c

Pistlar:

30. nóvember 2023 kl. 19:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tálsýn um hin nýju Miðausturlönd

Það gætti talsverðrar bjartsýni í leiðara breska tímaritsins The Economist í september síðastliðnum. „Hin nýju Miðausturlönd“ stóð yfir forsíðuna þar sem má sjá byggingar nánast úr framtíðinni. Á sama tíma og peningarnir streyma inn virtust bjartar horfur í hinum eilífu deilum á þessu svæði. Meira að segja voru komnar í gang viðræður á milli Írana og Sádi-Araba, höfuðríkja hinna andstæðu trúarhópa íslam og pólitískra andstæðinga í hinni flóknu hagsmunagæslu alþjóðastjórnmálanna á þessu svæði.arabaau

Allt síðan byltingin varð í Íran 1979 hefur staða landsins verið þyrnir í augum þeirra ríkja íslam sem aðhyllast súní. En þegar var búið að opna á vísi að diplómatískum samskiptum milli Íran og Sauði-Arabíu, kviknaði von meðal stríðshrjáðra íslamista. Um leið virtist vera að sljákka í borgarastyrjöldunum í Sýrlandi og Jemen sem nýlega var fjallað um í pistlum hér. Á sama tíma voru Ísrael og Sádi-Arabía að vinna við að ganga frá tímamótasamkomulagi sem fól meðal annars í sér viðurkenningu á ríki gyðinga í Ísrael, 75 árum eftir að það var stofnað. Slík niðurstaða hefði sett diplómatísk samskipti í þessum heimshluta á nýjan stað. Um leið voru Arabaríkin að gera sig meira gildandi á hinum alþjóðlega vettvangi. En svo kom laugardagurinn 7. október með árás vígamanna Hamas inn í Ísrael. Nú má segja að allar viðræður á svæðinu séu í uppnámi og Gaza rústir einar. Gamalt fólk í stuttum fréttainnslögum bölvar Hamas fyrir tilræðið, það veit kannski hverju var hætt með árásinni fyrir lítinn sem engan ávinning.

Erfiðustu deilur heimsins

Allt síðan í lok síðari heimsstyrjaldar hefur þróun Miðausturlanda verið í skugga valdatíma Bandaríkjanna sem heimsveldis. Nú þegar Henry Kissinger hefur yfirgefið sviðið endanlega erum við minnt á að hver einasti ráðamaður í Bandaríkjunum hefur þurft að takast á við hin eilífu innanmein þessa heimshluta. Allir forsetar og utanríkisráðherrar Bandaríkjanna hafa þurft að fást við uppákomur og átök á svæðinu. Stundum hefur fæðst von um friðsama lausn en hún slokknað jafnharðan. Skiptir litlu þó að friðarverðlaunum Nóbels hafi verið úthlutað í snarhasti. Stundum lifðu friðarverðlaunahafarnir sjálfir ekki af.arab2

Lengstum snérust deilur þessa heimshluta um Ísrael en allt síðan byltingin átti sér stað í Íran hafa íslamskar trúardeilur stuðlað að átökum og óstöðugleika og skilið eftir sig blóðugustu stríð svæðisins. Hvað það er nákvæmlega sem deilt er um er erfitt að segja, innbyrðis trúardeilur íslamista eða baráttan við síonisma? Það getur verið vandasamt að greina orsakir en þetta er það svæði heimsins sem veldur mestum áhyggjum. Það var ekki tilviljun að Bandaríkjamenn sendu samstundis tvö flugmóðurskip og kjarnorkukafbát inn á svæðið. Það var til að tryggja að átökin stigmögnuðust ekki en vitað var að Hizbollah-samtökin í Líbanon voru í nánum samskiptum við trúbræður sína í Hamas. Bandaríkjamenn hafa hvað eftir annað sent flugsveitir inn í Líbanon og Sýrland til að halda aftur af öfgahópum.

Viðvörunarorð Kissingers

Með vaxandi fjölda innflytjenda frá íslamska hluta heimsins verða átökin meira áberandi á götum vestrænna borga. Við sjáum það meira að segja í Reykjavík en hér á landi eru nú sjálfsagt á annað þúsund manna sem eiga uppruna sinn í Palestínu. Þetta fólk færir átök heimalandsins hingað á götur Reykjavíkur, sem og annarra borga Vestur-Evrópu. Samhliða því að gyðingar flýja vaxandi ofsóknir á Vesturlöndum flytja sífellt fleiri múslímar til Vestur-Evrópu. Síðustu orð Kissingers á opinberum vettvangi snérust einmitt um þetta. Hann taldi það vera mistök Vesturlanda að hræra svo mörgum nýjum þegnum af ólíkum uppruna inn í eldri þjóðfélagsgerð. „Það voru alvarleg mistök að hleypa inn svo miklu fólki af gjörólíkri menningu og trúarbrögðum og hugmyndum, vegna þess að það skapar þrýstihóp innan hvers lands sem tekur við því,“ sagði Kissinger 11. október síðastliðin í samtali við Mathias Döpfner hjá þýsku sjónvarpsstöðinni Welt TV.Skjámynd 2023-10-23 133405

Mikilmennskubrjálæði í eyðimörkunum

En þó að hluti Miðausturlanda séu rústir einar og fornar menningaborgir eins og Aleppo ekki nema svipur hjá sjón eru olíuríkin við Persaflóa að búa til heim framtíðarinnar eins og Economist fjallaði um og áður hefur verið getið hér í pistli. Mörg af undarlegustu stórframkvæmdum mannkynsins eru í eyðimörkum þessara landa og virðist stundum eins og stjórnendur þeirra hafi misst jarðsamband. Sumt virðist bera með sér mikilmennskubrjálæði þeirra sem eiga of mikla peninga. Þarna búa um 6% jarðarbúa en um helmingur af hráolíu heimsins kemur af svæðinu. Í sumum löndunum eru stærstu þekktu olíulindir heims og þau keppast við að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum. Nú fara um 30% af gámaflutningum um svæðið og 16% loftflutninga. Þjóðarsjóðir þessara landa eru meðal stærstu fjárfesta í heimi og hafa þannig umtalsverð áhrif á viðskipti um allan heim. Helstu krúnudjásnin virðast vera evrópsk knattspyrnulið um þessar mundir í þessum karllæga heimi.