c

Pistlar:

26. febrúar 2024 kl. 13:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gáleysisstjórnmál

Umræða um stjórnmál er fyrirferðamikil enda einn af fylgifiskum opins lýðræðislegs samfélags að ræða hugmyndir og stefnur. Þar gegnir Alþingi Íslendinga lykilhlutverki. Á Alþingi birtist stefnumótun samfélagsins með margvíslegum hætti. Þar taka upphlaup vegna dægurmála þó mjög oft yfir umræðuna á kostnað stefnumótunar sem er mikilvæg fyrir samfélagið til lengri tíma.

Fjárlög eru þar í lykilhlutverki. Ríkisvaldið tekur að sér endurútdeilingu fjármuna í þeirri von að bæta samfélagið og tryggja að grunnþörfum sem flestra sé sinnt. Það, hve hátt hlutfall landsframleiðslunnar fer í gegnum slíka endurútdeilingu, er eitt af helstu stjórnmálalegu álitaefnunum á ári hverju. Hugsanlega væri ástæða til að binda þetta hlutfall í stjórnarskrá til að vernda skattgreiðendur fyrir aukinni ásælni ríkisvaldsins en sjálfsagt yrði erfitt að finna tölu sem allir geta sætt sig við. alt

Fjármálalæsi hins opinbera

Það hefur afleiðingar þegar eytt er um efni fram. Þau þjóðríki sem leika þann leik, ár eftir ár enda í vandræðum, eða hagfræðilegu stjórnleysi sem stendur gegn öllum heilbrigðum gildum. Þess vegna má spyrja til hvers að leggja áherslu á að kenna ungu fólki fjármálalæsi þegar augljóslega er brýna að beina þeirri kennslu að þingmönnum og opinberum starfsmönnum. Fyrir nokkrum árum tóku Svíar það upp að lágmarks afgangur af fjárlögum á hverju ári ætti að vera 2%. Þessi regla hefur verið Svíum mikil blessun og átt þátt í að tryggja góðan efnahagslegan stöðugleika í landinu. 

Orkuskortur í landi orkunnar

Annar slíkur málaflokkur sem einkennist af gáleysi og skort á fyrirhyggju er orkumál. Öll samfélög þurfa á orku til að byggja upp og viðhalda innviðum, vaxa og dafna. Hagvöxtur og orkuvinnsla haldast í hendur og rétt eins og ekkert sprettur af engu verða ekki til störf án orku. Sífellt meira ber nú á orkuskorti. Nú þegar verðum við af verulegum útflutningstekjum þar sem við getum ekki staðið við gerða samninga. Ný störf myndast ekki af því það vantar orku og því miður bendir flest til þess að þetta ástand muni versna enn frekar.

Herlaus þjóð í viðsjárverðum heimi

Við Íslendingar erum herlaus þjóð og höfum talað fyrir friði. Til að gæta hagsmuna okkar erum við í Nató og með okkar herverndarsamning við Bandaríkin. Það er snúið að vera smáríki í því stórveldatafli sem iðulega er leikið á hinum alþjóðlega vettvangi. Það er því mikilvægt að halda þessu samstarfi en gáleysisstjórnmál fyrri tíma snérust meðal annars um útgöngu úr Nató. Þær raddir hafa að mestu þagnað eftir að stríðið í Úkraínu hófst. Eins undarlegt og það er þá hefur flokkur forsætisráðherra það enn á stefnuskrá sinni að fara úr Nató en á sama tíma fagnar forsætisráðherra inngöngu Finna og Svía í varnarbandalagið! Þetta er augljós mótsögn. Ísland sem smáríki ætti að fara mjög varlega á hinum alþjóðlega vettvangi og ekki að ástunda innistæðulaus alþjóðastjórnmál. Við getum sýnt stuðning og mannúð með margvíslegum hætti án þess að stunda diplómatísk áhættuatriði, eins og að kalla sendiherra heim vegna atburða sem við ráðum ekki við.alt2

Opin landamæri

Lega landsins og náttúruleg landamæri ættu að tryggja okkur góða stjórn á eigin landamærum. Því miður hafa gáleysisstjórnmál nútímans veikt eðlilegar landamæravarnir og gert okkur viðkvæmari fyrir innrás ósæskilegra afla, svo sem alþjóðlegra glæpasamtaka. Um leið hefur stefnuleysi í innflytjendamálum og þá sérstaklega málefnum hælisleitenda komið okkur í margvíslegan vanda. Árlegt innflæði 4.000 til 5.000 hælisleitenda í jafn fámennt land mun fljótlega kalla yfir okkur þau vandamál sem flestar nágranaþjóðir okkar hafa ítrekað varað okkur við. Í raun veit enginn hver stefnan hefur verið í þessum málaflokki eða hver hefur í reynd stýrt henni. Dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað reynt að leggja fram frumvörp sem eiga að taka á þessum vanda, en lok hvers þings hefur formaður flokksins samið við formenn samstarfsflokkanna um að draga þau til baka til að ljúka þingi. Þarna ríkir gáleysið eitt.