c

Pistlar:

1. mars 2016 kl. 21:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Finnland: Veiki maðurinn í Evrópu?

Þetta er kannski ekki uppbyggileg fyrirsögn en hún er komin frá sjálfum fjármálaráðherra Finnlands, Alexander Stubb. Nýjar tölur sýna en betur það sem allir vissu, að uppstokkun þarf að eiga sér stað í finnsku efnahagslífi eins og var rakið hér í grein fyrir helgi.  

Óhætt er að segja að mikill óróleiki sé á finnskum vinnumarkaði og í finnskum stjórnmálum. Sá er þetta skrifar ræddi við gamlan félaga frá Finnlandi í vikunni. Hann var áhyggjufullur yfir ástandinu og  gekk svo langt að segja að stjórnin væri að höggva að rótum velferðarkerfisins og færa valdið yfir til atvinnurekenda. Viðkomandi starfar hjá stéttarfélagi og var ómyrkur í máli yfir nálgun stjórnvalda. Hann var þó ekki úrkula vonar um að ásættanleg niðurstaða náist.

Óhætt er að segja að umræðan standi nú sem hæst um efnahagsmál í Finnlandi þar sem aðilar vinnumarkaðarins (samtök atvinnulífsins og samtök verkalýðsins) náðu í fyrrinótt samkomulagi um tillögur um vinnu- og samningsréttarmál. Frestur þessara aðila til að ná samkomulagi var þá við það að renna út. Ríkisstjórnin taldi sig knúna til að setja lög (s. tvånglag) án frekara samráðs við aðila vinnumarkaðarins ef ekki næðist samkomulag. Lögunum var ætlað að taka þátta eins og vinnutíma, orlofsréttinda, lífeyrisréttinda og miðlægra ákvarðana um samningsbundin málefni. Viðamikil endurskoðun á umhverfi finnsks vinnumarkaðar og endurskipulagning finnsk atvinnumarkaðarins hefur verið forgangsmál hjá ríkisstjórninni sem miðar að því að efla hagkerfið og auka hagvöxt. Erfiðlega hefur gengið að ná samkomulagi en nú telja aðilar vinnumarkaðar að eitthvað sem megi líkja við þjóðarsátt sé í augnsýn. Olli Rehn efnahagsmálaráðherra kynnti drög að samkomulagi í ríkisstjórn síðdegis í gær.finnland

Úttekt OECD

Það hefur blasað við um langt skeið að uppstokkunar er þörf í finnskum efnahag. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti úttekt sína á efnahagsmálum Finnlands 28. janúar s.l.  og fjármálaráðherra Finnlands Alexander Stubb hélt blaðamannafund um niðurstöðurnar samhliða. Helstu niðurstöður voru sláandi:

  • Velferð er mikil en hagkerfið er veikt.
  • Skuldir hins opinbera fara vaxandi. Ríkisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu er hæst í OECD löndunum.
  • Samdráttur í landsframleiðslu Finnlands er yfir 3% af vergri landsframleiðslu og vergar skuldir hins opinbera námu rúmlega 60% af landsframleiðslu árið 2015.
  • Alþjóðleg niðursveifla og viðskiptahöft gagnvart Rússlandi hafa komið niður á efnahag Finnlands, einkum vegna samdráttar í skógariðnaði og framleiðslu raftækja.
  • Atvinnuleysi eykst hratt og er orðið landlægur vandi.
  • Langtíma fæðingarorlof er talið ógna stöðu kvenna á vinnumarkaði varanlega og talið vera eitt af helstu vandamálum á finnskum vinnumarkaði.
  • 51% mæðra með börn undir þriggja ára aldri eru heimavinnandi.
  • Mælt er með styttingu fæðingarorlofs og lægri langvarandi greiðslum til heimavinnandi foreldra.

Ríkisstjórnin vill endurheimta samkeppnishæfni

Ríkisstjórn Finnlands hefur gefið út áætlun sem ætlað er að endurheimta samkeppnishæfni landsins og tryggja sjálfbærni ríkisfjármála í fjárlagagerð um leið og hún hyggst ráðast í skipulagsbreytingar, meðal annars að forskrift OECD, sem hefur lýst yfir stuðningi sínum við  stefnu finnskra stjórnvalda um niðurskurð í opinberum útgjöldum.

Stefna stjórnvalda felur m.a í sér að hvetja til samvinnu á milli háskóla og fyrirtækja, minnka tekjuskatt á vinnumarkaði, samræmi í virðisaukaskatti, hækkun á fasteignaskatti, minnka atvinnuleysi og efla stuðning við atvinnuleit.

OECD hefur bent á að nauðsynlegt sé að lengja starfsaldurinn og hækka eftirlaunaaldur. Einnig hefur stofnunin bent á nauðsyn þess að leggja áherslu á endurmenntun starfsmanna til að viðhalda grundvallarfærni á vinnumarkaði. Vinnuafl í Finnlandi eldist nú hratt og það hve mjög hefur dregið úr starfsemi hátæknifyrirtækja hefur dregið verulega úr framleiðni vinnuafls. Laun hækkuðu um 19,2% í Finnlandi frá 2008 til 2013 og Finnland glataði samkeppnishæfni sinni á sama tíma. Aðlögun að því í gegnum launalækkanir hefur mætt gríðarlegri andstöðu. Það hlýtur að vekja upp spurningar um það hvernig hagkerfi evrusvæðisins geta yfir höfuð aðlagast í umhverfi stöðugs gengis, lágra eða neikvæðra vaxta og lítillar sem engrar verðbólgu. Ekki beinlínis uppskrift að íslenskum veruleika en eigi að síður erfitt viðureignar eins og það birtist í Finnlandi.

Efnahagspá OECD fyrir 2016 felur í sér spá um að landsframleiðsla Finnlands vaxi um 1,1 prósent, og 1,6 prósent á næsta ári (hér á Íslandi er gert ráð fyrir 4 til 5% hagvexti.) OECD spáir því að útflutningur Finna muni vaxa um 3,3% á þessu ári, og fjögur prósent á næsta ári. Því er spáð að atvinnuleysi mun halda áfram að vaxa og nema 9,8% á næsta ári. Skuldir hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu mun aukast á næsta ári og nálgast 65%.

Það má víða finna styrkleika í finnsku efnahagsumhverfi svo sem gott menntakerfi, sterkt fjármálakerfi og öflugt umhverfi rannsóknar og þróunar. Hvort hér er hægt að tala um kerfislæga ágalla skal ósagt látið en ljóst að Finnar þurfa að ná sátt um næstu skref.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.