Ættingjar og vinir Britneyjar Spears eru staðráðnir í að sjá svo um að hún verði lögð inn á geðsjúkrahús. Segja þeir sem næst henni standa, þ.á m. foreldrar hennar, að hún þjáist af alvarlegri geðhvarfasýki og þurfi á læknishjálp að halda.
Nánustu ættingjar Britneyjar hafa svo miklar áhyggjur af henni að þeir eru reiðubúnir að leita til dómstóla og fara fram á að hún verði svipt sjálfræði í þrjá daga, en slík svipting er heimil samkvæmt heilbrigðisreglugerð í Kaliforníu.
Forsendur sjálfræðissviptingar eru að einstaklingurinn sem sviptur er teljist hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Haft er eftir vini fjölskyldunnar að ef Britney verði svipt sjálfræði með þessum hætti geti foreldrar hennar farið fram á það við dómstóla að fá „verndarforsjá“ yfir henni, sem þýddi í raun að foreldrar hennar hefðu lagalegt forræði yfir henni.
Ef til þessa kæmi væri hægt að leggja Britneyju inn á geðsjúkrahús gegn vilja hennar.