c

Pistlar:

29. júní 2016 kl. 17:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Betri einkunn, verra sæti

Ísland er í 10. sæti af 133 þjóðum á nýjum alþjóðlegum lista yfir velferð og gæði samfélagsinnviða og hefur lækkað um 6. sæti milli ára. Það þýðir þó ekki að velferð hafi minnkað á þessum tíma, þvert á móti hefur velferðarvísitalan hækkað hér á landi. Á móti kemur að hún hefur hækkað enn meira í öðrum löndum sem skjótast þar með upp fyrir Ísland, sem nú er neðst Norðurlanda á listanum. Finnland trónir í efsta sætinu, Kanada er í öðru sæti, Danmörk í þriðja, Svíar verma 6. sætið en Norðmenn það sjöunda en þeir lækka um sex sæti, eins og Íslendingar. Tölfræðilega er mjög lítill munur á efstu sætunum en tölur um Ísland byggja á gögnum frá 2012 til 2016. Eins og sést í meðfylgjandi töflu eru Íslendingar í efsta hópnum.spi2

Listinn, Social Progress Index (SPI), er tekinn saman af Social Progress Imperative stofnuninni, sem hefur aðsetur í Washington og London og byggir á fræðagrunni sem Micheal E. Porter, hagfræðiprófessor frá Harvard, hefur átt mestan þátt í að þróa. Í tilkynningu frá SPI segir að við röðun ríkja á listann sé horft til þess sem stofnunin telji mestu skipta í varðandi velferð fólks. Alls er byggt á 53 atriðum sem er skipt í þrjá flokka; grunnþarfir, undirstöður velferðar og tækifæri. Meðal lykilþátta eru síðan undirþættir eins og lífslíkur, öryggi, trúfrelsi, jafnrétti kynjanna og aðgangur að heilsugæslu, heilsufar, aðgangur að grunnmenntun og æðri menntun og hagkvæmu húsnæði, svo eitthvað sé nefnt.

Mæling sem er í stöðugri þróun

Í viðtali í Fréttablaðinu fyrr á árinu sagði Michael Green, framkvæmsatjóri Social Progress Imperative, gagnaöflun fyrir SPI-vísitöluna auðveldari en öflun hagtalna að því leyti að horft sé til hluta sem breytist hægar. „Læsi fullorðinna kemur til dæmis ekki til með að sveiflast á milli ára. Þróunin sem horft er til er jafnari,“ sagði Green.

Með markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem samþykkt voru í september síðastliðnum, hefur áhersla landa á gagnaöflun aukist og það hjálpar til við að þróa vísitölu eins og SPI. Miklu skiptir að notkun SPI falli að þessum markmiðum og sé gagnlegt tól til þess að fylgjast með því hvernig gangi að vinna að þessum markmiðum sjálfbærrar þróunar. „Þessi sýn sem við höfum á þróun heimsmála fram til 2030 er mjög mikilvæg og skiptir máli að afla henni fylgis meðal almennings. Við styðjum þetta framtak Sameinuðu þjóðanna og teljum SPI geta hjálpað til við að ná þessum markmiðum,“ sagði Green í Fréttablaðsviðtalinu. Eins ágæt og umfjöllun Fréttablaðsins var á þeim tíma, þess meiri vonbrigði er á hve neikvæð framsetning var á niðurstöðunni á forsíðu blaðsins í dag. Var augljóst að fréttinni var ætlað að falla að pólitísku viðhorfi blaðsins og því er niðurstaðan máluð dekkri en þörf er á.

Staðreyndin er sú að nálgun SPI á samanburð milli þjóða er mjög áhugaverð og á skilið upplýsta umræðu. Mæling þeirra er í stöðugri þróun, rétt eins og raunin er með mælingar á hagvexti. Gagnaöflunin sem nú er að baki skili traustum og góðum niðurstöðum sem á er byggjandi, þótt lengi megi breyta og bæta.

Á vegum SPI var haldin ráðstefna hér á landi fyrir nokkrum mánuðum þar sem kom fram að enn er verið að vinna mikið í aðferðafræði vísitölunnar og reyna að gera hana sem best úr garði. Unnið er að breytingum á ýmsum viðmiðum, setja inn ný og taka önnur út. Um SPI og vísitöluna hefur verið fjallað nokkuð rækilega í pistlum hér áður.

Tölfræðilega lítill munur

Það sem stendur kannski uppúr er að það er tölfræðilega afskaplega lítill munur á þeim löndum sem verma efstu sætin. Við föllum jafn mikið og Norðmenn á listanum núna, eins og áður var nefnt. Vísitölur sem þessar verða seint fullkomnaðar en þær ættu að vera mikilvægar fyrir slík samanburðafræði, eins takmörkuð og þau annars eru.

Hafa verður í huga að á milli ára hafa verið gerðar aðferðafræðilegar breytingar á SPI-vísitölunni og eru að valda því að Ísland færist niður um 6. sæti þó heildareinkunn hækki. Þessi niðurstaða þýðir ekki að velferð hafi minnkað á þessum tíma, þvert  móti hefur velferðarvísitalan hækkað hér á landi. Höfum í huga að Michael Green segir í samtali við Ríkisútvarpið helstu ástæðu þess að Ísland féll úr 4. sætinu, sem það var í 2015, niður í það tíunda nú vera betri frammistöðu annarra þjóða. Gæði samfélagsinnviða á Íslandi hafi hreint ekki minnkað samkvæmt mæliaðferðum stofnunarinnar, þvert á móti hafi þeir styrkst.

Það sem leikur okkur verst og setur okkur neðst Norðurlanda er þættir eins og offita (123. sæti - vorum í 87. sæti áður) og sjálfsmorðstíðni (74. sæti, vorum í 66. sæti). Báðar þessar tölur byggja á gögnum frá 2013.

Einnig kann að koma einkennilega fyrir sjónir að trúfrelsi mælist í 58. sæti á meðan umburðarlyndi í trúmálum mælist í 1. sæti. Þá fáum við lága einkunn fyrir gæði háskóla sem er umdeilanlegur samanburðarhópur fyrri litla þjóð eins og okkur.

Einkunnarliturvegna æðri menntunar (advanced education) fer frá rauðu litaspjaldi yfir á gult. Íslendingar hækka úr 27. sæti í 10. sæti. Þar skiptir miklu að nú er mældur nýr liður að íslenskri ábendingu. Það er aðgangur að æðri menntun erlendis (e. percent tertiary students enrolled in globally ranked universities) þar erum við í 1. sæti vegna þess hve mikið Íslendingar sækja erlenda háskóla. Sömuleiðis gæti þurft að útskýra betur af hverju við erum í 20. sæti þegar kemur að tjáningafrelsi, fljótt á litið sér maður engar skynsamlegar skýringar á því.

Niðurstaða um aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði (affordable housing) byggist á viðhorfskönnun. Þar er prósentan sú sama milli ára en við færumst úr 66. sæti í 74. sæti.

Efstu 12 þjóðirnar eru, einkunn innan sviga:

1. Finnland (90,09)

2. Kanada (89,49)

3. Danmörk (89,39)

4. Ástralía (89,13)

5. Sviss (88,87)

6. Svíþjóð (88,80)

7. Noregur (88,70)

8. Holland (88,65)

9. Bretland (88,58)

10.-11. Ísland og Nýja Sjáland (88,45)

12. Írland (87,94)

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.