c

Pistlar:

7. mars 2016 kl. 16:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ferðaþjónustan: Tækifæri og áskoranir

Vandi fylgir vegsemd hverri. Um þessar mundir njótum við Íslendingar einstakrar velgengni í ferðaiðnaði, hingað streyma ferðamenn og aukningin sem við fáum (án þess að eyða miklum fjármunum í markaðskostnað) er meiri en aðrar þjóðir sjá. Þetta hefur orðið að umtalsefni áður hér í pistlum þar sem meðal annars var vakin athygli á að margt hefði tekist vel til. Upplifun ferðamanna virðist sterk og ánægjuleg og flestir fá hér prýðisgóða þjónustu. Nú virðast hins vegar Íslendingar hafa ákveðið að færa kvörtunar- og heimsósómaumræðu sína yfir á ferðaþjónustuna. Og gera almannavaldið ábyrgt fyrir því að fólk virðir öll boð og bönn að vettugi og fer sér að voða. Þó ekki meira en búast má við þegar mikill fjöldi sækir landið heim. Það segir sig sjálft að margvíslegar áskoranir fylgja auknum ferðamannafjölda en af hverju gefa menn sér það fyrirfram allt muni fara til fjandans.Gleymum því ekki að Ísland er í 18. sæti af 141 landi yfir samkeppnishæfustu ferðamannalönd heims samkvæmt World Economic Forum. Látum ekki eina og eina fýlupokafrásögn um Bláa Lónið slá okkur út af laginu.ferðamenn  

Um þessar mundir hafa Íslendingar ríflega einn milljarð króna í gjaldeyristekjur af ferðamönnum á dag. Já, hvern einasta dag ársins þó vissulega dreifist þetta misjafnlega yfir árið. Fyrir nokkrum misserum sögðu menn að mesta áskorunin yrði að dreifa komu ferðamanna yfir árið og för þeirra um landið. Nú hefur augljóslega tekist að svara þessari áskorun að hluta þó að fjöldi ferðamanna sem hlutfall af landsvæði sé enn lágt á Íslandi. Þá segja menn að næsta áskorunin sé að tryggja öryggi ferðamanna og vernda landið fyrir átroðslu. Er einhver ástæða til að ætla að það gangi ekki? Umtalsvert meiri fjármunum er nú varið til ferðamála og við munum sjá það á næstu misserum að stöðugt þarf að bæta við til að halda í við aukinn fjölda ferðamanna. Við munum sjá hærri og hærri upphæðir renna til þess að styrkja innviði landsins og bæta móttöku ferðamanna.

Nýjar og nýjar spár

Það er hins vegar ljóst að margvíslegar áskoranir eru framundan. Spáð hefur verið áframhaldandi fjölgun ferðamanna til Íslands og nýverið hækkaði Isavia spá sína fyrir þetta ár, úr 1,5 milljónum ferðamanna í 1,7 milljónir, það eru þá ferðamenn sem koma um Keflavíkurflugvöll. Það er heldur meira en nokkurra daga gömul spá Íslandsbanka sem spáði 29% aukningu eða rúmlega 1,6 milljón ferðamönnum á árinu 2016. Ljóst er að uppfæra þarf hagspá fyrir komandi ár ef þessi aukning Isavia verður að veruleika.

Á síðasta ári komu nærri 1,3 milljónir ferðamanna til landsins og árið þar áður um 970 þúsund. Samkvæmt. Hagstofunni starfi nú 17.100 manns hérlendis beint við ferðaþjónustu en voru 10.800 árið 2008. Fjölgunin á sjö árum nemur 6.300 manns. Allstaðar þarf nýtt fólk og nú er spað að nánast ekkert atvinnuleysi verði á Íslandi næsta sumar. Starfsmönnum á gististöðum og við veitingarekstur hefur til að mynda fjölgað verulega eins og nærri má geta; voru 7.800 árið 2008 en í fyrra alls 12.600. Þeim hefur því fjölgað á sjö árum sem nemur öllum íbúum Seltjarnarnes og reyndar vel það.

Íslandsbanki spáir því að ferðaþjónustan muni afla tæplega 428 milljarða króna í útflutningstekjur og að hlutur greinarinnar í heildarútflutningstekjum verði um 34% á þessu ári. Enda er það svo að Seðlabankinn er að fyllast af gjaldeyri eftir mestu kaup sögunnar þar á bæ. Ljóst er að Íslendingar keppast við að taka á móti þessum fjölda og uppgangurinn verulegur víða. Fyrir stuttu hitti ég mann sem hóf rekstur í ferðatengdri þjónustu fyrir nokkrum árum. Hann sagðist tvöfalda veltuna á hverju ári. Um 22 þúsund fleiri gistinætur seldust í gegnum Airbnb í október á árinu 2015 en í sama mánuði árið áður. Nemur það um 225% vexti eða rúmlega þreföldun. Þetta eru ótrúlegar tölur en sýna um leið að Íslendingar hafa verið duglegir að nýta sér þetta ótrúlega tækifæri.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.