Kia með sterkt station-útspil

„Hönnunin hefði þolað aðeins meiri djörfung, einhver smáatriði,“ segir blaðamaður …
„Hönnunin hefði þolað aðeins meiri djörfung, einhver smáatriði,“ segir blaðamaður og myndi vilja sjá ögn meira krassandi ytra byrði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Góðærið hjá Kia heldur áfram undir stjórn Peter Schreyer og eins og mál standa er erfitt að segja til um hversu langt þessi kóreski framleiðandi á eftir að ná, svo mikill er slátturinn þar á bæ. Hönnun og gæði hafa tekið slíkum risastökkum á tiltölulega skömmum tíma og hver eðalvagninn á fætur öðrum rennur út út verksmiðjunum í Zilina í Slóvakíu.

Íslendingar vita allt um það hversu svipfríðir bílarnir eru og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er ekki að draga niður fríðleiksmeðaltalið nema síður sé. Þar er samt sem áður á ferðinni sú tegund bíla sem oft fær á baukinn fyrir klunnalegt útlit og kauðslegan svip – nefnilega skutbíll – en allt kemur fyrir ekki. Kia Optima Sportswagon er einkar vel heppnaður útlitslega og áhugaverður bíll að prófa.

Fríður þó hann stækki

Skutbílar eru í reynd sedan-bílar sem búið er að blása upp skottið á með tilheyrandi útlitslýti – segir sagan. En það er auðvitað alls ekki alltaf svo og mýmörg dæmi eru þess að skutbílar séu svo bráðvel teiknaðir að þeir séu fullt eins fríðir og litli bróðirinn og forverinn, sedan-bíllinn. Það er einmitt tilfellið hér og stækkunin á hefðbundnum Kia Optima yfir í Sportswagon er fantavel heppnuð. Bíllinn er semsé í útliti eins og sedan-útgáfan en auk þess búinn skotti sem er feikirúmgott – með aftursætin niðri er plássið heilir 1.686 lítrar. Afturendinn er vel heppnaður, sporöskjulaga púströrin ljá bílnum gæjalegan svip og útlitið, sem er látlaust og einfalt, gengur einfaldlega upp.

Kia hefur löngum verið hrósað fyrir staðalbúnað sem nær vel út fyrir verðflokk bílanna og framleiðandinn veldur ekki vonbrigðum hér frekar en fyrri daginn. Of langt mál er að telja upp allan búnaðinn, en í stuttu máli þá býstu sjaldnast við öllum þessum græjum nema þú sért að prófa eitthvað talsvert dýrara og frá Þýskalandi. Schreyer hinn þýski leitar greinilega ekki langt yfir skammt eftir innblæstri.

Undurljúfur akstursbíll

Það sem hreif mig einna mest við sedan-gerðina af Optima hreif mig líka þegar Sportswagon var prófaður. Hann er með ólíkindum hljóðlátur í akstri og fyrir þá sem vilja ekki heyra mikið í vélinni þegar ekið er þá er þessi bíll augljós kostur. Sumum kann að þykja hann helst til þögull, ef menn vilja fá smá urr inn í farþegarýmið þegar gefið er inn, en aðrir munu njóta þess refjalaust að aka Optima Sportswagon.

Stýringin er bráðvel heppnuð og þú veist nákvæmlega hvar þú hefur þennan bíl. Hann steinliggur á vegi og hefur ekkert fyrir því að fara hratt í hringtorg eða aðrar skarpar beygjur. Aksturinn er áreynslulaus og bíllinn hefur einkar góða fjöðrun sem er skemmtilega stinn en gleypir þó ójöfnur með stæl. Þá var gaman að smella Sportswagon á Sport-stillinguna inn á milli og slá aðeins í klárinn.

Næsta kynslóð af Optima verður þrælmögnuð – eflaust

Það sem helst má nefna við Optima, bæði sedan og Sportswagon, er að hönnunin hefði máske þolað aðeins meiri djörfung, einhver smáatriði til að gefa honum svolítið meira afgerandi og krassandi lúkk. Svipmiklar álfelgur gera heilmikið fyrir bílinn og það mun enginn smekkvís bíleigandi halda því fram að Optima sé ekki fallegur. En hann er kannski full mikið vanillubragð fyrir suma þó að flestir muni sjálfsagt hrífast af stílhreinu útlitinu. Þegar hafðar eru til hliðsjónar nýjar fréttir af Kia Stinger, ógurlegum GT-bíl sem væntanlegur er á næstu misserum, þá má leiða að því líkum að þar sé komið leiðarljósið að næstu kynslóðum Kia og það er sko ekki leiðum að líkjast því bíllinn sá er hreinn rosi á að líta. Ég hlakka því til að sjá næstu kynslóð en það er óhætt að óska Kia til hamingju með Optima Sporswagon því það blasir við að hér er kominn bíll sem mun falla í kramið og seljast eftir því. Í vörubílförmum, þ.e. 7 ára ábyrgð kemur heldur ekki að sök nema síður sé.

Þægilegt er að stýra bílnum og hann steinliggur á veginum.
Þægilegt er að stýra bílnum og hann steinliggur á veginum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Í akstri er bíllinn með ólíkindum hljóðlátur, sem margir kunna …
Í akstri er bíllinn með ólíkindum hljóðlátur, sem margir kunna að meta. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Huggulegt viðmót.
Huggulegt viðmót. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Farangursrýmið er 552 lítra.
Farangursrýmið er 552 lítra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Látlaust útlitið gengur upp.
Látlaust útlitið gengur upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: