c

Pistlar:

23. nóvember 2016 kl. 11:38

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Þarf að hækka verð fyrir orku og orkuflutning?

Agnes Bragadóttir blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar frétt í Morgunblaðið í dag 23. nóvember 2016 um líklega hækkun á raforkuverði til neytenda. En þrálátur orðrómur hefur verið um allt að 10% verðhækkun sé í pípunum. Greinin er að uppistöðu viðtal við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Bjarni lýsir því í greininni að hann eigi von á því að raforkuverð hækki um áramót. Skýringanna sé að leita í væntanlegum verðhækkunum Landsvirkjunar og Landsnets. Enn hefur Landsvirkjun ekki gefið neitt upp opinberlega um væntanlegar hækkanir. En Landsnet þegar tilkynnt um 13% hækkun á gjaldskrá. Það kom síðan fram í viðtali við Eirík Hjálmarsson upplýsingafulltrúa OR í Bítinu á Bylgjunni í morgun að væntanlega mundi hækkun Landsvirkjunar verða um 6%. Ljóst má þó vera á þessum ummælum að einhver umræða hefur farið fram um þetta milli aðila á orkumarkaði. 

Forstjórinn nefnir þó sérstaklega í fréttinni að Veitur dreifingarfyrirtæki OR muni lækka taxta sína til þess að koma til móts við neytendur vegna væntanlegra hækkana Landsvirkjunar og Landsnets.

Þrátt fyrir þetta er hér á ferðinni, (gangi þessar hækkunar hugmyndir fram) enn ein atlaga opinberra stofnana og fyrirtækja að þeim samfélagssáttmála sem hér ætti að ríkja. Þetta er plagsiður sem hefur ávalt nokkur áhrif á veski hins almenna borgara. 

Það að opinber fyrirtæki og fyrirtæki í eigu hins opinbera s.s. eins og Landsvirkjun og Landsnet,  geti athugasemdalaust og án þess að nokkur bera á því pólitíska ábyrgð gengið fram með hækkanir á þeirri þjónustu sem þau veita, oft í skjóli sértækra laga, í fákeppni eða án raunverulegrar samkeppni á markaði. Er framganga sem á ekki að líðast. 

Opinber fyrirtæki þurfa, ekki síður en hið opinbera, að skapa almennt traust um starfsemi sína. Ógagnsæi í opinberum rekstri veldur skorti á ábyrgð og aðhaldi. Er víst að þessi opinberu fyrirtæki ráðstafi fjármunum sínum með eins hagkvæmum og skilvirkum hætti og unnt er? Er það eðlilegt og sjálfsagt að Þessi fyrirtæki geti nánast þegar þeim þóknast hækkað gjaldskrár sínar til almennings? Opinber fyrirtæki ættu ef eitthvað er að ganga lengra en önnur til að tryggja trúverðugleika sinn með gagnsæi. En því er ekki fyrir að fara hér. 

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi hefur bent á að í dag er verðbólga í landinu 1,8%. Þessi verðbólga er að mestu tilkomin vegna þenslu á húsnæðismarkaði og ef húsnæðisliður vísitölunnar yrði felldur niður líkt og Vilhjálmur hefur bent á að er mikið réttlætismál. Þá væri hér verðhjöðnun upp á um 0,5%. 

Hækkanir umfram vísitöluþróun eru í tilfelli opinberra fyrirtækja ekkert annað en aukin skattheimta á þegnana. Sífelld þörf fyrir að sækja stöðugt meira fé getur líka skýrst af óreiðu í rekstri.

-----

Leiðrétting: Í morgun 24. nóvember 2016, kom opinberlega fram að Landsvirkjun hyggst lækka verðskrá sína um 2% til dreifiveitna en ekki hækka, eins og kom fram í máli Eiríks Hjálmarssonar á Bylgjunni og skrifað er um hér að ofan. Full ástæða er til þess að hrósa Landsvirkjun fyrir þetta skref. Vel gert!

Eftir stendur gagnrýnin hér að ofan og beinist þá að Landsneti og fyrirtækjum tengdum OR sem hyggjast hækka verð til neytenda. 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur