c

Pistlar:

12. nóvember 2016 kl. 13:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Meiri eða minni fátækt - það er spurningin!

Þeim sem lifa við algera örbyrgð (e. extreme poverty) hefur fækkað um meira en helming undanfarin 30 ár. Kannanir sýna hins vegar að almenningur gerir sér alls ekki grein fyrir þessu og það sem meira er, flestir telja að fátækt í heiminum hafi og sé að aukast. Þessu er reyndar ólíkt varið með íbúa nýja heimsins og gamla heimsins. Í gamla heiminum (Evrópu og Norður-Ameríku) er það trú manna að fátækt sé að aukast. Í fjölmennustu ríkjum heims, Kína og Indlandi, er trú almennings önnur ef marka má kannanir. Hvað skyldi valda þessum mun? Gæti verið að sú einhliða og neikvæða umræða sem fjölmiðlar almennt standa fyrir á vesturlöndum sé að skekkja sýn almennings? Hugsanlega getum við séð þetta hér á Íslandi þar sem nýjum skýrslum um fátækt virðist flestum vera það sameiginlegt að predika að hún sé að aukast. Predika er hér sagt, einfaldlega af því að oftar en ekki skortir algerlega það sem mætti kalla grunnrannsóknir með afmörkun efnis þegar nýjar skýrslur eru kynntar. Þá er átt við eitthvað sem mætti kalla empírískar rannsóknir með eigind- og megindlegarlegum aðferðum, jafnvel skoðanakönnunum, ef því er að skipta. Ekki er unnt að lykla hér í nýja skýrslu Rauða krossins í Reykjavík um fátækt þar sem hún er ekki lengur aðgengileg á vefnum. Unnið er að leiðréttingum á henni en hún er fyrrgreindum annmörkum háð. En vissulega er umræða um fátækt ekki einföld.

Það breytir því ekki að metnaðarfull markmið hafa verið sett. Fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (Sustainable Development Goals) gengur út á að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þegar tölur eru skoðaðar þá virðist það ekki eins óyfirstíganlegt og margur gæti haldið. Tölur sem sýna fátækt í heiminum hafa jafnt og stöðugt verið að lækka síðan 1990, ekki síst vegna uppgangs í áðurnefndum tveimur löndum. Þar er mannfjöldinn mestur og breytingar þar skipta því miklu. En það er trú margra að enn sé hægt að gera betur og það sé hægt að ná árangri við að draga úr og jafnvel útrýma fátækt.

Vita ekki að fátækt er að minnka

En áttar fólk sig almennt á þeirri staðreynd að fátækt hefur minnkað? Nýjar skýrslur segja okkur merkilega sögu. Árið 2014 vissu 84% Bandaríkjamanna ekki af þeim breytingu á fjölda fátækra sem hér hafa verið raktar. Þvert á móti, 67% aðspurðra töldu að fátækt hefði verið að aukast á undanförnum 30 árum. Meðfylgjandi graf sýnir hlutfall þeirra eftir löndum sem trúa því að fátækt sé að minnka. Tölur sem koma á óvart.fatækt

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að 68% trúðu ekki að unnt væri að útrýma algeri örbyrgð á heimsvísu (extreme global poverty) á næstu 25 árum (Todd 2014). Nýleg rannsókn sýnir að þekkingarleysi á heimsmarkmiðunum er ekki bundin við Bandaríkin (Lampert and Papadongonas 2016). Mikill fjöldi fólks - bæði í þróuðum ríkjum og þróunarríkjum - vita ekki að þessi breyting er að eiga sér stað. Það kann hins vegar að koma einhverjum á óvart að Kínverjar virðast hafa skýrari mynd af breytingunum en t.d. Bandaríkjamenn eða Þjóðverjar, svo dæmis séu tekin. Það er reyndar hægt að hugga sig við það að rannsóknir sýna að ungt fólk virðist vera betur með á nótunum um þessar breytingar en þeir eldri.  

En það gæti verið freistandi að velta fyrir sér af hverju svo margir vita svo lítið um þann ótrúlega árangur sem þrátt fyrir allt hefur náðst. Árangur sem Nicholas Kristof hjá New York Times kallar „bestu fréttina sem þú veist ekki af.” Vitaskuld er hægt að missa sig í vangaveltum um það af hverju þessum jákvæðu staðreyndum er ekki haldið meira á lofti, sérstaklega nú þegar allir eru tengdir í gegnum samfélagsmiðla og hafa aðgang að nánast öllum upplýsingum í heiminum í gegnum netið. Fólki er ekki vorkunn að kynna sér málin betur og á þessum vettvangi hafa allmargar greinar birst um fátækt undanfarin ár.

Úr fátækt á Siglufirði í milljarðaviðskipti

Í gegnum tíðina hefur fátækt verið sett í margskonar samhengi í pistlum hér. Bæði út frá nýjum tölfræðiupplýsingum en einnig lífi fólks eins og það birtist í frásögnum hér heima. Eftirminnilegt var að lesa ævisögu Óskars Jóhannssonar kaupmanns. Nú fyrir nokkrum dögum kom út ævisaga athafnamannsins Birkis Baldvinsson. Í kynningu á bókinni segir. „Það er langur vegur frá verkamannabústöðum á Siglufirði eða saggafullum kjallara í Keflavík til þess að halda heimili í þremur heimsálfum og stunda milljarða viðskipti. En á þessari leið hefur Birkir Baldvinsson lent í ótrúlegum ævintýrum, jafnt á landi sem skýjum ofar.” Saga Birkis er í stíl við margar aðrar íslenskar frásagnir. Fyrir tíma félagslegra úrræða lifðu menn gríðarlega fátækt en farnaðist eigi að síður vel. Ekki öllum, en mörgum. Er einhver lærdómur í því? Hugsanlega þau að það megi aldrei taka tækifæri frá dugmiklu fólki.

Einnig má hafa í huga þá staðreynd að á árinu 2013 urðu þau tímamót að fleiri voru taldir deyja úr velmegunarsjúkdómum en hungri í heiminum. Sjálfsagt heldur ófullkomið viðmið en segir samt ákveðna sögu. Þrátt fyrir að mannfjöldi á jörðu sé nú að nálgast 7 milljarða þá er hungur staðbundið vandamál sem fyrst og fremst tengist stríðsátökum og erfiðleikum við flutninga. Næringarskortur er vandamál af sama meiði sem einnig er erfitt að útskýra nema líta til vanþekkingar og pólitísks ófremdarástands í viðkomandi löndum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.