Þrívíddarmyndband að laginu Wanderlust með Björk Guðmundsdóttur væntanlegt í sýningar, en þar til það birtist má skoða tvívíða útgáfu á netinu.
Tvíeykið Encyclopedia Picturra leikstýra myndbandinu en Björk hafði samband við þá eftir að hafa séð til verka þeirra. „Björk sá síðasta myndbandið sem við gerðum, Grizzly Bear, og hafði samband við okkur,“ sagði dúettinn í viðtali við Studio Daily.
Í nýja myndbandinu sést Björk fljótandi á skærblárri á umkringd alls kyns forsögulegum dýrum. Notast var við brúður og líkön til að búa draumkennda veröld svipaða þeirri sem Björk hefur skapað bæði í tónlist sinni og gömlum myndböndum.
Lagið er að finna á plötunni Volta, sem kom út árið 2007. Fáanleg er núna smáskífa í takmörkuðu upplagi þar sem myndbandið fylgir með á DVD mynddiski.
Hægt er að skoða tvívíða útgáfu af myndbandinu á netinu, til að mynda með því að smella hér. Þrívíða útgáfan kemur út 14. apríl næstkomandi og þarf að nota þrívíddargleraugu til að njóta víddanna allra.