Hallanleg flugsæti gætu heyrt sögunni til

Hallandi sæti hafa oft verið upphaf að heiftarlegum rifrildum í …
Hallandi sæti hafa oft verið upphaf að heiftarlegum rifrildum í gegnum tíðina. Ljósmynd/Unsplash

Hin umdeilda tækni, að geta hallað sætinu um borð í flugvél, gæti brátt heyrt sögunni til. Svo umdeilt er hvort halla megi sætinu í flugi eða ekki að til er heill flokkur af vörum sem hannaðar eru í þeim tilgangi að fólk geti komið í veg fyrir að manneskjan sem situr fyrir framan það í flugi halli sætinu.

Á tímabili var þessi tækni staðalbúnaður í hefðbundnum farþegaflugvélum en nú en hún á útleið. Æ algengara verður að framleiða sæti sem ekki er hægt að halla aftur á bak.

En hvað gerðist? Hafa rifrildi á spjallþráðum á netinu virkilega svo mikil áhrif að framleiðendur farþegaþota hætta að hanna sæti sem hægt er að halla? CNN Travel kannaði málið.

Viðhald, eldsneytiskostnaður og rifrildi

Þessa þróun má helst rekja til þess að tækninni og hönnun á flugsætum hefur fleygt fram síðastliðna tvo áratugi.

Tæknin sem felur í sér að hægt er að halla flugsætum hefur falinn kostnað með sér í för. Í fyrsta lagi þarfnast hvers konar tækni viðhalds og viðhald kostar. Í öðru lagi eru sæti með þessum möguleika þyngri, hefðbundið flugsæti sem hægt er að halla vegur á bilinu sjö til tíu kíló. Það munar um hvert kíló í flugvélum og því hafa framleiðendur leitast við að létta vélar sínar, meðal annars með léttari flugsætum. Með því að létta vélar er hægt að spara í eldsneyti, og það kostar svo sannarlega sitt.

Í þriðja lagi geta blossað upp heiftarleg rifrildi vegna þess að fólk hallar sæti sínu á grunlausan farþega fyrir aftan sig. Þannig hafa flugfélög þurft að lenda fyrr en ætlað var vegna rifrildis á milli farþega sem blossaði upp eftir að annar þeirra hallaði sætinu sínu aftur.

Með því að kaupa nýrri, léttari og hagkvæmari flugsæti spara flugfélög því ekki bara krónur, heldur geta þau forðast óskemmtilegar uppákomur um borð því ekki er hægt að halla sætunum.

Þróun flugsæta hefur fleygt fram á síðustu tveimur áratugum.
Þróun flugsæta hefur fleygt fram á síðustu tveimur áratugum. Ljósmynd/Unsplash

Léttari og hagkvæmari sæti

Flugfélög sem fljúga einna helst stuttar vegalengdir, aðeins nokkurra klukkustunda flugleiðir, hafa á síðustu árum að innréttað vélar sínar með flugsætum sem ekki er hægt að halla, en eru hönnuð með svolitlum halla á bakinu. Vinsældir sæta af því tagi hafa notið meiri vinsælda á síðustu árum, en þau eru þannig hönnuð að það komast fleiri sætaraðir fyrir í vélum.

Felur sú hönnun í sér að búið er að gera ráð fyrir leggjalengri farþegum með því að þynna sætisbökin og gera ráð fyrir hnjám farþega. Hver sentímetri skiptir máli þegar um borð er komið og þannig geta flugfélög bætt við sætaröðum.

Flugfélög sem eru með lengri flugferðir, til dæmis milli heimsálfa, í forgrunni í leiðakerfi sínu hafa þó ekki stokkið á vagninn og útrýmt sætum sem hægt er að halla. Þar eru þægindin enn í fyrsta sæti fyrir farþega, en þá er líka almennt rýmra um farþega og minni líkur á meiriháttar rifrildum farþega á milli.

Taktu þátt í könnun mbl.is um hallanleg sæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert