c

Pistlar:

20. nóvember 2016 kl. 13:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fátækt minnkar jafnt og stöðugt

Í nýjustu skýrslu sinni um fátækt (Poverty and Shared Prosperity Report 2016) sem kom út nú í október varpar Alþjóðabankinn (World Bank) fram nýjum tölum sem hljóta að vekja mikla athygli. Tölurnar sýna meðal annars að fjöldi fólks sem býr við algera örbirgð (e. extreme poverty) hefur fallið um 1,1 milljarð manna á síðustu 25 árum. Á sama tíma fjölgaði mannkyninu um 2 milljarða manna þannig að árangurinn er í raun ótrúlegur. Hafa þarf reyndar þann fyrirvara á tölum Alþjóðabankans að hann miðar við 1,9 Bandaríkjadali sem alþjóðlegt viðmið til að lifa á dag en til þessa hefur tíðkast að miða við 1,25 dali. Hugsanlega er með þessum pistli verið að svara þeirri spurningu sem sett var fram í síðasta pistli!

En breytingin á við um öll svæði heims, já, allstaðar er ástandið að batna. Skiptir engu hvort það eru hin þokkalega stæðu svæði Austur-Evrópu og Suður-Ameríku eða síður vel stæðu svæði sunnan Sahara eða í Suður-Asíu, allstaðar sjáum við nú betri tölur. Vitaskuld er ástandið mismunandi á milli einstakra landa og það dregur úr fátækt með mismunandi hraða. En hvað sem því líður þá gefa tölurnar ekki mikið svigrúm fyrir efasemdir - alger örbyrgð er að minnka stöðugt og örugglega. Það er því hægt að leyfa sér ákveðna bjartsýni um að það takist að efna fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (Sustainable Development Goals) sem gengur út á að útrýma fátækt fyrir árið 2030.

Jafnt og stöðugt dregið úr fátækt

Önnur ástæða gefur okkur einnig ástæðu til bjartsýni en það er sú staðreynd að við vitum nú ansi mikið um það hvernig á að draga úr fátækt og margvísleg umræða um það. Það að alger örbyrgð skuli hafa minnkað svona mikið og til þess að gera hratt er ekki tilviljun. Ef unnt er að setja hugmyndafræðilegan ágreining við aukin heimsviðskipti (globalisation) til hliðar þá blasir við að gríðarlega hefur dregið úr algeri örbyrgð og það hefur gerst jafnt og þétt. Allt síðan þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna var hrint í framkvæmd á sínum tíma - en um þau hefur verið fjallað áður hér í pistlum - hefur dregið jafnt og stöðugt úr örbyrgð. Um það eru til þess að gera nokkuð nákvæmar tölur, allt síðan um 1990. Þetta hefur átt sér stað samhliða efnahagslegum uppgangi sem þarf kannski ekki að koma svo mjög á óvart. Hugsanlega kemur meira á óvart að skuldakreppan sem dundi yfir 2007 og 2008 hafði til þess að gera engin áhrif. Eina tilfellið þar sem sést að efnahagssamdráttur í heimshagkerfinu hefur áhrif, var þegar Asíukreppan dundi yfir seint á tíunda áratug síðustu aldar. Þá mátti sjá bakslag og fátækt á heimsvísu jókst. fátæktgrafGrafið hér til hliðar sýnir annars vegar fjölda þeirra sem búa við algera fátækt og hlutfall þeirra.

Hvað skiptir máli?

En hvað hefur reynst hafa mest áhrif á þessa mjög svo ánægjulegu þróun? Nokkur atriði blasa við en varast ber að einfalda orsakatengsl of mikið.  

Í fyrsta lagi skiptir augljóslega miklu máli að fjárfesta í mannauði og innviðum samfélagsins. Það eflir samkeppnishæfni og margbreytileika og kemur í veg fyrir áföll sem tengjast of einhæfum starfsháttum. Þar má segja að margt sé undir, allt frá veikindum til atvinnuleysis og frá þurrkum til fellibylja.

Þá verður að hafa í huga að þó að mismunandi aðferðir séu vissulega milli landa þá eru sameiginleg atriði sem virðast hafa áhrif á það að fátækt dregst saman. Sérfræðingar Alþjóðabankans segja að það byggi á þríliðunni; vaxið, fjárfestið og tryggið.

Þriðja ástæðan til bjartsýni er sú að það að útrýma fátækt þarf kannski ekki að vera eins dýrt og margir virðast halda. Vissulega kanna að reynast erfitt að meta raunkostnað en útreikningar finnast sem segja að þessi kostnaður (að færa þá fátæku upp fyrir 1,90 dollara viðmiðið) kosti sem svarar 150 milljörðum dala eða um 0,15% af heimsframleiðslunni (global GSP). Þessi tala hefur verið gagnrýnd fyrir að byggja á einföldunum - nema hvað! - og að hún taki ekki tillit til þess kostnaðar sem felst í því að reka þróað ríki, svona ef menn fari út í hin dýru smáatrið, svo sem stjórnunarkostnað þann er felst í embættiskerfinu. En tölunni er ætlað að eyða þeirri sannfæringu - jafnvel goðsögn - að það sé ekki hægt að útrýma þeirri fátækt sem fellst í algeri örbyrgð. Til að setja töluna í samhengi þá jafngildir hún helmingi þess sem tíu fjölmennustu þjóðirnar verja í fjárhættuspil hverskonar.

Varkárar spár

En þegar kemur að því að setja fram spá um framtíðina verða menn að vera varkárir. Ef heiminum tekst að eyða fátækt með sama hraða og til þessa bendir vissulega margt til þess að fátækt verði útrýmt fyrir árið 2030. En það er því miður heldur óvarkárt að gera ráð fyrir línulegri þróun þegar kemur að fátækt. Svo margt óvænt getur spilað inní. Ekki er hægt að treysta á hina gríðarlega hröðu þróun sem átti sér stað í Kína og öðrum vaxandi iðnríkjum. Vissulega eru horfur á að í mörgum þessara ríkja takast að útrýma algerri fátækt með öllu. Nýjustu tölur segja að í Kína og Indónesíu séu nú um 25 milljónir manna, í hvoru ríki, sem búa við algera fátækt. Í Indlandi eru hins vegar en 217 milljónir sem falla undir 1,9 dollara viðmiðið. Það mun skipta miklu hvernig Indverjum gengur að lækka þessa tölu. En ófyrirséð átök, náttúruhamfarir, veðurfarsbreytingar og margt annað getur að sjálfsögðu haft áhrif. Verð á hrávöru getur einnig haft áhrif en sum þeirra landa sem glíma við fátækt treysta verulega á heimsmarkaðsverð á hrávöru. Því er mikilvægt að dreifa vel ávinningi þess hagvaxtar sem verður í þessum löndum.

Obama fráfarandi Bandaríkjaforseti setti landsmönnum sínum það markmið að koma fólki til Mars og heim aftur fyrir 2030. Er það raunhæft? Að sama skapi má velta fyrir sér hversu raunhæft það er að enda algera fátækt fyrir 2030. En það sakar ekki að setja slík markmið og staðreyndin er sú að við vitum margt í dag um það hvernig má draga úr eða minnka fátækt.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.