Fjölskyldubíll með fítonskraft

Hann lætur kannski ekki mikið yfir sér VW Golf R …
Hann lætur kannski ekki mikið yfir sér VW Golf R og útlitið er mjög svipað hefðbundnum Golf. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Þegar kemur að aflmiklum hlaðbökum er samkeppnin mikil meðal evrópskra bílaframleiðenda. Fyrir einhverra hluta sakir eru slíkir bílar þó frekar sjaldgæfir hér á Íslandi nú til dags.

Eflaust hefur núverandi tollaumhverfi sem miðar við mengunartölur sitt að segja, en stöku sinnum slæðast þó hér upp á skerið bílar sem vert er að gefa gaum og einn þeirra er VW Golf R. Með sín 300 hestöfl og fjórhjóladrif er það eins og ávísun á skemmtun og létum við reyna aðeins á skemmtanagildi bílsins á dögunum.

Aflmikill en eyðslusamur

VW Golf R situr um miðjubil flokks hinna heitu hlaðbaka eins og evrópska pressan kallar þá gjarnan. Golf GTI með sín 217 hestöfl er vinsæll ekki síst vegna verðsins og aðrir framhjóladrifnar rakettur eins og Opel Astra OPC og Renault Megané RS komast nálægt með um 280 hestöfl hvor. Þar sem Golf R er hins vegar fjórhjóladrifinn er það spurning hvort hann keppi ekki frekar við fjórhjóladrifsbíla eins og hinn nýja Ford Focus RS með sín 345 hestöfl eða jafnvel Audi S3 sem býður upp á sömu vél og Golf R. Vélin í Golf R er endurhönnuð útgáfa vélarinnar úr GTI en er með öðrum stimplum og stærri ventlum auk forþjöppu og nær hún að kreista rétt tæplega 300 hestöfl úr þessum tveimur vélarlítrum. Hún skilar því 30 hestöflum meira en gamla vélin en mengar líka mun minna því hún fer niður um 34 g/km. Vélina er í stuttu máli sagt hreinasta unun að hafa í þessum bíl og eini lösturinn við hana er eyðslan. Þegar verið er að gefa bílnum inn er eins og einhver hafi sturtað niður úr bensíntankinum og fara þá að sjást eyðslutölur yfir 20 lítra á hundraðið.

Með aksturseiginleika Go-kart

Eins og aðrir VW Golf er R-bíllinn byggður á MQB-undirvagninum og eins og í GTI-bílnum eru MacPherson ströttar að framan og fjölliða fjöðrun að aftan. Fjöðrunin er þó stífari en í GTI og bíllinn er líka 5 mm lægri á undirvagni. Golf R fær sama stýrisgang og í GTI sem er þó aðeins virkara og er aðeins 2,1 hringur enda á milli á stýrishjólinu. Við prófuðum bílinn með sex þrepa DSG-sjálfskiptingunni en þannig kemur hann með 4Motion-fjórhjóladrifinu sem inniheldur fimmtu kynslóð af Haldex-fjöldiskakúplingunni sem getur sent allt að 100% af aflinu til afturhjólanna gerist þess þörf. Þar sem tölvustýrt fjórhjóladrifið er búið að fá nýjan kóða í forritið sem kallast XDS+ sér sá hluti um að minnka undirstýringu. Satt best að segja fær ökumaðurinn á tilfinninguna að verið sé að keyra Go-kart-bíl, svo vel liggur bíllinn þótt tekið sé harkalega á honum. Hægt er að slökkva alveg á spólvörninni í Golf R en það er ekki hægt í nokkrum öðrum Golf. Til þess að gera það þarf þó að halda takkanum fyrir spólvörnina inni í þrjár sekúndur því annars slekkur hún bara á sér að hluta til. Þegar bíllinn er í Race-stillingu með slökkt á spólvörninni er hægt að setja á svokallaða upptaksstillingu eða Launch-mode. Þá þarf ökumaður aðeins að setja yfir á valstillingu á gírstönginni, halda bremsu með vinstra fæti og inngjöf í botni með hægri. Sér þá bíllinn um að halda bílnum við 4.000 snúninga og þegar ökumaður sleppir bremsunni nýtir hann fjórhjóladrifið og skiptinguna til hins ýtrasta til að fá sem mesta hröðun. Óhætt er að segja að ökumaður verður ekki fyrir vonbrigðum, jafnvel þótt hann sé nokkuð vanur aflmiklum tækjum því að í hundraðið fer hann á aðeins 4,9 sekúndum.

Verðið vel viðunandi

Kannski er einn af helstu kostum VW Golf R hversu nálægt hefðbundnum Golf hann er í útfærslu innréttingar og innanrýmis. Það er hreinlega ekkert sem kemur í veg fyrir að eigandi bílsins geti notað hann sem hefðbundinn fjölskyldubíl. Með því að setja bílinn í Eco-stillingu má ná niður eyðslunni og í prófuninni fór hún mest niður í 8,5 lítra á meiri langkeyrslu. Eitt sem er sérstakt við bílinn er að hann er dýrari beinskiptur, kostar 7.270.000 kr. með sex gíra handskiptingunni en aðeins 6.990.000 kr. með sex þrepa DSG sjálfskiptingunni. Þótt að stutt sé í að Ford Focus RS verði fáanlegur á Íslandi er ekki komið verð á heimasíðu Brimborgar. Verðið á Audi S3 quattro er hins vegar talsvert hærra en á Golf R en systurbíllinn frá Audi kostar 9.470.000 kr. Verðið hlýtur því að vera einn þeirra þátta sem mæla með VW Golf R.

njall@mbl.is

Vélin er sú sama og í Golf GTI en með …
Vélin er sú sama og í Golf GTI en með því að stækka inntaksventla og setja forþjöppu fer hún úr 217 hestöflum í 300 hestöfl. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Að innan lítur hann að mestu leyti út eins og …
Að innan lítur hann að mestu leyti út eins og hefðbundinn Golf er frá er talið sportlegra stýri, álpe- dalar og talan 320 á hraðamælinum, sem óneitanlega er spennandi og kærkomið frávik. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Þótt vélin sé skemmtileg eru aksturseiginleikar bílsins ekki síður skemmtilegir. …
Þótt vélin sé skemmtileg eru aksturseiginleikar bílsins ekki síður skemmtilegir. Með snörpu stýri, keppnisfjöðrun og fjórhjóladrifi er hann eins og límdur við veginn.
Stuðaðar og ljós eru mun sportlegri.
Stuðaðar og ljós eru mun sportlegri.
Hestöflin 300 segja rækilega til sín þegar af stað er …
Hestöflin 300 segja rækilega til sín þegar af stað er farið í Golf R.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: