Í hjarta allrar listar verður að búa áhugamennska

Þorgeir Tryggvason.
Þorgeir Tryggvason.

Alþjóðlegi leiklistardagurinn er haldinn hátíðlegur í dag, en hann hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1961 fyrir tilstuðlan Alþjóða leiklistarstofnunarinnar (ITI). Alþjóðlega ávarpið í ár samdi pólski leikstjórinn Krzysztof Warlikowski. Hér má lesa ávarp hans.

Að venju fékk Leiklistarsamband Íslands íslenskan sviðslistamann til að semja íslenskt ávarp dagsins og í ár er höfundur þess Halldóra Geirharðsdóttir leikkona og leikstjóri.

Í fyrsta sinn í ár hefur Norðurevrópska áhugaleikhússambandsins (NEATA) falið sviðslistamanni úr sínum röðum að semja ávarp og er höfundur þess Þorgeir Tryggvason leikskáld og formaður Bandalags íslenskra leikfélaga.

Ávarp Þorgeirs fer í heild hér að neðan:

Í hjarta allrar listar verður að búa áhugamennska. Eða réttara sagt. Í hjarta allrar listar hlýtur að búa áhugamennska. Annars er hún bara varningur. Framleiðsla. Neysluvara. Þetta er svo augljóst að það er auðvelt að sjást yfir það. Ekki síst á okkar póstmódernu tímum þegar allt er varningur. Næstum allt. Listin er öðruvísi. Listin verður að vera öðruvísi.

List verður að spretta af ástríðu. Þörf fyrir að rannsaka, miðla og vekja. Og gleðinni sem vel heppnuð rannsókn, miðlun og vakning kveikir með skapara hennar og samverkafólki hans, áhorfendum. Þegar hagnaðarsjónarmiðið er fjarlægt úr jöfnunni verður þetta augljóst. Þegar„atvinnu-“forskeytinu er sleppt. Þegar brauðstritsþörfin er ekki tilstaðar.

Hvergi er þetta jafnaugljóst og í áhugalist, og þá í áhugaleikhúsinu. Þar sem allt sem gert er er, eðli málsins samkvæmt, einungis gert af þörf til að gera einmitt það. Ekki til að vinna fyrir sér, ekki til að öðlast frægð. Ekki af skyldu eða vana, ekki af því að það var jú þetta sem þú lærðir. Heldur aðeins af ást á listinni. Að kanna tilfinningar og kringumstæður og miðla þeim sannindum sem könnunin leiðir í ljós. Koma móttakandanum, lesandanum, áhorfandanum til að hlæja, gráta, hugsa.

Að þroskast og vera öðru fólki þroskavaki. Og svo auðvitað af því það er einfaldlega svo skemmtilegt. Eins og lífið er. Eða á að vera.

Þetta er kjarninn, hjartað. Hvort sem þú færð borgað eða ekki, hvort sem þú býrð að formlegri menntun eða ekki, jafnvel þó þú sért alþjóðlegstjarna. Og líka ef þú ert hjúkka, strætóstjóri, nemandi, tannlæknir eða smiður sem kýs að nýta frítímann í þjónustu raddarinnar í hjartanu. Þá er það augljóst.

Svo augljóst reyndar að það er auðvelt að sjást yfir það. Í nútímanum, sem einblínir á gróða og frægð, er ekkert auðveldara en að gleyma hvað býr í hjartanu. Þeir sem stýra fjárveitingum og menningarpólitík virðast oft gleyma þessu.

En við vitum öll betur, innst inni.

Ágústínus kirkjufaðir sagði, eins og frægt er: „Elskaðu Guð og gerðu það sem þú vilt“. Við leikhúsamatörar – atvinnumenn og við hin elskum hina duttlungafullu Talíu. Og munum svo sannarlega aldrei hætta að gera það sem við viljum, með þá ást sem okkar helsta vegvísi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes