Aygo-ði farðu og skemmtu þér!

Toyota Aygo er auðþekkjanlegur á X-inu sem er allsráðandi á …
Toyota Aygo er auðþekkjanlegur á X-inu sem er allsráðandi á framendanum. Hönnunin er djörf en gengur upp og munu að líkindum hjálpa rækilega til við að skapa bílnum vinsældir innan markhópsins.

Það taldist til talsverðra tíðinda þegar Toyota sendi Aygo fyrst frá sér árið 2004 enda bíllinn skemmtilega hannaður borgarbíll með lágmarkseyðslu.

Tíu árum seinna er önnur kynslóð þessa vinsæla bíls komin fram á sjónarsviðið og það skal segjast hér og nú að hinn nýi Aygo er föðurbetrungur í flesta staði. Hann hefur svo að segja allt til að bera sem bílar í hinum smágerða A-flokki þurfa að hafa – sterk útlitseinkenni, sparneytni og lipra aksturseiginleika. Hvað plássið varðar þá er það ágætt í framsætum en heldur hallar á farþega í aftursæti. Þar er með naumindum pláss fyrir fullorðna og í lengri ökuferðir er ekki mælt með þeim.

X-ið merkir staðinn

Það fyrsta sem slær mann þegar hinn nýi Aygo mætir sjónum manns er sterkur framendinn. Hér hafa hönnuðir Toyota teflt býsna djarft en svipmikið x-ið sem einkennir „andlitið“ á bílnum einfaldlega krefst athygli og það sem meira er, hönnunin gengur upp. Til eru bílar með óhefðbundið útlit sem eru ekki beinlínis fallegir en sérstaðan gefur þeim ákveðinn sjarma. Aygo er aftur á móti bókstaflega flottur og siglir vængjum þöndum inn í A-flokkinn sem er þéttsetinn af frísklegum smábílum sem eyða litlu og er hægt að breyta með nánast óendanlegum valkostum varðandi litasamsetningar og innréttingar. En útlitið er til alls fyrst og það er hörkuvel heppnað. Í kynningarefni frá Toyota kemur líka fram að x-ið liggur bílnum hvarvetna til grundvallar; grunngerðin nefnist einfaldlega x, grunngerðin til breytinga kallast „x-play“ og sérútgáfurnar þrjár bera heitin „x-cite“, „x-clusif“ og „x-pure“ – að ekki sé minnst á margmiðlunarkerfið sem heitir x-touch en í því felst prýðilegur sjö tommu snertiskjár, bakkmyndavél og snjallsímatenging sem virkar bæði með iPhone- og Android-símum. Allt saman prýðilega framsett og frágangur traustvekjandi.

Vel innréttaður smábíll

Annað er eftir því innandyra því Aygo-inn er furðanlega fínn innandyra þegar haft er í huga að hér er bíll sem á að vera eins léttur og hægt er, helst að eyða sama og engu og svo auðvitað kosta sem allra minnst. Með þetta í huga kemur búnaðurinn eiginlega á óvart, og annað er eftir því þegar inn er sest. Þótt það sé slatti af plasti í mælaborðinu kemur það ekki svo mjög að sök því allt virkar massíft og rammgert á mann. Þá er hægt að panta sérstaka liti á allt mögulegt innanstokks, hvort heldur það er ramminn utan um snertiskjáinn, gjörðin utan um miðstöðvargötin, gírstangarumgjörðin eða hvað sem vera skal. Hvað sem fólk kann að vilja herma upp á hinn nýja Aygo þá er skortur á möguleikum til persónulegrar útfærslu ekki þar á meðal. „Að gera bílinn að sínum“ hefur aldrei verið jafnauðvelt eða þótt jafnsjálfsagt. Þó ber að hafa í huga að þennan bíl, og aðra í sama ódýra, eyðslugranna A-flokknum, ber að skoða með öðrum augum en bíla í öðrum flokkum þegar innréttingin er skoðuð. Til að hafa allt sem ódýrast og léttast er viðmótið allt með einfaldasta móti en grípandi útlit vegur þar upp á móti með þeim hætti að markhópurinn – ungt fólk sem vill hafa það gaman án þess að hafa endilega mikil fjárráð – ætti að verða vel sáttur við útkomuna. Það eina sem truflaði var glamrið þegar dyrunum er lokað. Hljóðið var ekki nógu þétt og sannfærandi.

Lipur og snar í snúningum

Eins og við er að búast á þessi bíll best heima í borgarsnatti þótt hann þurfi fráleitt að skammast sín á vegum úti. Undirritaður prófaði bílinn í Hollandi og hann stóð sig bara vel á hraðbrautunum, þoldi hraðann án þess að nötra og leið ljómandi vel áfram. En hann er frábær inni í borg og á jafnnettum bíl með beygjuradíus upp á 4,8 metra má búast við því að Aygo komist nálega hvert sem er innan borgarmarkanna. Eyðsla í blönduðum akstri eru litlir 3,8 lítrar og koltvísýringslosunin nemur ekki nema 88 grömmum á kílómetrann. Er það vel. Eitt sinn varð undirritaður að taka nokkuð skarpa beygju til að forðast að aka inn á reiðhjólastíg þegar leiðsögukerfið í bílnum reyndist gloppótt og þá hallaðist hann óþarflega mikið í beygjunni. Þá er vélarhljóðið sem berst inn í bílinn í akstri töluvert lægra en í forveranum en það var á stundum ferlega hátt, rétt eins og í eldri kynslóðum af Yaris. Í nýja Aygo-num er einangrunin til mikilla bóta.

Sterkur valkostur í A-flokki

Allt í allt stenst Aygo-inn öðrum nýjum bílum í sínum flokki snúning, ekki síst þegar haft er í huga að lífsglöð og hrifnæm ungmenni láta frekar stjórnast af því hvernig útlit bíla slær þau heldur en praktísk atriði. Ekki svo að skilja að Aygo-inn sé eftirbátur hvað pláss, eldsneytiseyðslu eða annað áhrærir; hann er aftur á móti með sterkt og sláandi útlit sem tekið er eftir og það gæti undirritaður sem best trúað að nái tökum á ungviðinu. Aygo lúkkar nefnilega svo hörkuvel. Það gæti gert gæfumuninn. Toyota hafa líka gengið lengra en áður í markaðssetningu bílsins – samanber kjörorðið Go Fun Yourself! – og líkast til munu þeir uppskera að sama skapi.

jonagnar@mbl.is

Plássið fyrir ökumann og farþega í framsæti er alveg ágætt …
Plássið fyrir ökumann og farþega í framsæti er alveg ágætt og ekki skrýtið að áherslan sé þar. Borgarbílar í A-flokki eru oftar en ekki fyrir eigendur þar sem ekki nema tveir, stundum jafnvel einn, eru í heimili.
Skottið rúmar 168 lítra en fá má töluvert meira pláss …
Skottið rúmar 168 lítra en fá má töluvert meira pláss með því að fella aftursætin niður.
Snertiskjárinn er auðveldur í notkun, við mótið vel upp sett …
Snertiskjárinn er auðveldur í notkun, við mótið vel upp sett og yfirborðið bregst vel við skipunum. Fínasti búnaður fyrir ekki dýrari bíl en þetta.
Baksvipurinn er stílhreinn og snyrtilega afgreiddur. Einfaldar línur og skemmtilegt …
Baksvipurinn er stílhreinn og snyrtilega afgreiddur. Einfaldar línur og skemmtilegt samspil lita.
Allt sem skiptir máli er í beinni augsýn ökumanns og …
Allt sem skiptir máli er í beinni augsýn ökumanns og framsetningin öll til fyrirmyndar. Útlitið er líka sportlegt og rímar vel við bílinn í heild sinni.
Mælaborðið og allur aðbúnaður ökumanns er hið fínasta fyrir bíl …
Mælaborðið og allur aðbúnaður ökumanns er hið fínasta fyrir bíl í þessum flokki. Vel hefur tekist með útlitið og þó plastið sé svolítið fyrirferðarmikið þá er hér krafa um að halda þyngd og kostnaði niðri. Það hefur líka tekist.
Hægt er að velja hinar ýmsustu litasjatteringar hingað og þangað …
Hægt er að velja hinar ýmsustu litasjatteringar hingað og þangað í bílinn, meðal annars á hringinn kringum gírstöngina. Bíllinn verður eigandans.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: