Einn ódýrasti rafbíllinn kominn í sölu

Bíllinn er ekki stór að sjá. Hann er rúm 1.100 …
Bíllinn er ekki stór að sjá. Hann er rúm 1.100 kíló og er 82 hestöfl. Hann er lipur og veghljóðið er einstaklega lágt. Við bestu aðstæður ætti hann að komast allt að 160 km. á hleðslunni en í kulda og roki getur dregið úr kílómetrafjöldanum. mbl.is/Malín Brand

Rafbílum fer fjölgandi á bílamarkaðnum og nú eru nokkrar tegundir rafbíla fáanlegar hér á landi. Nýjasta viðbótin hér á landi kemur frá þýska framleiðandanum Volkswagen.

E-up! og e-Golf verða báðir fáanlegir hjá Heklu eftir áramótin en e-up! er kominn og nú þegar hægt að prófa hann og panta.

Ásamt Mitsubishi i-MiEV er e-up! í flokki ódýrustu rafbíla sem völ er á hér á landi og það er sannarlega ánægjulegt að geta fengið rafbíla sem kosta innan við fjórar milljónir króna. i-MiEV kostar frá 3.490.000 kr. og e-up! er á 3.690.000 kr. Ekki má gleyma að ódýrasta gerð Nissan Leaf (Visia) fæst á 3.990.000 kr. hjá Even sem flytur líka inn Tesla.

Akstur og upplifun

Þrátt fyrir smæð bílsins er hann ótrúlega þéttur og veghljóðið afar lágt, sé miðað við hvernig eyrun nema það í rafbíl þar sem engin vél er á snúningi. Hann er líka ótrúlega snöggur af stað, þ.e. upptakið er prýðilegt. Tilfinningin er sú að hann sé liprari en Nissan Leaf, en þar spilar að sjálfsögðu inn í að hann er töluvert minni. Eftir sem áður skal tekið fram að blaðamaður á enn eftir að prófa i-MiEV þannig að hann er ekki til samanburðar.

Hámarksafl e-up! er 60kWst með 210 nm togi. Hægt er að velja um þrjár akstursstillingar: Normal, Eco og Eco Plus, allt eftir því hvernig vinnslu ökumaður kærir sig um.

Akstursupplifunin er góð og þar hefur tölvan frá Garmin (ofan við útvarpið) dálítið að segja því það gerir aksturinn áhugaverðari ef ökumaður getur stöðugt fylgst með því hversu langt hann kemst miðað við aksturslag og hvernig hann notar orku bílsins. Það er hægt að fylgjast með þessu öllu á skjánum.

Drægnin er allt að 160 kílómetrar á fullhlöðnum bíl og er nokkuð ljóst að e-up! er góður í allt það helsta innan höfuðborgarsvæðisins og líka fyrir þá sem búa rétt fyrir utan það og sækja vinnu í bænum.

Þegar fjallað er um drægni rafbíla ber að hafa í huga að í uppgefnum tölum er miðað við bestu mögulegu aðstæður og þokkalegt hitastig. Um leið og hitatölurnar lækka og bætir í vind dregur nokkuð úr því hversu langt bíllinn fer á fullhlaðinni rafhlöðu. Við þær aðstæður sem ekið var við í prófuninni er óhætt að segja að 130 km. hafi verið raunhæf tala á fullhlöðnum bílnum.

Aðgengi og þægindi

Gott aðgengi er kostur þessa bíls því það er mjög gott bæði fyrir bílstjóra og farþega fram í. Hins vegar ættu fullorðnir ekki að sitja aftur í að óþörfu því þar er plássið mun minna og best fyrir krakka, eða smávaxið fullorðið fólk.

Með því að fella aftursæti bílsins niður er komið mikið og stórt farangursrými sem nýta má í eitt og annað.

Innrétting bílsins er fábrotin og í takt við umhverfisstefnuna sem bíllinn stendur fyrir. Eftir sem áður er þar flest sem nútíminn hefur sannfært okkur um að við þörfnumst. Bluetooth, USB-tengi og alls konar sem heyrir orðið til staðalbúnaðar víða.

Í þennan fína bíl vantar þó örfá smáatriði sem eru hvorki öryggisatriði né veigamikil atriði. Það vantar snyrtispegil bílstjóramegin (farþeginn má bara góna á sjálfan sig í þessum bíl) og það sem er öllu verra: bílstjórinn getur ekki opnað gluggann hjá farþeganum heldur bara sín megin. Þetta myndu sumir segja lítilfjörlegt smáaatriði en þegar undirrituð er virkilega að leggja sig fram við að spara raafmagn í rafbíl er miðstöðin það fyrsta sem ég slekk á því hún er rafmagnsþjófur. Þá vil ég geta opnað út og fengið dálítinn trekk en það er ekki hægt hér án hundakúnsta. Í þessum reynsluakstri var rafmagnssparnaðurinn í hávegum hafður fyrst um sinn en síðar voru allar græjur reyndar. Þar á meðal Bluetooth audio í gegnum iPhone. Það var töluvert hökt í því og ef til vill er betra að nota snúru á milli tækjanna tveggja.

Hugvit sparar aurinn

Í Garmin-tölvunni sem fylgir bílnum eru ótal ráð fyrir ökumenn e-up! Öll miða þau að því að efla umhverfisvitund ökumanna og kenna þeim almennilegan sparakstur. Þar er að finna sérstakt forrit sem er til að þjálfa ökumenn og byrjar á því að vekja athygli þeirra á umferðarflæðinu, hvernig á að „græða“ rafmagn með því að láta bílinn renna o.s.frv. Allt til þess að búa til enn betri ökumenn.

Fram kemur á vef Heklu sem selur e-up! að hverjir eknir 100 kílómetrar kosti um 170  krónur. Er þá miðað við að kílóvattstundin kosti um 14 krónur , en e-up! notar 11,7 kílóvattstundir á 100 km akstri. Er óhætt að fullyrða að bíllinn sé einstaklega hagkvæmur.

malin@mbl.is

Látlaus innrétting í stíl við vistvæna stefnuna á bak við …
Látlaus innrétting í stíl við vistvæna stefnuna á bak við hönnun rafbíla. mbl.is/Malín Brand
Í útliti er VW e-up! eins og venjulegur VW up! …
Í útliti er VW e-up! eins og venjulegur VW up! sem almennt þykir vel hafa tekist til við í hönnun. mbl.is/Malín Brand
Mælaborðið er einfalt og gott. Yfir miðjustokknum er tölvan góða.
Mælaborðið er einfalt og gott. Yfir miðjustokknum er tölvan góða. mbl.is/Malín Brand
Engu er ofaukið í bílnum og hvert og eitt smáatriði …
Engu er ofaukið í bílnum og hvert og eitt smáatriði þjónar tilgangi. mbl.is/Malín Brand
Hér geta tveir krakkar verið en betur fer um fullorðna …
Hér geta tveir krakkar verið en betur fer um fullorðna fram í. mbl.is/Malín Brand
Garmin tölvan sem fylgir bílnum er afskaplega sniðug og gagnast …
Garmin tölvan sem fylgir bílnum er afskaplega sniðug og gagnast ökumanni vel því þar er hægt að fylgjast vel með orkunotkun og ökulagi. mbl.is/Malín Brand
Afturhluti þessa vistvæna bíls er með stórum hlera að 250 …
Afturhluti þessa vistvæna bíls er með stórum hlera að 250 l./950l farangursrými. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: