c

Pistlar:

15. febrúar 2024 kl. 10:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjölmenning á Íslandi fyrr og nú

Við Íslendingar eru þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa náttúrulega landamæri og enga herskáa nágranna. Það á ekki við um þjóðir Mið- og Austur-Evrópu og alls ekki þjóðir Miðausturlanda þar sem afkomendur Abrahams berast nú á banaspjótum. Saga Evrópu sýnir okkur að þar hafa heilu landshlutarnir færast á milli þjóðríkja eftir því sem vindarnir blása á vígvellinum. Í þeim átökum hafa þjóðir átt í stöðugri baráttu við að varðveita tungumál sitt, siði og ekki síst minninguna sem felst í sameiginlegum sagnabrunni.pale3

„Besta leiðin til að útrýma þjóðum er að svipta þær minninu. Eyðileggja bækur þeirra, menningu, sögu. Síðan gleymir þjóðin smátt og smátt hver hún var [...] tungumálið verður fljótlega að viðundri sem hverfur fyrr eða síðar,“ skrifaði tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera (1929-2023). Margir á Íslandi upplifa varnarbaráttu fyrir stöðu tungunnar í landi sem var til þess að gera einangrað og einsleitt þar til fyrir nokkrum áratugum. Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, þér var ég gefinn barn á móðurkné; orti Snorri Hjartarson (1906-1986) skömmu eftir inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 1949. Fyrsta ljóðlína er oft höfð yfir í umræðum um varðveislu íslenskrar menningar og tungu.

En getur þjóð sjálf staðið fyrir því að svipta sig minningunni? Getur það gerst ef breyting á samsetningu þjóðarinnar er of hröð? Nýtt fólk með nýja siði tekur við, þróun, aðlögun eða samlögun verður að yfirtöku. Hér hafa margoft í pistlum verið rakin dæmi um örar breytingar í þeim samfélögum Evrópu þar sem blöndun og fjölmenning hefur orðið einna hröðust. Margt jákvætt getur hlotist af því en ef menn gæta sín ekki þá geta orðið djúpstæðar átakalínur, rétt eins og við sjáum fyrir botni Miðjarðarhafsins en óhætt er að segja að hver og einn hafi sína sögulegu skýringu á því hvað þar gengur á.pale4

Austurvöllur eða Tahrir Square

En eins undarlegt og það er þá hafa þessi átök í Miðausturlöndum færst inn í íslenskt þjóðlíf og hafa gríðarleg áhrif á þjóðmálaumræðuna. Við erum daglega minnt á breytinguna og mörgum finnst óþægilegt að sjá erlendan þjóðfána blakta um allt, meira að segja á Austurvelli þar sem við minnumst eigin fullveldis og sjálfstæðis á þeim dögum sem við einu sinni töldum hátíðlega. Þeir sem lýsa yfir efasemdum sínum á yfirtöku Austurvallar þurfa að sitja undir skömmum, jafnvel ásökunum um skort á heilindum, mennsku eða þaðan af verra. Að hluta til hefur þetta gerst í öðrum löndum Vestur-Evrópu og minnir um leið á að fólk frá Miðausturlöndum er orðið fjölmennt í þessum löndum, svo mjög að annar aðilinn í þessum átökum, gyðingar, upplifir sig sem minnihlutahóp og allir þekkja sögu ofsókna gagnvart þeim. Nú flýja gyðingar Vestur-Evrópu eins undarlegt og það er.

Hér hefur margoft í pistlum verið rakið stjórnleysi hinna einstöku landa. Mótmæli á Tahrir Square í Egyptalandi áttu að færa vor lýðræðisins inn í heim afturhalds og trúar. Það varð ekki og nú stjórna stríðsherrar flestum þessum löndum. Það setti af stað flóðbylgju flóttamanna sem meðal annars hefur skolað að ströndum Íslands.

Hér hefur átt sér stað mikil breyting. Frá árinu 1995 til ársins 2002 tvöfaldaðist fjöldi erlendra ríkisborgara hér á landi, fór úr 5 þúsund í 10 þúsund og stjórnvöldum þótti þá rétt að láta verkefnahóp skoða þau vandamál sem yrði að taka tillit til. Innflytjendur voru rúm 8 þúsund um aldamót, 25 þúsund 2012 en í dag nemur fjöldi innflytjenda í landinu liðlega 70 þúsund manns. Þetta er gríðarleg fjölgun, sem hefur breytt samfélaginu mikið, oftast til hins betra og flestir í dag hafa fjölskyldutengsl við fólk af erlendum uppruna og fagna því. Það er í það minnsta reynsla þess sem hér skrifar.palestína 1

Sókn til frelsis

En þegar kemur að breytingum á samfélagsgerðinni er að mörgu að hyggja. Menn þurfa ekki að vera djúpt lesnir í Georg Hegel (1770-1831) til að skilja sýn hans á hreyfiafl sögunnar á Vesturlöndum. Þetta hreyfiafl taldi hann vera sókn til frelsis, vitaskuld með bakslögum en saga okkar á Íslandi í dag mótast af þessari þróun þar sem við höfum gengið í gegnum allskonar stefnu og strauma sem móta okkar samfélag í dag. Þannig getum við sagt að rómantíkin hafi mótað þjóðernisstefnu landsmanna sem síðan var drifkrafturinn í sjálfstæðisbaráttunni. Það gerðist einfaldlega þannig að við fengum trú á sjálfum okkur með vísun í sögu okkar, tungu og menningu. Við vildum vera þjóð meðal þjóða.

„Ef ég gæti ekki elskað þessa þjóð, eins og hún var nú og hafði verið á öllum öldum, með kostum hennar og göllum (og það var allt annað en elska gallana sjálfa), fannst mér ég vera ættjarðarlaus, ekkert hafa að verja, engin skilyrði til varna. (...) Ég varð að spyrja þess alveg hreinskilnislega, hvort Íslendingar væru ógæfuþjóð og ógæfa að vera fæddur meðal þeirra.“ Þannig spurði Sigurður Nordal (1886-1974) í formála að bók sinni Íslensk menning. Þar setur hann fram, skömmu fyrir stofnun lýðveldisins, hugmyndir sínar í heilstæðu formi um gerð og sérkenni íslenskrar menningar og ítrekar fyrri hugmyndir um gildi hins gamla og mikilvægi varðveislu þess fyrir nýsköpun og lífsþrótt menningarinnar.

Helsi íslams

Hreyfiafl sögunnar í öðrum heimshlutum er annað og satt best að segja er erfitt að fullyrða um að það sé í átt til frelsis, sérstaklega ekki í þeim heimshluta sem mótast af íslam en þar stýrir trúin andlegu, siðferðislegu, menningarlegu og pólitísku lífi fólks. Við á Vesturlöndum höfum þróast til fjölbreyttra samfélaga þar sem allir valdaþættir eru meira og minna aðskildir. Við styðjumst þannig ekki einungis við þrígreiningu valdsins samkvæmt forskrift Montesquieu (1689-1755), heldur styðjumst við við aðgreiningu veraldlegs og andlegs valds á mjög fjölbreyttan hátt sem skýrist af þessari löngu vegferð til frelsis sem Hegel taldi sig finna sem hreyfiafl sögunnar.pale2

Að þessu leyti erum við að reka fjölmenningarlegt samfélag í þeirri merkingu að hér fá flestir að vera eins og þeir eru. Átök samtímans á Vesturlöndum snúast síðan meira um vilja minnihlutahópa til að þröngva nýfengnum rétti sínum yfir á aðra og skerða þannig frelsi meirihlutans. Öfugsnúið? Já sannarlega! Má vera að einfaldasta dæmið um þessa breyttu baráttu sé vilji fólks til að velja sér baðklefa óháð kyni. Það má vera að viðkomandi geti réttlætt fyrir sér þennan rétt en augljóslega gengur hann á rétt annarra. Sama má segja um baráttu transkarla um að fá að keppa í íþróttum kvenna. Eins undarlegt og það er snýst frelsisbarátta Vesturlanda að mestu leyti um slíka hluti, hvar hin ýtrustu mörk einstaklingsinsréttarins eru.

Því miður háttar ekki svona til í löndum íslam. Almenn lýðréttindi eru einfaldlega ekki til. Þjóðfélagsgerðin er brothætt og frumstæð, stjórnsýsla umvafin spillingu og fyrir vikið óskilvirk fram úr hófi. Sjaría-lög gilda og sérstakir rannsóknardómstólar karla rétta yfir baráttukonum. Það er hugsanlega ekki tilviljun að heimur með mannfjölda á við Bandaríkin skuli ekki vera með landsframleiðslu nema á pari við Frakkland. Heimur íslams er fastur í viðjum fortíðar og skiptir litlu þó einstaka lönd þar geti byggt hæstu byggingar heims.