c

Pistlar:

27. febrúar 2014 kl. 22:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík

Skrifað var undir nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík við hátíðlega athöfn í Höfða í byrjun vikunnar. Það kemur í kjölfar þess að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti þann 26. nóvember 2013, tillögu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, ásamt umhverfisskýrslu. Allt kemur þetta í kjölfar endurskoðunar á aðalskipulaginu 2001-2024 sem hefur staðið yfir undanfarin ár og falist í margvíslegri greiningarvinnu, mati valkosta og samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Skipulagið hefur verið í vinnslu frá árinu 2006 eða í átta ár en er nú undirritað og afgreitt - án þjóðaratkvæðagreiðslu, vel að merkja. 

Þótt ferlið sé langt og ítarlegt má velta fyrir sér hve mikið íbúar borgarinnar hafa um málið að segja þegar upp er staðið. Ótvírætt er að núverandi meirihluti setur mark sitt á skipulagið þó að ágæt sátt ríki um ýmsa þætti. Það vekur reyndar furðu hve lítil umræða er um skipulagið sjálft eftir að búið er að undirrita það. Af nógu er þó að taka.

Með staðfestingu aðalskipulagsins tekur það loksins gildi og verður nú unnið eftir áherslum þess við frekari skipulagningu og uppbyggingu borgarinnar. Óhætt er að segja að nú sé kominn sá rammi utan um skipulagsmál borgarinnar sem unnið verður eftir næstu árin þó en eigi eftir að koma í ljós hvort kyrrstaan í skipulagsmálum borgarinnar hafi verið rofin. Sjá má fyrir sér að skipulag sem þetta geti birst borgarbúum með tvennum hætti. Annars vegar með því að sveigja skipulagið að þörfum borgarbúa eða hinsvegar, sveigja hegðun borgarbúa að þörfum skipulagsins. Þarna er vitaskuld langt á milli en vissulega getur þetta á köflum fallið saman.

aðalskipulag


Borg fyrir fólk 

,,Borg fyrir fólk" er leiðarstefið í aðalskipulaginu sem nú er búið að samþykkja og tekur stefnumótunin mið af því eins og rakið er inni á vef borgarinnar. Í aðalskipulaginu er lögð sérstök áhersla á hverfin og einstaka borgarhluta. Markmiðið er að hverfi borgarinnar verði sjálfbærari, mannvænni og fjölbreyttari þar sem allir félagshópar fá tækifæri til búsetu. Hvert hverfi hafi sinn kjarna svo dagleg verslun og þjónusta verði í sem mestri nálægð við íbúa. 

Ráðamenn borgarinnar sögðu við undirritunina að nýtt aðalskipulag feli í sér að borgin verði þróuð í meiri mæli inn á við en áður, hún þétt og samgöngukerfið gert liprara. Af þeim sökum megi búast við meiri uppbyggingu á svæðum sem eru nálægt vinnustöðu. Það eigi að stytta vegalengdir frá heimili til vinnu. Aukin áhersla er lögð á almenningssamgöngur og að fólk komist leiðar sinnar á hjóli eða gangandi. 

Hvernig samgöngur?

Aðalskipulagið gerir ráð fyrir að 90% allra nýrra íbúða á tímabilinu rísi innan núverandi marka borgarinnar. Markmiðið er að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð og nýta þar með betur land og fjárfestingar í gatna- og veitukerfum og þjónustustofnunum. Rökin fyrir því eru að með þéttari byggð dregur almennt úr vegalengdum, samgöngukostnaði og umhverfisáhrifum samgangna. Verkefni næstu áratuga er að fullbyggja ,,Borgina við Sundin" og því er uppbyggingu nýrra hverfa í útjaðri slegið á frest. Þetta eru mikil tíðindi fyrir fólk sem hefur verið að kaupa lóðir og byggja í úthverfum borgarinnar, svo sem í Úlfarsárdal. Þróun á þessum hverfum er slegið á frest. Hér er ekki deilt um ágæti þess að þétta borgina og nýta betur rými. Það verður hins vegar að gæta þess að bjóða sem fjölbreyttasta valkosti fyrir fólk því þarfir og langanir eru mjög mismunandi. Þar þarf borgin að sveigja sig með þörfum fólksins. 

Græna borgin er eitt af þemum nýs aðalskipulags og er gert ráð fyrir að 40% lands verði opin svæði innan þéttbýlis Reykjavíkur ætluð til útivistar, afþreyingar og leikja. Í tilkynningu borgarinnar segir að Reykjavíkurborg hafi mikinn metnað til að verða grænni og vistvænni og þar gegna samgöngur mikilvægu hlutverki. Stefnt er að því að hlutdeild almenningssamgangna í ferðum til og frá vinnu vaxi úr 4% í 12% og hlutdeild gangandi og hjólandi vaxi úr 21% í 30%.

Allt er það gott og blessað, með ýmsum aðgerðum má án efa efla notkun reiðhjóla en allar lausnir í almenningssamgöngum kosta útsvarsgreiðendur háar fjárhæðir. Það er því vandasamt að finna það samspil kostnaðar og nýtingar sem gagnast borgarbúum best. Veðurfar hér á landi er með þeim hætti að ákveðin hluti borgarbúa verður að treysta á einkabíl. Sumir eru beinlínis háðir honum. Það er mikilvægt að það sama gildi þar og í íbúðamálum, að sem fjölbreytilegastir valkostir séu í boði. Það má til sanns vegar færa að áður fyrr hafi menn horft of stíft til einkabílsins. Það er dýrt og erfitt að leysa allt út frá honum en menn meiga heldur ekki sveiflast of langt frá honum, borgin verður að halda áfram að bjóða upp á vegi og bílastæði þó einnig sé horft til annarra samgöngumáta. Fyrstu viðbrögð við breytingum á Hverfisgötu benda til þess að þar hafi menn fundið ágætan milliveg, þó heldur óhöndulega hafi tekist til með aðgengismál. Eigi að síður verður spennandi að sjá hvaða viðbrögð breytingarnar fá og hvernig Hverfisgatan þróast í framhaldinu.

Hvernig þétting? 

Í þessum pistli er ekki tilefni til að fara yfir ,,fagurfræðilegar" vangaveltur eða hvaða gerð af byggð fær að rísa. Hér hefur áður verið lýst áhyggjum af skipulagshugmyndum á Slippsvæðinu.  Tilefni er til að ítreka þær áhyggjur. Borgin á sjálf lóðir þær sem um ræðir og hefur alla burði til að skipuleggja byggðina þannig að hún falli sem best að því formi sem fyrir er. Framundan er að byggja mikið á miðbæjarsvæðinu og brýnt að ná að styðja við við þá húsagerð sem fyrir er og tryggja milda og hlýja ásýnd á svæðinu. Nýbyggingar á horni Austurstrætis og Lækjargötu sýna hvað hægt er að gera og hér er ítrekuð áskorun um að byggja í kringum Lækjartorg og gera það að lokuðu torgi. En það er útúrdúr.

Það er hins vegar ástæða til að rifja upp það sem Páll Hjaltason arkitekt og formaður skipulagsráðs Reykjavíkur skrifar 2. júlí 2012: ,,Þétting byggðar á auk þess ávallt að vera á forsendum þess byggðamynsturs sem fyrir er á hverjum stað og styrkja mannlífið í borginni. Sú niðurstaða sem samkeppni um Ingólfstorg leiddi af sér varðar veginn fyrir aðra uppbyggingu í miðborginni þar sem fólk á alltaf að vera í fyrirrúmi." Nú er bara spurningin, verður staðið við þetta?

Áskoranir í sambandi við atvinnulíf

Á heimasíðu Reykjavíkur segir; Reykjavík er skapandi borg með öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Því til stuðnings er bent á það markmið aðalskipulagsins að viðhalda fjölbreytni og styrk atvinnulífsins og skapa vaxtarskilyrði fyrir nýjar atvinnugreinar, einkum á sviði hátækni, grænnar orkunýtingar og menningar. Lögð er áhersla á að Reykjavík styrki hlutverk sitt sem höfuðborg landsins og verði forystuafl í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, vinnuafl og ferðamenn.

Komið er inn á Reykjavíkurflugvöll í skipulaginu og tekið  tillit til starfshóps undir forystu Rögnu Árnadóttur en starfshópurinn á að finna nýjan stað fyrir Reykjavíkurflugvöll og þannig hugsanlega, já hugsanlega, leysa þessa erfiðustu þraut í öllu skipulagi höfuðborgarinnar. (Reyndar virðist Kvosarskipulagið vera að færast í sambærilega sjálfheldu þar sem ekkert færst gert þrátt fyrir stöðuga framleiðslu nýrra tillagna.) Samkvæmt aðalskipulaginu nýja fær NS-flugbrautin að vera til ársins 2022. Þriðja flugbrautin fer strax enda er byrjað að teikna byggð þar. Hún átti upphaflega að fara í kringum síðustu aldamót þegar flugvöllurinn var endurgerður.