Datt ekki í hug að þetta væri möguleiki

Baltasar Kormákur er höfundur Kötlu auk þess sem hann leikstýrir …
Baltasar Kormákur er höfundur Kötlu auk þess sem hann leikstýrir nokkrum þáttum. Ljósmynd/Lilja Jóns

Leikstjórinn Baltasar Kormákur hefur náð langt í kvikmyndagerð á alþjóðlegum vettvangi. Nýjasta afurð hans, Netflix-þættirnir Katla, hafa vakið verðskuldaða athygli. 

„Markmið mitt hefur verið að opna alþjóðlega kvikmyndamiðstöð á Íslandi. Ekki þjónustufyrirtæki fyrir stóru Hollywood-kvikmyndaverin heldur til að geta framleitt kvikmyndir í stærri stíl. Katla er til dæmis eins íslensk og hægt er að vera. Hún fjallar um íslenskar þjóðsögur og íslensk eldfjöll og er núna númer fimm á Netflix um allan heim. Öll sem vinna að Kötlu eru íslensk fyrir utan tvo leikara sem eru sænskir. Það opnar endalausar dyr og möguleika fyrir íslenska hæfileika. Fyrir nokkrum árum datt mér ekki einu sinni í hug að þetta væri möguleiki, að stórt kvikmyndaver myndi koma inn og fjármagna að fullu íslenska framleiðslu,“ segir Baltasar Kormákur í viðtali á vef 66°Norður þegar hann er spurður út í það hvernig hann sjái fyrir sér framtíð íslensks kvikmyndaiðnaðar. 

„Vonandi mun fjölbreytnin einnig aukast. Við munum hafa alls konar kvikmyndagreinar. Að mínu mati stendur það íslenskri kvikmyndagerð svolítið fyrir þrifum að hún er frekar einsleit. Það er mikið af sama efninu. Við verðum að gera marga mismunandi hluti ef við ætlum að starfa áfram. Við verðum að gera listrænar kvikmyndir og kvikmyndir sem almenningur vill sjá: barnamyndir og ævintýra- og hryllingsmyndir og vísindaskáldskap, hvað sem er undir sólinni í raun og veru. Líka bara til þess að halda íslenskum áhorfendum áhugasömum. Það er frábært með þátt eins og Kötlu, sem er ansi óhefðbundin hugmynd, að alls konar fólk á Íslandi virðist vera að horfa á hann. Ég fékk meira að segja tölvupóst frá einhverjum sem vinnur á hjúkrunarheimili sem sagði að gamla fólkið væri svo spennt að það mætti ekki í síðdegiskaffið vegna þess að það vildi ekki hætta að horfa.“

Baltasar í tökum á Kötlu.
Baltasar í tökum á Kötlu. Ljósmynd/Lilja Jóns

Af hverju heldurðu að Netflix hafi verið tilbúið að taka þessa áhættu?

„Ég held að þeim hafi litist vel á hugmyndina. Og þau vildu gera eitthvað með mér og mínu fyrirtæki. Ég hef verið að varpa fram hugmyndinni síðan 2010 eða 2011 og áhuginn var mikill. Fyrirtæki J.J. Abrams hafði áhuga en að lokum vildi það framleiða þættina á ensku en ég vildi gera þá á íslensku. Og svo kom Netflix. Þetta er ekki kjörtímasjónvarpsþáttur sem þú setur á dagskrá á venjulegri sjónvarpsstöð. Þetta er mun meira á jaðrinum. Þetta er tvímælalaust frumlegasta hugmyndin sem ég hef unnið að. Viðtökurnar hafa sem sagt verið frábærar og einfaldlega sú staðreynd að við fengum að framleiða þá.“

Þegar þú varst að leggja lokahönd á Kötlu hófst eldgosið í Fagradalsfjalli. Hvernig tilfinning var það? Heldurðu að listin geti kennt okkur að takast á við hörmungar?

„Ég var að vona að það yrði Katla! Nei, í alvöru talað lít ég ekki þannig á það. Ég hef áhuga á að fylgjast með fólki og viðbrögðum þess við mismunandi aðstæður. Kannski er hægt að læra eitthvað af því; sumir munu bregðast svona við hættu á meðan aðrir gætu brugðist rangt við. En ég er ekki predikari á neinn hátt. Ég hef ekki áhuga á kvikmyndagerðarmönnum sem eru predikarar. Listin ætti að vera listarinnar vegna, ekki fyrir pólitískan tilgang eða áróður.“

Ljósmynd/Lilja Jóns

Katla kemur inn á þemu eins og smæð mannsins gagnvart náttúrunni. Telur þú að það sé sannara á Íslandi en annars staðar?

„Algjörlega. Þegar ég var að gera Everest spurði fólk mig hvernig ég hefði undirbúið mig og ég sagði: „Með því að labba í skólann á hverjum degi.“ Fyrir krakka í hríðarbyl var það eins og að klífa Everest-fjall. Þegar maður býr í landi eins og Íslandi, umkringdur eldfjöllum og slæmu veðri, minnir það mann daglega á að maður er þar á forsendum náttúrunnar. Ég man þegar Eyjafjallajökull gaus [árið 2010] og fólk var pirrað yfir því að geta ekki ferðast, það minnti mig á að fjöldi fólks er ekki í sambandi við náttúruna. Við erum ekki við stjórnvölinn og já, kannski gætum við þurft að endurskipuleggja flugið okkar. Það er fyndið þegar fólk missir sjónar á því.“

Guðrún Eyfjörð, einnig þekkt sem GDRN, leikur aðalhlutverkið í Kötlu. Hún er vinsæl söngkona á Íslandi en hefur enga reynslu af leiklist. Hvernig endaðir þú á að velja hana í hlutverkið?

„Dóttir mín þekkir hana og hafði minnst á hana. Ég þekkti ekki tónlistina hennar þá en hún kom í áheyrnarprufu og heillaði mig hreinlega upp úr skónum. Mér fannst hún frábær. Auðvitað þurftum við að þjálfa hana aðeins, undirbúa hana, en að mínu mati hefðum við ekki getað valið neina betri fyrir hlutverkið. Í þessu starfi þarftu að taka sénsa. Þú getur ekki bara alltaf gert það sama. Ég efaðist aldrei um þetta val, og núna, miðað við viðtökurnar sem hún er að fá, virðist fólk vera á sama máli. Þið munuð sjá hana gera suma hluti snilldarlega, sérstaklega í seinni þáttunum. Ég held að hún verði til staðar um allnokkurt skeið bæði sem leikkona og söngkona.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes