Mílanó eða Lissabon á næsta ári?

Francesco Gabbani með fána Ítalíu. Hann þykir líklegastur til sigurs.
Francesco Gabbani með fána Ítalíu. Hann þykir líklegastur til sigurs. AFP

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að seint í kvöld klárast þetta allt saman og Eurovision í Kænugarði er liðin tíð. Upp úr klukkan 1 að úkraínskum tíma, þ.e. upp úr klukkan 22 heima, vitum við í hvaða landi keppnin verður haldin að ári sem er mjög spennandi tilhugsun. Það er reyndar líka ótrúlegt að hugsa til þess að nú er heilt ár síðan Jamala vann keppnina í fyrra og í ljós kom að Eurovision myndi koma til Úkraínu. Við tók langt og strangt undirbúningsferli og gekk á ýmsu. Til að mynda sagði 21 mikilvægur stjórnandi í undirbúningi keppninnar upp störfum í febrúar, aðeins þremur mánuðum fyrir keppni. Þeir sem blaðamaður hefur rætt við um skipulag og umgjörðina hérna í Kænugarði hafa verið á því að í ár hafi allt verið frekar mikið á seinustu stundu en smollið saman að lokum. Ég held að við séum þó öll sammála um að keppnin í ár hafi gengið vel en enginn veit hvað gerist í kvöld.

Talandi um keppnina í kvöld, þá keppa 26 þjóðir og í hópnum eru margir áhugaverðir keppendur. Þar eru auðvitað engir Íslendingar eins og við vitum öll en Norðurlandahjartað getur huggað sig við það að Danir, Svíar og Norðmenn verða með fulltrúa í úrslitunum og eru það allt þrusugóð lög. Reyndar er Svíanum spáð mjög góðu gengi í kvöld og hafa sumir meira að segja spáð honum sigri.

Austur-Evrópulöndin sem komust í úrslitin í ár eru líka með nokkuð góð framlög. Ég hef verið að söngla rúmenska jóðlið síðan á fimmtudaginn og lagið frá Hvíta Rússlandi er nokkuð grípandi með góðu „hey-i og hó-i“ sem minnir eflaust suma á fyrstu lög íslensku sveitarinnar Of Monsters and Men.

Salvador Sobral syngur „Amar pelos Dois“ fyrir Portúgal
Salvador Sobral syngur „Amar pelos Dois“ fyrir Portúgal AFP

Moldóvska atriðið er líka rosalega skemmtilegt í ár, þrjár brúðir með hatta í bakröddum og „Epic Sax Guy“ á sviðinu. Að mati sumra er lagið algjört aukaatriði en mér finnst það ágætt.

En spennan í kvöld liggur náttúrlega mest í því hvaða lag það er sem fer alla leið og vinnur Eurovisoin. Það er almennt mat fólks að það sé fátt sem getur komið í veg fyrir sigur Ítalíu og lagsins „Occidentali Karma“ í flutningi Francesco Gabbani en veðbankar hafa spáð því sigri frá því í febrúar. En veðbankar hafa ekkert alltaf rétt fyrir sér og er talið að framlag Portúgals muni veita Ítalanum mjög harða samkeppni. Portúgalska lagið heitir „Amar pelos Dois“, eða „Ást fyrir tvo“ á íslensku og er flutt af Salvador Sobral. Sobral þessi hefur vakið gríðarlega athygli í aðdraganda keppnina fyrir magnaðan flutning en heilsufar hans hefur þó einnig ítrekað komist í umræðuna.

Mér vitandi hefur ekki verið gefið út hvað nákvæmlega hrjáir Sobral en það á víst að vera einhverskonar hjartasjúkdómur. Sumir hafa meira að segja greint frá því að hann bíði þess að fá nýtt hjarta. Veikindin hafa haft áhrif á þátttöku Sobral en alls ekki á gengi hans. Hann þurfti að sleppa fyrstu tveimur æfingunum fyrir fyrri undankeppnina því læknar hans í Portúgal leyfðu honum ekki að vera í burtu svona lengi. Systir hans, sem semur lagið, hljóp í skarðið og flutti lagið á þeim æfingum.

En lag hins ítalska Gabbani tikkar í öll boxin að mínu mati. Það er skemmtilegt, það er hress dans með og maður í apabúningi á sviðinu sem á að tákna að við erum öll bara apar. Þetta verður held ég alveg ótrúlega spennandi í kvöld og ég get ekki beðið eftir að byrjað verður að lesa upp stigin.

Nú er dvöl mín í Kænugarði senn á enda og ég get ekki verið annað en ánægð með þessa ferð. Það hafa verið mikil forréttindi að koma hingað og ég veit ekki hvort ég fæ einhvern tímann annað tækifæri til þess að verja viku í sjálfum Kænugarði. Borgarbúar og reyndar bara úkraínska þjóðin í heild hafa gengið í gegnum ýmsar hörmungar síðustu ár, þá helst vopnuð átök og slæmt efnahagsástand en ef marka má þann fjölda af byggingakrönum sem maður sér þegar maður horfir yfir borgina er ástandið að lagast og vona ég svo innilega að það sé rétt. Úkraínumenn eru upp til hópa vingjarnlegir og þeir eiga skilið að lifa jafn góðu lífi og við í ríku þjóðum Evrópu.

En núna er bara að koma sér vel fyrir í kvöld, velja sér uppáhaldsland og njóta. Góða skemmtun!

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes