til Íslands er hægari en í fyrra, þar sem það er ekki eins mikil eftirspurn,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann segir að minni eftirspurn sé eftir ferðum til landsins en það megi rekja að einhverju leyti til samkeppnishæfni landsins og jarðhræringanna á Reykjanesi. Spurður nánar um samkeppnishæfnina segir hann að Ísland keppi við lönd eins og til að mynda Finnland sem er mun ódýrari kostur fyrir ferðamenn að heimsækja.

Félagið í sterkri stöðu

Að hans sögn er félagið í það sterkri stöðu að það geti fært áherslurnar á milli markaða eftir því hvernig eftirspurnin þróast.

„Núna erum við að sjá sterkt bókunarflæði á markaðnum yfir hafið í gegnum Ísland og við höfum verið að setja meiri fókus þar. Bókunarstaðan á þeim markaði er betri en í fyrra og þess vegna er farþegaskiptingin aðeins öðruvísi á milli ára. Hlutfall farþega sem eru að fljúga yfir hafið í gegnum Ísland verður hærra en á síðasta ári, á meðan hlutfall farþega sem koma til Íslands mun væntanlega minnka,“ segir Bogi Nils.

Hann kveðst vera bjartsýnn á að árið verði gott hjá Icelandair, en alltaf sé hægt að gera betur.

„Árið 2023 var það síðasta í enduruppbyggingunni eftir covid-19. Við höldum áfram að styrkja reksturinn og það var mjög mikilvægt að félagið skilaði hagnaði í fyrra í fyrsta skipti í mörg ár og við gerum ráð fyrir meiri hagnaði á þessu ári,“ segir Bogi Nils að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK