Þýska tennisleikaranum Boris Becker var sparkað af unnustunni með smáskilaboðum nýverið. Sagði í skilaboðunum að leiknum væri lokið og til þess að leggja enn frekar áherslu á skilaboðin sendi hún þau fimm sinnum í síma tennisstjörnunnar fyrrverandi. Segir Becker í viðtali við Bildt í dag að þetta hafi komið honum gjörsamlega í opna skjöldu.
Becker sem nú er atvinnumaður í pókerspili hefur verið kenndur við ýmsar konur frá því hann skildi við eiginkonuna, Barböru Feltus, árið 2001. Á hann tvo syni með henni en auk þess á hann átta ára gamla dóttur með rússneskri fyrirsætu sem heldur því fram að hafa hitt Becker í klúbb og þau síðan haft kynmök á japönskum veitingastað í kjölfarið.
Becker náði heimsfrægð þegar hann vann Wimbledon mótið í tennis árið 1985 einungis sautján ára gamall. Nýjasta fyrrverandi kærasta hans, og sú sem sagði honum upp með sms skilaboðum, heitir Sandy Meyer-Woelden og er dóttir gamals þjálfara kappans. Hún er fimmtán árum yngri en Becker sem er fertugur.
Árið 2002 var Becker dæmdur í 2 ára skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik en Becker viðurkenndi fyrir rétti að hafa í raun búið í Þýskalandi þótt hann ætti skráð lögheimili í Mónakó til að komast hjá að greiða skatta.