Tæplega tveggja metra breitt hús í London fær ekki að gegna hlutverki sínu öllu lengur því yfirvöld hafa ákveðið að það uppfylli ekki kröfur til íbúðar.
Eigendum hússins hefur verið veittur þriggja mánaða frestur til að rífa húsið sem þykir óttalegt hrófatildur. Það er að finna í hverfinu Leyton í austurhluta London.
„Húsinu“ var hróflað upp í maí í fyrra í sex feta mjóu sundi milli tveggja húsa. Var það í raun gert í leyfisleysi því byggjendum láðist að leita byggingarleyfis. Fljótlega mæltu bæjaryfirvöld svo fyrir um að framkvæmdum skyldi hætt en eigendur hússins áfrýjuðu. Notfærðu þeir sér allar mögulegar leiðir til þess en höfðu ekki erindi sem erfiði og því er húsið endanlega dauðadæmt.
Fundið var m.a. því hversu byggingin stakk í stúf við umhverfið. Krossviðsveggir kölluðust gróflega á við múrsteinsveggi húsanna í kring og flatt þakið passaði heldur ekki inn í götumyndina. Þá kunnu nágrannarnir byggingarmönnum litlar þakkir fyrir framtakið.