Samsæriskenning sem reyndist sönn

„Ég er búin að vera í af­neit­un. Ég hef verið …
„Ég er búin að vera í af­neit­un. Ég hef verið í áfalli. Ég er skemmd eft­ir þetta,“ sagði Brit­ney Spears í dómsal á miðvikudag. Hún vill end­ur­heimta sjálfræðið án þess að gang­ast und­ir fag­legt mat. AFP

Mál Britney Spears, einnar skærustu og umtöluðustu poppstjörnu samtímans, snýst um mun meira en að poppprinsessan endurheimti líf sitt frá föður sínum og öðlist frelsi. Umræðan snýst líka um framkomu við veika einstaklinga og hvað telst eðlileg meðferð þegar fólk glímir við geðræn veikindi. Þetta er mat Elvu Bjarkar Ágústsdóttur, óformlegs formanns Aðdáendaklúbbs Britney á Íslandi. 

Elva er sálfræðimenntuð og starfar sem sálfræðikennari við Menntaskólann í Hamrahlíð ásamt því að sinna rannsóknum hjá Háskóla Íslands. „Ég er mikill píkupoppari og unglingur inn við beinið,“ segir Elva sem hefur fylgst með Britney allt frá upphafi ferilsins. „En mín aðdáun á Britney er öðruvísi en margra. Það byrjaði þannig að ég var að hlusta á tónlistina, ég er svipað gömul og hún, en síðan færist þetta yfir í sálfræðilegan áhuga á henni. Maður fylgdist með henni brotna niður fyrir framan alla árið 2007,“ segir Elva og vísar þannig í þegar heimsbyggðin stóð á öndinni þegar myndir birtust af Britney á húðflúrstofu í Kaliforníu að raka á sér höfuðið. 

Á þessum tíma hafði Elva lokið við sálfræðinámið og fór að líta Britney öðrum augum. „Mér fannst gríðarlega áhugavert að fylgjast með henni og hvernig hún var meðhöndluð.“ 

„Ég er mikill píkupoppari og unglingur inn við beinið,“ segir …
„Ég er mikill píkupoppari og unglingur inn við beinið,“ segir Elva Björk Ágústsdóttir sem hefur fylgst með Britney allt frá upphafi ferilsins. Ljósmynd/Aðsend

Vikan sem senn tekur enda var viðburðarík í lífi Britney þegar hún biðlaði til dómara í Los Angeles að veita henni sjálfræði eftir 13 ára frelsissviptingu. Þetta er í fyrsta sinn sem hún tjáir sig opinberlega um líf sitt eftir að hún var svipt sjálfræði árið 2008 og faðir hennar skipaður lögráðamaður hennar. „Ég vil að þetta taki enda. Þetta veld­ur mér bara skaða. Ég á skilið að eiga líf,“ sagði hún m.a. í til­finn­ingaþrung­inni ræðu fyr­ir dóm­stól­um á miðvikudag.

Skýr og sannfærandi fyrir dómstólum

Elva fylgdist með vitnaleiðslunni og finnst áhugavert hvernig það sem þar kom fram gengur í berhögg við það sem aðdáendur hafa séð frá Britney síðustu ár, það er að allt sé í himnalagi. Það vakti áhuga Elvu hversu vel Britney kom fyrir í dómsal. 

„Mér finnst það ótrúlega mikilvægt og merkilegt. Manneskja sem ætti að vera það veik að hún færi ekki að stjórna eigin lífi, gifta sig, eignast börn eða keyra bíl, talar ekki svona skýrt. Það er sjaldan sem maður heyrir manneskju í hennar stöðu vera svona skýrmælta,“ segir Elva.

„Það eru svo mörg önnur úrræði sem gætu hentað betur eins og bara það að vera með ráðgjafa sem passar upp á fjármálin eða að hún fari í reglulega meðferð en ekki þessi rosalega frelsissvipting. Þetta er lokaúrræði, það á að vera búið að reyna allt áður en þetta er reynt, sem var gert mjög snemma í hennar ferli og hefur ekki verið afnumið.“

Britney Spears í október 2018. Rúm 13 ár eru síðan …
Britney Spears í október 2018. Rúm 13 ár eru síðan hún var svipt sjálfræði og faðir hennar gerður lögráðamaður hennar. Britney kom fyrir dómara í vikunni þar sem hún krafðist þess að endurheimta eigið sjálfræði. AFP

Studdi ekki #FreeBritney fyrst um sinn

Aðdáendur Britney hafa reynt eftir fremsta megni að fylgjast með stjörnunni síðustu ár og fljótlega varð til sú kenning að Britney væru í raun fangi föður síns. Myllumerkið #Freebritney fór fljótlega á flug og samnefnd hreyfing braust úr. 

„Ég var á öndverðum meiði við þau, ég hélt að kerfið í Bandaríkjunum gæti ekki verið það meingallað að henni væri haldið fanginni í 13 ár, ég bara trúði því ekki,“ segir Elva sem segist ekki hafa stutt hreyfinguna til að byrja með. „Ég trúði því að hún væri mögulega ótrúlega veik, það hlyti að vera. En svo fer skoðun mín á því að breytast eftir að ég kynnti mér málið.“ 

Hún telur þó að hörðustu liðsmenn hreyfingarinnar lesi of mikið í ástandið og trúir því til að mynda ekki að Britney sé að senda fylgjendum sínum leynd skilaboð í gegnum samfélagsmiðla. „Í grunninn gengur hreyfingin út á að binda enda á þessa lögræðissviptingu. Hún gengur ekkert út á það að halda því fram að hún sé ekkert veik.“ 

Eftir að Britney tjáði sig loks sjálf um eigin stöðu segir Elva að málið hafi tekið nýja stefnu. „Þetta verður stærra mál af því að þetta tengist því hvernig við komum fram við veika einstaklinga, er þetta eðlileg meðferð eða ekki, við erum með skýrt sýnidæmi núna.“

En hvað varð til þess að Britney tók af skarið í vikunni og kom í fyrsta sinn sjálf fram í réttarsal vegna málsins? 

Elva segist sannfærð um að aukið umfang #freeBritney-hreyfingarinnar, auk heimildamynda sem hafa verið gerðar síðustu tvö ár, hafi átt þátt í að Britney ákvað að stíga sjálf fram. „Í Framing Britney sést hvernig allur hennar ferill hefur verið þvingandi og ef maður lítur til baka á hvernig var talað um þetta, eins og þegar hún rakaði af sér hárið, ég held að það yrði ekki talað svona um þetta í dag.“ 

Liðsmenn #FreeBritney hafa verið sakaðir um samsæriskenningar, líkt og að Britney sé fangi föður síns, en nú eftir að hún hefur tjáð sig er það raunin. „Það sem mér finnst áhugavert er að við erum í fyrsta skipti í öll þessi ár að heyra hennar rödd. Þetta er það sem við erum búin að bíða eftir svo lengi. Þetta er í fyrsta skipti þar sem kemur í ljós svo ég muni eftir að samsæriskenning reynist rétt og meira að segja ýktasta útgáfan, þetta var það mikil bomba,“ segir Elva. 

#FreeBritney-hreyfingin lét sig ekki vanta fyrir utan dómsalinn í Los …
#FreeBritney-hreyfingin lét sig ekki vanta fyrir utan dómsalinn í Los Angeles í vikunni. AFP

Opnar á umræðu um frelsissviptingar

Hún er þeirrar skoðunar að mál Britney brjóti ísinn hvað varðar frelsissviptingarmál almennt. „Það að ein frægasta kona heims, og moldrík, getur verið í þessari stöðu, hvað með allar hinar?“ spyr Elva og bætir við að henni finnist þurfa að horfa á málið út frá feminísku sjónarhorni þar sem Britney er síður en svo eina söngkonan sem brotið hefur verið á með þessum hætti á meðan karlar, líkt og Charlie Sheen og Kanye West, hafi fengið að leika lausum hala þegar þeir voru augljóslega að glíma við andlegan heilsubrest. Umræða á borð við þessa hefur nú þegar skapast á Twitter. 

Þá gerir Elva athugasemd við að faðir Britney sé lögráðamaður hennar. Lögum samkvæmt á hún rétt á hlutlausum lögráðamanni sem faðir hennar getur seint talist. „Þau eru ekki einu sinni í góðu sambandi. En ég vona að þetta opni umræðu um lögræðissviptingu, hversu auðvelt það virðist vera að frelsissvipta fólk og kannski hversu erfitt er að losna undan því og komast aftur inn í lífið.“ 

Fer ítarlega yfir málin í Poppsálinni

Elva er stofnandi Facebook-hópsins „Aðdáendur Britney Spears“ og mætti því titla hana óformlegan formann aðdáendaklúbbs Britney á Íslandi. Elva hefur mikið fjallað um málefni poppprinsessunnar í hlaðvarpsþættinum „Poppsálinni“ þar sem hún fjallar um ýmis sálfræðileg málefni sem tengjast poppmenningu sem og áhugaverðar rannsóknir og pælingar innan sálfræðinnar. Fljótlega fann hún að áhuginn á Britney var mjög mikill og ákvað hún því að stofna sérstakan umræðuvettvang fyrir hana sem hefur komið sér vel síðustu daga.

Í nýjasta þætti Poppsálarinnar ræðir Elva einmitt um frelsissviptingar og hvernig þeim er háttað hér á landi auk þess sem hún fer yfir vendingar í máli Britney þessa vikuna. 

Enn er óljóst hvort eða hvenær Britney endurheimtir sjálfræðið en hún kemur næst fyrir dómara 14. júlí. Elva ætlar að sjálfsögðu að fylgjast með hverju skrefi í málinu. „Þetta er svo miklu stærra og meira en bara frelsissvipting.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Með réttum félaga getur þú myndað sterkt bandalag til að hrinda áhugamálum þínum í framkvæmd. Mundu samt að ganga hægt um gleðinnar dyr svo ekki fari allt í vitleysu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Lucinda Riely og Lucinda Riley
3
Eppu Nuotio
4
Sofie Sarenbrant
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Með réttum félaga getur þú myndað sterkt bandalag til að hrinda áhugamálum þínum í framkvæmd. Mundu samt að ganga hægt um gleðinnar dyr svo ekki fari allt í vitleysu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Lucinda Riely og Lucinda Riley
3
Eppu Nuotio
4
Sofie Sarenbrant
5
Birgitta H. Halldórsdóttir