Hross í oss kvikmynd ársins

Hross í oss hlaut í kvöld Edduverðlaunin sem kvikmynd ársins. Leikstjóri myndarinnar, Benedikt Erlingsson, var jafnframt valinn leikstjóri ársins. Kvikmyndin Málmhaus hlaut flestar Eddur í ár, eða átta styttur. Næst á eftir kom Hross í oss með sex verðlaun.

Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri veitti verðlaununum fyrir bestu myndina viðtöku sem framleiðandi kvikmyndarinnar. Benedikt Erlingsson var ekki viðstaddur verðlaunaafhendinguna í kvöld þar sem hann er viðstaddur frumsýningu Hross í oss í Glasgow í Skotlandi.

Friðrik sagði í kvöld að myndin væri eitt mesta kraftaverk í íslenskri kvikmyndasögu. „Af því að þetta var bara lítil mynd sem varð risastór,“ sagði hann og bætti við að myndin hefði verið seld víða um heim. Tilkynnt yrði um 18 sölur á blaðamannafundi á morgun og átta sölur til viðbótar í á Nútímalistasafninu í New York (MoMA).

„Hún er að komast á stall með útbreiddustu kvikmyndum Íslandssögunnar og það er svo fallegt,“ sagði Friðrik. 

Sigríður Margrét Vigfúsdóttir hlaut heiðursverðlaun Eddunnar, en hátíðin fór fram í Silfurbergi í Hörpu. Þar voru alls veittar 24 Eddustyttur þeim einstaklingum sem þóttu skara fram úr í íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransanum. Hátíðin var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2.

Ingvar E. Sigurðsson hlaut tvenn verðlaun. Hann var valinn besti leikari í aðalhlutverki í Hross í oss og besti leikari ársins í aukahlutverki í Málmhaus. Hann veitti verðlaununum ekki viðtöku þar sem hann er staddur á Ítalíu við tökur á nýjustu kvikmynd Baltasars Kormáks, Everest.

Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir var verðlaunuð sem besta leikkonan í aðalhlutverki fyrir Málmhaus. Halldóra Geirharðsdóttir var valin besta leikkonan í aukahlutverki í sömu kvikmynd.

Benedikt hlaut jafnframt verðlaun fyrir handritið að Hross í oss.

Kastljós var valinn frétta- eða viðtalsþáttur ársins, Orðbragð skemmtiþáttur ársins, Ástríður 2 leikið sjónvarpsefni ársins og Djöflaeyjan var valin menningar- eða lífsstílsþáttur ársins. Þá var Bogi Ágústsson valinn sjónvarpsmaður ársins.

Hvellur hlaut Edduna sem heimildarmynd ársins og stuttmynd ársins er Hvalfjörður.

Loks var setningin „Inn, út, inn, inn, út“ úr Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu kosin fleygasta setning úr íslenskri kvikmynd, en um var að ræða setningar úr myndum sem voru framleiddar fyrir árið 2000. 

Nánar hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur legið í dvala allt of lengi svo nú er komið að því að láta hendur standa fram úr ermum. Gefðu þér tíma til að sinna ungum sem öldnum í fjölskyldunni.
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur legið í dvala allt of lengi svo nú er komið að því að láta hendur standa fram úr ermum. Gefðu þér tíma til að sinna ungum sem öldnum í fjölskyldunni.