c

Pistlar:

9. október 2016 kl. 14:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Blessaði guð Ísland?

Ísland vermir nú fimmta sætið á lista yfir þau ríki þar sem landsframleiðsla er mest á hvern íbúa, mælt í bandaríkjadölum. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem fjármálafyrirtækið Gamma hefur tekið saman úr opinberum gögnum og Morgunblaðið gerir að umtalsefni í gær.

Efnahagsleg staða Íslands hefur styrkst mikið á kjörtímabilinu og einkennist nú af stöðugleika með lágri verðbólgu, litlu atvinnuleysi, aukinni atvinnuþátttöku, auknum kaupmætti, lækkun skulda, bættri eiginfjárstöðu heimilanna, minni vanskilum og hallalausum ríkisrekstri. Töluverður hagvöxtur hefur verið undanfarin ár og spáð er umtalsverðri hagvaxtaraukningu á þessu ári. Gangi hagspár eftir verður núverandi tímabil eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeiðið í seinni tíma hagsögu Íslands.  Mikil umsvif hafa verið í hagkerfinu en þrátt fyrir það hefur viðskiptajöfnuður við útlönd verið jákvæður. Neysla er að taka við sér en engum dylst að skuldsetning í hagkerfinu er nú allt önnur en var.

Græddu á hruninu?

Ljóst er að staða Íslands hefur gjörbreyst á fáum árum en í vikunni minntumst við þess að 8 ára er síðan þáverandi forsætisráðherra bað guð að blessa Ísland. Getur verið að það hafi gerst? Jú, aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart slitabúunum urðu til þess að rík­is­sjóður Íslands virðist hafa grætt á falli viðskipta­bank­anna þegar ein­ung­is litið á bein­an kostnað við fall og end­ur­reisn banka­kerf­is­ins eins og nýlegar skýrslur sína. Frá hrun­inu haustið 2008 og fram að árs­byrj­un 2016 hef­ur rík­is­sjóður haft af þessu hrein­an ábata sem nem­ur um 76 millj­örðum króna á föstu verðlagi árs­ins 2015.

Með end­ur­heimt­um af fjár­mögn­un viðskipta­bank­anna og skatt­lagn­ingu og stöðug­leikafram­lög­um slita­bú­anna hafi rík­is­sjóður ekki aðeins end­ur­heimt all­an bein­an kostnað vegna ástar­bréfaviðskipta Seðlabank­ans, verðbréfalána rík­is­sjóðs, rík­is­ábyrgða, láns Seðlabank­ans til Kaupþings og falls spari­sjóðanna, held­ur haft hrein­an ábata um­fram það sem nem­ur um 286 millj­örðum króna á verðlagi hvers árs.

Stærst­ur hluti kostnaðar­ins féll til á fyrri hluta tíma­bils­ins, á ár­un­um 2008 til 2012, en end­ur­heimt­urn­ar féllu að mestu til á seinni hluta tíma­bils­ins, á ár­un­um 2013 til 2015. Þar af er stærst­ur hluti þeirra um ára­mót­in 2015/2016. Vegna þessa er ábati rík­is­sjóðs mæld­ur á verðlagi árs­ins 2015 nokkuð lægri eða um 76 millj­arðar króna. Sem hlut­fall af vergri lands­fram­leiðslu hvers árs nem­ur ábat­inn 2,6%, sem jafn­gild­ir um 57 millj­örðum að nú­v­irði árið 2015.

Ótrúlegur viðsnúningur ríkissjóðs

Enn þetta birtist ekki síst í því að hrein peningaleg eign ríkissjóðs jókst um 331,3 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2015 og 2016. Tekjur af stöðugleikaframlagi upp á 384,3 milljarða kr. eru meðtaldar á 1. ársfj. 2016.

Þegar fyrstu tveir ársfjórðungar ársins 2016 eru bornir saman við fyrstu tvo árið 2015 þá hafa tekjur ríkissjóðs aukist um hvorki meira né minna en 408,8 milljarða króna. Tekjur ríkisins af stöðugleikaframlagi upp á 384,3 milljarða króna eru þar meðtaldar en framlagið var tekjufært á fyrsta ársfjórðungi 2016. Um er að ræða framlög slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja sem kemur í stað greiðslu stöðugleikaskatts. Á öðrum ársfjórðungi var tekjufærð 15,3 milljarða króna arðgreiðsla frá bönkunum. Eignarhlutur íslenska ríkisins í fjármálafyrirtækum, sem var hluti af uppgjörinu við slitabúin, er þar ekki meðtalinn.

Sem hlutfall af áætlaðri landsframleiðslu ársins námu skuldirnar 76,8% á öðrum ársfjórðungi 2016 en voru 89,2% á öðrum ársfjórðungi 2015.

Fordæmalaus viðsnúningur

Allt þetta stuðlar að fordæmalausum viðsnúningi. Árið 2009 vermdi landið sæti númer 14 samkvæmt sömu tölum um landsframleiðslu. Gísli Hauksson, forstjóri Gamma, segir í viðtali við Morgunblaðið að staða Íslands sé ekki síst áhugaverð þegar litið er til þeirra ríkja sem verma sætin fyrir ofan það á listanum. Það eru Noregur, Katar, Sviss og Lúxemborg.LANDS

„Löndin þar eru ekki að öllu leyti samanburðarhæf. Þá er einnig hægt að nefna að í Lúxemborg og Katar vinna miklu fleiri en búa þar og það veldur því að þjóðarframleiðsla mæld á hvern íbúa verður mun hærri en ef aðeins væri litið til þess hóps sem í raun byggir landið.“

Gísli segir að á síðustu árum hafi orðið fordæmalaus viðsnúningur á hagkerfinu og að ekki sé viðlíka dæmi að finna meðal OECD-ríkjanna. „Kaupmáttur Íslendinga í bandaríkjadölum hefur ekki verið hærri síðan 2007 en munurinn á stöðunni nú og þá er sá að skuldir heimilanna og ríkisins eru mun lægri.“

Gríðarleg styrking krónunnar

Ein birtingarmynd hinnar breyttu stöðu á Íslandi er stöðug styrking íslensku krónunnar þrátt fyrir  viðamikill inngripa Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði. Seðlabankinn hefur verið að safna í gjaldeyrisvaraforða sinn og er kominn með gríðarlegan forða sem nemur um 30% af vergri landsframleiðslu. Vissulega fylgir kostnaður þessum forða sem meðal annars byggist á hinum háa vaxtamuni sem er á milli landa.

Seðlabankinn hefur að undanförnu verið að draga úr kaupum á gjaldeyri og það leiðir til þess að krónan hefur styrkst meira. Það er fordæmalaust miðað við fyrri hagsveiflur að krónan sé að styrkjast á þessum tíma og að viðskiptajöfnuðurinn sé jákvæður. Það er hægt að taka undir þau orð Gísla Haukssonar að það er margt sem bendir til þess að gengi krónunnar hafi verið rangt skráð á síðustu árum og sé nú að taka út ákveðna leiðréttingu í kjölfar þess að Seðlabankinn hefur verið að byggja upp forðann með svo afgerandi hætti.

Staða heimilanna batnað mikið

En ekki skiptir síður máli að staða heimilanna hefur batnað mikið. Eiginfjárstaða batnað umtalsvert síðustu þrjú ár og heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð fækkar annað árið í röð og nú um nánast 10%. Merkileg þróun sem sjá má í frétt Hagstofunnar.

Árið 2015 fengu 6.996 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 753 (9,7%) frá árinu áður. Árið 2014 fækkaði heimilum með slíka aðstoð um 283 (3,6%) milli ára. Árin þar á undan fjölgaði heimilum hins vegar árlega og hafði fjölgað að jafnaði um 627 ári frá árinu 2007.

Þá skiptir ekki síður máli að eiginfjárstaða allra fjölskyldugerða batnaði árið 2015 samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Þetta á einkum við um einstæða foreldra en staða eiginfjár í þeim hópi jókst um 50% árið 2015. Já, um 50%! Alls voru 153.084 fjölskyldur (76%) með jákvæða eiginfjárstöðu í lok árs 2015 sem er 6,9% aukning á milli ára. Þetta er gríðarlegur viðsnúningur.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.