c

Pistlar:

18. mars 2024 kl. 20:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Austrænir sérfræðingar í leigubílaakstri

Síðasta sumar tók pistlaskrifari leigubíl frá Hlemmi og heim í Vogahverfið sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Utan þess, að leigubílstjórinn skyldi ekkert þegar ég tjáði honum heimilisfangið og rataði auðvitað ekki heldur. Að lokum varð ég að lóðsa hann heim til mín. Leigubílstjórinn talaði enga íslensku en hann reyndist vera frá Sýrlandi. Við tókum stutt spjall á ensku og hann sagðist hafa verið arkitekt í Sýrlandi en fengi ekki vinnu sem slíkur hér.taxi

Ekki gafst tími fyrir frekara samtal en undanfarið hafa birst fréttir um mikla fjölgun útgefinna leyfa í leigubílaakstri og að því er virðist er það beinlínis vilji stjórnvalda að láta innflytjendur keyra leigubíla. Sérstaklega innflytjendur frá Miðausturlöndum. Í framhaldi þess má velta fyrir sér af hverju yfirvöld vilja að sýrlenskur arkitekt keyri leigubíl á Íslandi, svo mjög að leyfið fyrir hann er greitt af Vinnumálastofnun og slakað á öllum kröfum í meðfylgjandi prófferli. Það er auðvitað öllu fólki nauðsynlegt að fá vinnu en er óeðlilegt að spyrja af hverju yfirvöld reyni ekki frekar að fá sýrlenskum arkitekt vinnu sem tengist hans menntun?

Misnotkun kerfisins

Jú, auðvitað er það svo að arkitekt frá Sýrlandi fær aldrei heimild til að stunda starf byggt á menntun sinni hér á Íslandi, samtök arkitekta á Íslandi koma í veg fyrir það og byggja það á hæfiskröfum. Þannig er íslenskur vinnumarkaður og því þarf að koma þessum austrænu sérfræðingum í leigubílaakstur eða til starfa í veitingahúsageiranum. Í hinu umfangsmikla en að mörgu leyti furðulega mansalsmáli í kringum einstaka fyrirtækjasamsteypu kaupsýslumannsins Davíðs Viðarssonar (Quang Lé) kom fram að þar eiga tugir Víetnama að hafa unnið langar vaktir, við slæmar aðstæður fyrir lítið kaup á vegum Davíðs. Víetnamarnir komu til landsins undir formerkjum þess að þeir væru „sérfræðingar“ þó að þeir færu allir að vinna í veitingageiranum við þrif og störf sem ófaglærðir sinna. Ekkert eftirlit var með því hvernig sérfræðingarnir vinna og það má taka undir með Sigurði Hannessyni, formanni Samtaka iðnaðarins, þegar hann segist vera furðu lostin en samtökin hafa einmitt barist fyrir auðveldu aðgengi erlendra sérfræðinga að íslenskum vinnumarkaði. En þeir sáu ekki fyrir sér að skilgreiningin á sérfræðingi yrði meðhöndluð með þessum hætti. Hér er augljóslega verið að misnota kerfið en það sem undarlegra er að augljóslega eru íslenskar stofnanir að taka þátt í því.

Innleiðing gestgjafanna

Málefni útlendinga og þó sérstaklega hælisleitenda eru nú á hvers manns vörum og augljóst að stór hluti þjóðarinnar hefur áhyggjur af ástandinu og er hugsi yfir þróun mála. Það er skiljanlegt, þróunin hefur verið hröð og nú er um fimmtungur þjóðarinnar af erlendu bergi brotin. Um leið hefur orðið veruleg aukning í hópi hælisleitenda síðustu ár. Ný vandamál stinga upp kollinum en undrun sætir að nú má ekki tala um vanda við aðlögun, þess í stað vandinn hjá þeim sem eru fyrir í fleti, gestgjöfunum. Íslendingunum. Inngildin heitir það í dag en það felst í því að heimamenn verði að aðlagast aðkomumönnum. Það er ekki nema von að þetta vefjist fyrir mörgum. Sérstaklega þegar margt þetta fólk er að flýja lönd og siði sem eru nánast mannfjandsamleg.

Ráðaleysi einkennir stjórnvöld og hið pólitíska vald virðist ófært að sníða utan um þennan málaflokk ramma sem hæfir íslenskri samfélagsgerð. Ef heldur fram sem horfir er ekki langt í að fæddir Íslendingar verði í minnihluta, við verðum gestir í eigin landi. Það er eðlilega eitthvað sem vefst fyrir mörgum og því verða kröfur háværari um að yfirvöld útskýri betur stefnu sína í málaflokknum og hvaða lagaramma honum er settur.

Gáleysisstjórnmál

Þeir sem tala fyrir óheftum innflutningi fólks hafa ráðið umræðunni til þessa og hafa ástundað það sem hér hefur verið kallað gáleysisstjórnmál. Það er fólk sem neitar að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og kjósa að horfa framhjá reynslu annarra þjóða sem margar hverjar súpa nú seiðið af hraðri og að mörgu leyti illviðráðanlegri þjóðfélagsbreytingu. Það undarlega er að við höfum skýr dæmi um þetta í nágranalöndum okkar, bæði Danmörku, Svíþjóð og að hluta til einnig Noregi.