Svartir leigubílar aftur á færibandið

Svörtu leigubílarnir í London eru aftur komnir á færibandið eftir …
Svörtu leigubílarnir í London eru aftur komnir á færibandið eftir hálfs árs stopp.

Framleiðsla á hinum þekktu svörtu leigubílum sem aka um götur London er aftur komin í gang, en hún var stoppuð síðasta haust eftir að framleiðandinn, Manganese Bronze, þurfti að innkalla fjölda bíla vegna bilunar í stýrisbúnaði og fór í greiðslustöðvun. Kínverska fyrirtækið Geely Group keypti reksturinn fyrir 11 milljónir punda í febrúar og var framleiðslan formlega sett í gang í dag. Þetta kemur fram í umfjöllun The Guardian um málið.

Haft er eftir stjórnarformanni Geely, Li Shufu, að með því að hefja framleiðslu aftur hafi 66 ný störf skapast í verksmiðjum fyrirtækisins í Coventry, en eftir að félagið fór í greiðslustöðvun var 156 manns sagt upp. 

Nýju eigendurnir, sem einnig eru eigendur bílaframleiðandans Volvo, ætla sér stóra hluti, en þegar framleiðslan verður komin á fullt skrið er áætlað að um 10 nýir bílar verði framleiddir á dag. Helmingur bílanna verður fluttur út til Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, en stór hluti verður nýttur til að endurnýja leigubílaflotann í London.

mbl.is

Bloggað um fréttina