Fimmta kynslóðin mætt til leiks

Opel Corsa.
Opel Corsa. mbl.is/Malín Brand

Það er óhætt að segja að menn séu stórhuga hjá þýska bílaframleiðandanum Opel. Það er mikill drifkraftur í starfsfólkinu sem sannarlega kemur hlutunum af teikniborðinu yfir á næsta stig og afraksturinn sést í ört vaxandi bílaflotanum.

Blaðamaður hitti nokkra af eldhugum Opel í Frankfurt í Þýskalandi í vetur þegar kynning og reynsluakstur á Opel Corsa fór fram. Það var sannarlega hressandi og upplífgandi að finna hversu mikil sköpunar- og framkvæmdagleðin var í hópnum. Það voru ekki bara orðin sjálf sem höfðu þessi áhrif heldur líka tölurnar sem tala sínu máli. Svo við höldum okkur við Opel Corsa þá höfðu 30.000 eintök verið pöntuð í október síðastliðnum en það var áður en framleiðsla á bílnum var hafin. Um mánaðarmótin janúar febrúar höfðu 110.000 bílar verið pantaðir og nú er Opel Corsa komin í sölu víða í Evrópu. Og nú sópar hann að sér verðlaunum.

Það er ekki laust við að kynningin á Opel Corsa hafi tekist vel í Evrópu og bæði eftirspurnin verið mikil og eftirvæntingin. Stóra spurningin er því: Hvenær kemur hann til Íslands? Jú, hann er kominn og verður frumsýndur í Bílabúð Benna næsta laugardag á milli klukkan 12 og 16.

33 ár í framleiðslu

Gaman var að skoða stráheilt eintak af fyrstu kynslóð Opel Corsa úti í Frankfurt en bíllinn kom fyrst á markað árið 1982 og naut mikilla vinsælda. Fyrsta kynslóðin var framleidd til ársins 1993. Fimmta kynslóðin er að mati undirritaðrar ákaflega vel heppnuð og er búið að bæta úr fjölmörgu sem maður gat látið fara í taugarnar á sér í fyrri kynslóðum, þó maður geti nú ekki státað af að hafa ekið fyrstu kynslóðinni. Fyrst og fremst ber þó að nefna mun betri vélarkost. Man maður eftir ákaflega kraftlausum vélum í þessum bílum og stundum getur það verið nóg til að hreinlega æra óstöðugan. Léleg miðstöð var líka eitt af því sem menn kvörtuðu undan. Opel Corsa hefur þó alla tíð mátt eiga það að vera með rúmbetri bílum í sínum stærðarflokki.

Nú er öldin önnur og í nýjum Opel Corsa eru komnar hinar sprækustu vélar. Sú vélargerð sem seld verður hér á landi er 1,4 lítra bensínvél og skilar hún 90 hestöflum. CO²-gildið er innan visthæfismarka borgarinnar eða undir 120g/km. Nánar tiltekið er það 114g/km. Gírkassinn er sömuleiðis nýr og er fínt að vera með sex gíra beinskiptingu í smábíl á borð við þennan. Með því að setja bílinn í borgar„ham“ er stýrið æði lipurt og kemur það vel út með stífari fjöðrun sem bíllinn státar nú af.

Hinn innri bíll

Að innan er Opel Corsa frábærlega nýstárlegur í alla staði og hægt að föndra töluvert með samsetningu lita og áklæðis. Það má nú segja að mikil breyting hafi orðið á, því áður var hann ekki sérlega móðins að innan. Innréttingin er vel útfærð og tæknilega er mikið í lagt. Stór aðgerðaskjár er litríkur og flottur og tengja má helstu tæki við kerfið í bílnum. Með því að fjárfesta í snjallsímaforritum fyrir bílinn eru möguleikarnir fjölmargir, eins og til dæmis að nota leiðsögukerfið BringGo sem virkaði vel í Frankfurt en hvort það kemur til með að virka hér er ekki gott að segja.

LED-ljós og aðstoð við að leggja í stæði er í flestum útfærslum bílsins sem og myndavélabúnaður sem minnir ökumann á hámarkshraða vega. Auk þess les hann línur (virkar sums staðar á íslenskum vegum) og er vel hlaðinn öryggisbúnaði.

Í öllum gerðum Opel Corsa er upphituð framrúða og það er eitthvað sem maður kann nú vel að meta í þessu árferði.

Er hann góður?

Það má segja að hvað gæði varðar hafi Corsa tekið stórt skref upp á við og ekki er hægt að kvarta yfir því. Bíllinn er afar vel búinn tæknilega og er snjallbíll, eins og ég kýs að nefna þá bíla sem snjallkynslóðin kallar á.

Ytra útlit bílsins er auðvitað smekksatriði, rétt eins og það hvernig hann er að innan. Persónulega finnst mér það þokkalegt, einkum að aftan. Sitt sýnist hverjum um það. Litirnir sem boðið er uppá eru óvenjulegir og gæti maður þurft að vera nokkuð áræðinn til að fá sér þann pastelgræna eða ljósgula. Það er virkilega gaman að bílnum sem nýstárlegum snjallbíl því hann er öðruvíusi og stíll yfir honum. Sem akstursbíll er hann lipur og vel hljóðeinangraður. Hann er ekki mjög snöggur upp þó hann sé snar í snúningum. Hann er fyrst og fremst góður borgarbíll, en gaman væri þó að láta reyna á hann í langkeyrslu hér á landi í vetur. Hann gæti komið á óvart.

Þyngdarpunkturinn er lægri en í fyrirrennurunum og fyrir vikið er hann býsna stöðugur í akstri og spilar þar stíf fjöðrunin ágætlega með. Það eina sem mætti tuða yfir að ráði er verðlagningin. Ég vil gjarnan sjá ódýra en góða smábíla á markaðnum. Ódýrastur er Corsa á 2.490.000 kr. Einn helsti keppinauturinn er Ford Fiesta sem er 100.000 kr. ódýrari en best hefði mér þótt að sjá Corsa á því verði eða jafnvel eilítið ódýrari því samkeppni er góð, ekki satt?

malin@mbl.is

Gaman var að sjá kynslóðirnar fimm á einum og sama …
Gaman var að sjá kynslóðirnar fimm á einum og sama blettinum. Sú fyrsta kom á markað árið 1982 og nú, 33 árum síðar, er sú fimmta komin.
Fimmta kynslóð Opel Corsa er komin á markað og eru …
Fimmta kynslóð Opel Corsa er komin á markað og eru á henni ljómandi góðar breytingar bæði hvað útlit og tækni varðar. mbl.is/Malín Brand
Mikil breyting hefur orðið á bílnum sem getur verið nokkuð …
Mikil breyting hefur orðið á bílnum sem getur verið nokkuð sportlegur. mbl.is/Malín Brand
Stráheilt eintak af fyrsta Opel Corsa sem stal senunni í …
Stráheilt eintak af fyrsta Opel Corsa sem stal senunni í Frankfurt. mbl.is/Malín Brand
Ljósgulur og pastelgrænn eru á meðal nýrra lita á Opel …
Ljósgulur og pastelgrænn eru á meðal nýrra lita á Opel Corsa. mbl.is/Malín Brand
Afturljósin eru skemmtilega útstæð og sportleg um leið.
Afturljósin eru skemmtilega útstæð og sportleg um leið. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: