Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, verður framan á sérútgáfu myndasögublaðs um ævintýri Kóngulóarmannsins.
Í sögunni, sem er sex blaðsíður, bjargar ofurhetjan deginum þegar svikahrappur reynir að setjast í forsetastólinn í stað Obama. Myndasagan verður sett í sölu nk. miðvikudag.
Joe Quesada, Marvel Comics, segir að hugmyndin hafi skotið upp kollinum það kom í ljós að Obama væri aðdáandi Kóngulóarmannsins.
„Hversu frábært er þetta? Æðsti yfirmaður heraflans er í raun æðsti yfirmaður nördanna,“ segir Quesada.
Upp komst um aðdáun forsetans verðandi á ofurhetjunni þegar aðstoðarmenn hans birtu lítt þekktar 10 staðreyndir Obama þegar kosningabaráttan stóð sem hæst.