c

Pistlar:

27. apríl 2016 kl. 18:57

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Þegar góðir menn fara villir vega

Mér er það minnisstætt frá unglingsárunum þegar inn á heimilið barst dag einn afsláttarmiði frá Kaupfélagi Eyfirðinga þar sem bæjarbúum var tilkynnt að næstu 14 daga gætu þeir sem framvísuðu þessum forláta miða, (sem reyndar minnti meira á póstkort) fengið 10% afslátt í vöruhúsi Kaupfélagsins. Ekki væri þetta í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að nokkrum dögum síðar var þessi líka glæsilegi lampi kominn í gluggann á stofunni. Móðir mín blessuð var stolt af þessu nýja skrauti og sagði okkur frá því með andakt að hún hefð mátt til með að kaupa lampann til þess að missa ekki af afslættinum sem í boði var. Hún hefði tapað alveg gríðarlega ef þessi miði hefði ekki verið nýttur!!

Ég hef oft í tímans rás fengið þessa skemmtilegu hagfræði mömmu í kollinn og nú síðast þegar ég las pistil í Kjarnanum eftir hinn mæta mann Kolbein Óttarsson Proppé sem hann kallar „Þegar Framsókn gaf Alcoa 120 milljarða“. Þar heldur hann því fram að Alcoa greiði smánarlega lágt verð fyrir orkuna sem fyrirtækið kaupir af Landsvirkjun. Þessa fullyrðingu sína byggir hann á því að bera saman verð til Alcoa sem hann telur vera um 20 dollara á hverja megawattsstund ($/MWst) við það verð sem Landsvirkjun setti fram árið 2010 og kallaði “viðmiðunarverð til stórnotenda”. Viðmiðunarverð þetta er ekki í neinu samhengi við raunveruleikann á raforkumörkuðum heimsins í dag, eins og ég hef bent á í fyrri pistlum. Kolbeinn, sem ég fylgist með og les reglulega, kom mér hér verulega á óvart, því að vanalega er það sem frá honum kemur vel skrifað og ígrundað.

Verðþróun á mörkuðum í Kanada og Noregi er með þeim hætti að orkuverð þar er orðið lægra en hér á landi. Þá er tekið mið af meðalorkuverði Landsvirkjunar samkvæmt nýútgefnum ársreikningi þeirra fyrir árið 2015 en í þeim reikningi er meðalverðið 25,15 $/MWst.

Það er líka hægt að benda á glæsilega afkomu fyrirtækisins síðustu árin. Frá árslokum 2010 hefur Landsvirkjun greitt niður skuldir um 108 milljarða og fjárfest fyrir 80 milljarða til viðbótar. Fyrst of fremst fyrir mikinn hagnað af orkusölu til stóriðjunnar, þ.m.t. Alcoa-Fjarðaáls.

Klisjan um að stóriðjan á Íslandi sé að greiða allt of lítið fyrir orkuna er orðin nokkuð þreytt og lúin, og af einhverjum ástæðum notuð í áróðursskyni gegn álverunum. Þessi síbylja virðist enn vera tískuafbrigði þeirra sem ekki hafa fyrir því að kynna sér málin, auk þess að kenna stóriðjunni um alla mengun í landinu. Á bak við þetta eru ekkert nema innihaldslausir frasar sem hinn ágæti blaðamaðurinn hnýtur kylliflatur um að þessu sinni. Það hefur enn enginn gert samning sem er virkur við Landsvirkjun á svokölluðu viðmiðunarverði til stórnotenda. Ólíklegt er að svo verði í bráð miðað við þá þróun sem er á orkumörkuðum heimsins.

Blaðamaðurinn hefði betur varið tíma sínum í að skoða allan þennan stórfenglega hóp sem forstjóri Landsvirkjunar segir að bíði hér eftir orku. Ég held því fram að hann sé ekki til nema í mýflugumynd. Það er jú þannig í viðskiptum að oft er betra að hafa færri  góða og trygga kaupendur en marga smáa sem eru misöruggir. Einnig er rétt að benda á í sambandi við Kárahnjúkavirkjun að ef mörg smærri fyrirtæki hefðu átt að nýta það afl, er ljóst að þau hefðu komið inn eitt af öðru yfir lengri tíma með tilsvarandi tekjutapi fyrir Landsvirkjun, en ekki öll samstundis líkt og gerist þegar samið er við einn stóran og öruggan kaupanda. Ljóst er að ef sú leið hefði verið valin, væri fjárhagur Landsvirkjunar umtalsvert veikari í dag. Verð til Landsvirkjunar, er umræða sem þarf að taka í stóru samhengi við þjóðarhag, skattaívilnanir og niðurgreiðslur ríkisins til þessara fyrirtækja.

Skoðum aðeins hvernig hefur gengið með þessa litlu fjölbreyttu samninga sem Landsvirkjun hefur kosið að gera upp á síðkastið. PCC á Bakka er  t.d. með myndarlegann ívilnunarsamning sem étur upp allan ábata af hærra orkuverði. Kísilverin, sem reisa á í Helguvík, eru bæði í vandræðum með þær skuldbindingar sem búið var að skrifa undir varðandi lóðakaup og hafnargjöld. DV hefur fjallað um að annað þessara kísilvera hafi lagt inn falsaða pappíra til Umhverfisstofnunar þegar fyrirtækið sóttist eftir rekstrarleyfi. Heyrst hefur að fyrirhugað sólarkísilver á Grundartanga sé að hugleiða að fara í annað land vegna hagfelldari samninga. Gagnaverin, þau fáu sem hér eru, eru ríflega niðurgreidd af ríkinu í gegnum niðurgreidda gagnaflutninga um ljósleiðara-sæstrengi. Og skemmst er að minnast þess að fréttir voru af því að gagnaver svissneska athafnamannsins Giorgio Massarotto, sem kallast Ice-mine, stæði rafmagnslaust uppi á Ásbrú vegna vanskila, meðal annars á orkureikningum.

Til samanburðar er rétt að geta þess að Alcoa-Fjarðaál greiðir til Landsvirkjunar um 12 milljarða á ári vegna orkukaupa. Fyrirtækið skapar auk þess um 1.000 vel launuð störf á Austurlandi. Framkvæmdir sem tengjast álverinu hafa gjörbreytt mannlífinu til hins betra fyrir austan. Ég held að það sé ofrausn að þakka Framsókn það allt. Þess bera aðrar greinar mínar af Austurlandi sem birst hafa hér og innihalda myndbönd með viðhorfum Austfirðinga glöggt merki. Mikill meirihluti Austfirðinga var samstíga varðandi uppbygginguna fyrir austan. Baráttan var fyrst og fremst við kerfið og “yfirburðafólkið” sem lítinn skilning hafði á þörf landshlutans, en sterkar skoðanir á því hvað öðrum væri fyrir bestu.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur