Skiptir mestu máli að fólk tengi við lagið

Svala Björgvinsdóttir flytur lagið Paper í úrslitum Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn. Hún segir það hafa verið ótrúlega gaman að komast áfram í úrslit keppninnar og sjá hvernig fólk tengir við lagið.

„Við erum á fullu núna í söngæfingum og æfingum á sviðinu,“ segir Svala í samtali við mbl.is. „Síðan er maður að fara hér og þar í viðtöl og svona þannig að allir dagar í vikunni hafa verið troðfullir.“

Getur leyft sér aðra hluti í höllinni

Svala flutti lagið í íslenskri útgáfu, þar sem það heitir Ég veit það, á sviði Háskólabíós á laugardaginn við mikinn fögnuð. Hún segir að atriðið verði ekki nákvæmlega eins á laugardaginn í Laugardalshöllinni án þess að vilja gefa of mikið upp. „Laugardalshöllin er náttúrulega öðruvísi en Háskólabíó þannig að maður getur leyft sér aðra hluti.“

Hún segir að það hafi gengið mjög vel á laugardaginn. „Ég fann fyrir rosalega miklum stuðningi og fannst mjög gaman á sviðinu. Þetta er mjög persónulegt lag fyrir mig og það er svo frábært þegar fólk er að tengja við textann og lagið,“ segir Svala. „Það kom mér reyndar á óvart hvað ég var stressuð áður en ég fór á svið. Það eru alltaf fiðrildi og spenningur en þarna var það extra mikið. Ég held samt að það sé bara þannig að maður vill gera svo vel fyrir fólkið manns. Ég er Íslendingur og Ísland er landið mitt þannig að maður vill vera mjög góður.“

Hún segir að stressið hafi þó horfið um leið og hún kom upp á svið. „Mér leið rosalega vel á sviðinu og mér líður alltaf vel á sviði sem betur fer. Það er bara rétt áður sem maður fær smá fiðrildi og spenning.“

Við göngum öll í gegnum eitthvað

Eins og fyrr segir er Svala höfundur lags og texta. Eiginmaður hennar Einar Egilsson er einnig höfundur lagsins ásamt Lester Mendez. Þá er Lily Elise textahöfundur ásamt Svölu en Stefán Hilmarsson samdi íslenska textann.

„Lagið fjallar um að glíma við erfiða hluti og erfiða tíma. Þegar ég var að semja lagið langaði mig að  setja það upp eins og maður væri að eiga við erfitt samband sem maður á við sjálfan sig. Þegar ég á í erfiðleikum og er að glíma við sjálfa mig hjálpar að tala opinskátt um það og ég hef gert það. Ég hef glímt við kvíða síðan ég var unglingur og tónlistin hefur hjálpað mér með það. En hver sem er getur sett sig inn í lagið, við göngum öll í gegnum eitthvað og lagið er um það að gefast ekki upp þó að maður eigi erfiðan dag.“

Svala segir að þátttaka í Eurovision hafi aldrei verið sérstakur draumur hjá sér eða á planinu. Hún keppti sem lagahöfundur árið 2008 en þá var fyrirkomulagið þannig að RÚV bað nokkra höfunda um að semja þrjú lög á mann fyrir keppnina. Meðal þeirra laga sem Svala samdi var The Wiggle Wiggle Song sem var flutt af Haffa Haff.

„Mér fannst það ógeðslega gaman og skemmti mér konunglega. Ég hugsaði þá að kannski myndi ég einhvern tímann taka aftur þátt en það var aldrei planað að keppa sem flytjandi. En aldrei að segja aldrei og við ákváðum að senda þetta lag inn. Síðan ákvað ég að keppa sem flytjandi og strika það af listanum. Ég hafði heyrt frá svo mörgum hvað það væri ótrúlega gaman að taka þátt í þessari keppni.“

Aftur til LA á mánudaginn

Lagið Paper var samið fyrir ári síðan. „Þegar við vorum búin að semja það áttuðum við okkur á því að þetta væri frekar stórt og mikið lag sem gæti passað vel í svona keppni. Þetta var mjög sjálfsprottin ákvörðun sem ég sé svo sannarlega ekki eftir,“ segir Svala.

Spurð um tilfinninguna þegar það var tilkynnt að lagið hennar kæmist í úrslitin á laugardaginn segir Svala hana hafa verið ótrúlega góða. „Ég var alveg rosalega ánægð. Mér finnst samt skipta mestu máli að fólk sé að tengja við lagið og það gleður mig mjög mikið.“

Svala er búin að vera búsett í Los Angeles í átta ár en hefur verið töluvert hér á landi síðustu misserin þar sem hún er dómari í The Voice. „Ég hef verið að koma út af The Voice í 3 vikur 1-2 skipti á ári. Núna kláraði ég The Voice og fór svo beint í undirbúninginn á Söngvakeppninni,“ segir hún og bætir við að hún fari heim til Los Angeles á mánudaginn.

Spurð um hvað sé á döfinni sé það enn meiri tónlist. „Ég er að fara að gefa út nýtt lag með hljómsveitinni minni Blissful, sem er annað lagið okkar, og myndband. Það eru alls konar spennandi hlutir í gangi með bandið sem ég ef ekki náð að sinna nógu vel út af Söngvakeppninni,“ segir Svala en Blissful gaf út sitt fyrsta lag í fyrra.

Svala segist ekki vera að hugsa mikið um hvernig keppnin á laugardaginn fari. „Ég tek bara einn dag í einu. Ég er reyndar ekki sigurviss týpa að eðlisfari og er mikið á jörðinni. Þetta kemur bara allt í ljós.“

Svala er sjötta í röðinni á úrslitunum á laugardaginn. Hægt er að kjósa lagið hennar Paper með því að hringja eða senda SMS í númerið 900-9906.

Svala á sviðinu síðasta laugardag.
Svala á sviðinu síðasta laugardag. Ljósmynd/Mummmi Lú
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kemst ekki upp með neitt þessa dagana og á því að leggja spilin á borðið. Treystu innsæi þínu og láttu það eftir þér að gera það sem þig langar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kemst ekki upp með neitt þessa dagana og á því að leggja spilin á borðið. Treystu innsæi þínu og láttu það eftir þér að gera það sem þig langar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren