c

Pistlar:

1. nóvember 2016 kl. 23:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Goðsagnakennd hagspá

Það er bókmenntaleg vísun í hagspá þeirri sem greiningardeild Arion banka kynnti í morgun. „Fljúgum ekki of nálægt sólinni,” var heiti kynningarinnar og sjálfsagt verið að minna á örlög Íkarosar, persónu úr goðafræði Grikkja, en örlög hans urðu að bræða vængi sína með því að fljúga of nálægt sólinni og steypast í hafið í framhaldi þess. Vængir Íkarosar voru úr vaxi en hagspá Arion er greinileg að reyna að senda varnaðarorð inn í hagkerfið nú þegar landsmenn bíða eftir nýrri ríkisstjórn. Í nýliðin kosningabaráttu virtist það vera almennur skilningur frambjóðenda að allar kistur ríkissjóðs væru fullar og sjálfsagt sjá margir útgjaldatækifæri í þeirri stöðu þó skuldastaðan ætti að segja annað. „Öfundsverð framtíð” hét einn kynningarfundur greiningardeildar Landsbankans skömmu fyrir hrun og minnir okkur á að það getur verið erfitt að spá fyrir um fortíðina. En spár flestra innlendra greiningaraðila eru í líkum takti, studdar af erlendum aðilum. Og væntingavísitalan er að nálgast fyrri hágildi eins og sést hér í meðfylgjandi grafi sem fengið er að láni úr kynningu Arion banka. væntingar

Hvað um það. Hagspá greiningardeildar Arion banka staðfestir hagvaxtarhorfur eins og þær hafa birst frá flestum greiningaraðilum. Hagvöxtur í ár og á næsta ári verður öðru hvoru megin við 5%, það mesta sem þekkist í vestrænum löndum og augljóst að það árar nokkuð vel í íslensku hagkerfi. Hagvöxturinn er óvenju kröftugur og að mestu drifinn áfram af einkaneyslu og fjárfestingu. Greiningardeildin segir réttilega að hér sé mikill vöxtur – en þó ekki úr takt við söguna. Sem dæmi má nefna að í Danmörku var hagvöxtur 1,6% á síðasta ári, gert er ráð fyrir að hann verði 1,8% ï ár og spár eru um að hann verði 2,1% á næsta ári. Of lítill hagvöxtur er talið vandamál í Danmörku en einkaneysla og útflutningur eru helst að ýta undir hagvexti þar.

Árið sem einkaneysla tók við sér

Aðrar hagtölur eru í takt við þetta, atvinnuleysi nánast ekkert og spenna á vinnumarkaði líkleg til að kalla á verulegan innflutning vinnuafls. Um leið spáir greiningardeild Arion banka 7% styrkingu krónunnar á síðasta ársfjórðungi ársins og 8% styrkingu á næsta ári. Augljóslega er kaupmáttur í íslenskum krónum með því mesta sem þekkist og viðbúið að þess sjái aukin merki í einkaneyslu. Greiningardeildin telur að aðstæður á vinnumarkaði séu til þess fallnar að styðja við áframhaldandi vöxt einkaneyslu. Annar hver Íslendingur fer til útlanda á árinu og margir oftar. Bílar seljast sem aldrei fyrr og dýrari neysluvarningur líka. Íslendingar eru að leyfa sér að njóta góðærisins og hugsanlega er árið 2016, árið sem einkaneysla tók við sér. Hafa verður þó í huga að einka­neysl­an í dag hefur ekki náð einka­neysl­unni árið 2005, þegar  hún óx um 12%. Greiningardeildin gerir ráð fyrir 7,4% vexti á einka­neysl­unni á þessu ári en að vöxt­ur­inn minnki á næsta ári í 6,5%. Þá er því spáð að hann verði 5% árið 2018 og 4,4% 2019. Það er í takt við hagvaxtarspár þessara ára. Ekkert jafnast á við hagvöxt ársins 2007, þegar Hagstofan var loksins búinn að gera upp við sig hve hár hann var!

Atvinnuvegafjárfestingar draga vagninn

Það er mat grein­ing­ar­deild­ar­inn­ar að at­vinnu­vega­fjár­fest­ing­ar muni draga vagn­inn þegar kemur að hag­vext­i fyrri hluta spá­tím­ans. Þar mun stóriðja, raf­orku­fram­leiðsla og ferðaþjón­usta spila stórt hlut­verk. At­vinnu­vega­fjár­fest­ing hef­ur verið að vaxa mjög mikið og held­ur það áfram út næsta ár. Hins veg­ar verður sam­drátt­ur árið 2018 og 2019 og skýrist það af breyt­ing­um á stór­um fjár­fest­ing­arliðum milli ára.

Þá spá­ir grein­ing­ar­deild­in því að verðbólg­an hald­ist und­ir eft­ir vik­mörk­um út spá­tím­ann og að áfram verði mik­ill vöxt­ur í inn­flutt­um neyslu- og fjár­fest­ing­ar­vör­um. Vitaskuld mun sterk staða íslensku krónunnar hafa áhrif á innlendar verðlagshækkanir og á meðan ferðaþjónustan heldur áfram að styðja við sterkan þjónustujöfnuð og olíuverð helst skikkanlegt má ætla að verðbólga verði skikkanleg.

Það ánægjulega er að skuldir heimila og ríkissjóðs eru að minnka en ójafnvægisástand gæti verið að myndast í hagkerfinu telur greiningardeildin. Hækkandi húsnæðisverð styður við framboðsaukningu á íbúðamarkaði og áfram munum við sjá spennu á þeim markaði.

En augu allra eru á krónunni. Krónan hefur styrkst um 15% á árinu, einkum á síðustu vikum. Að  mati greiningardeildarinnar er krónan allt að 10% sterkari en staðist getur til lengri tíma. Þó eru sterkar vísbendingar um að krónan muni styrkjast áfram á næstu mánuðum, sem mun að öllum líkindum grafa undan gengi hennar síðar eins og kom fram í frétt hér á mbl.is í dag.

En það er skiljanlegt að greiningardeildin slái fram varnaðarorðum enda má lítið út af bregða og ekki er langt síðan hér var slegið fram slíkum viðvörunum. Svo sem varðandi það að óvíst er hvaða stefnu ríkisfjármál munu taka á komandi misserum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.