Þurfti að greina frá fyrr en hún vildi

Katrín prinsessa og Guðný Ósk Laxdal.
Katrín prinsessa og Guðný Ósk Laxdal. Samsett mynd/BBC Studios/mbl.is/Eggert

„Mér finnst hún vera rosalega hugrökk. Það er ekkert grín að segja frá svona persónulegu við allan heiminn, sérstaklega þegar umræðan er búin að vera eins og hún er búin að vera,“ segir Guðný Ósk Lax­dal, sér­fræðing­ur í bresku kon­ungs­fjöl­skyldunni, í samtali við mbl.is um myndskeið Katrínar prins­ess­u af Wales þar sem hún greindi frá krabbameinsgreiningu sinni. 

Miklar samsæriskenningar fóru á kreik á samfélagsmiðlum eftir að ekki hafði sést opinberlega til Katrínar síðan um jólin. Guðný ræddi málið ásamt Oddi Þórðarsyni, fréttamanni á Rúv, í Dagmálum á miðvikudag. 

Myndskeið prinsessunnar birtist síðan á föstudag. 

Guðný segist hafa grunað að um alvarleg veikindi var að ræða í ljósi lengdar veikindaleyfisins, en prinsessan fór í aðgerð á kviðar­holi 16. janú­ar. Konungshöllin greindi þá frá því að hún myndi ekki sinna opinberum skyldum sínum fyrr en eftir páska. 

„En mér datt aldrei í hug að það var þetta,“ segir hún. 

Fjölmiðlar í naflaskoðun

Guðný segir að krabbameinsgreiningin hafi þaggað mikið niður í samsæriskenningunum.

Þá segir hún umræðuna um fjölmiðla í Bretlandi og Bandaríkjunum bera þess vott að tími sé kominn á ákveðna naflaskoðun hvað varðar umræðu síðustu vikna. 

Bresku dagblöðin eftir að Katrín greindi frá krabbameininu.
Bresku dagblöðin eftir að Katrín greindi frá krabbameininu. AFP/Justin Tallis

Spurð hvort að umfjöllunin minni að ákveðnu leyti á fárið í kringum Harry Bretaprins og Meghan Markle segir Guðný að Katrín fái mun jákvæðari umfjöllun. 

Tímasetningin ekki tilviljun

Guðný nefnir að ákveðin leynd hvíli yfir Katrínu og almenningur sé mjög forvitin um hana.

„Bæði hún og Vilhjálmur passa mjög mikið upp á sína persónuvernd,“ segir hún og bætir við að þau setji börnin algerlega í fyrsta sæti. 

Vilhjálmur og Katrín í júní.
Vilhjálmur og Katrín í júní. AFP/Henry Nicholls

Í myndskeiðinu greindi Katrín frá því að þau hjónin vönduðu sig mjög við að segja börnum sínum, Georg, Karlottu og Lúðvík, frá greiningunni til þess að fullvissa börnin um að það yrði í lagi með Katrínu. 

Guðný nefnir að birting myndskeiðsins hafi líklega verið tímasett með börnin í huga, en myndskeiðið var birt klukkan 18 á föstudeginum fyrir að páskafrí barnanna hófst. 

„Þau eru farin núna í sveitina, örugglega bara til að vernda krakkana fyrir allri umfjöllun og umtali í skólanum.“

„Gerði þetta eins og hún vildi“

Spurð hvort að fjölskyldunni hafi verið stillt upp við vegg og þurft að greina frá greiningunni opinberlega segir Guðný svo líklega vera. 

„Já, ég er hrædd um það. Ég held að hún hafi sagt frá þessu fyrr en hún vildi, en ég held að hún hafi gert það samt á sýnum forsendum og gerði þetta eins og hún vildi gera það.“

Guðný telur að ef pressan hefði ekki verið orðin svona mikil hefði Katrín greint frá veikindunum í komandi viku, en líkt og áður sagði var búið að gefa það út að Katrín yrði frá störfum þar til eftir páska. 

„Hún hefði alltaf greint frá þessu fyrr, frekar en síðar.“

Vilhjálmur gengið í gegnum margt

Katrín er einungis 42 ára gömul og því má áætla að greiningin hafi verið enn meira áfall sökum ungs aldurs. 

„Ég held að það sé alveg nógu erfitt að greinast með krabbamein sem móðir þriggja barna 42 ára, og svo að hafa allan heiminn fylgjast með,“ segir Guðný og bætir þó við að prinsessan hafi verið í sviðsljósinu í nærri 20 ár og sé því ýmsu vön. 

Þá er vert að nefna að Karl konungur greindist einnig með krabbamein í janúar. 

Guðný segir að það hafi ekki komið henni á óvart að almenningur hafi fengið að vita meira um veikindi Karls. Hún ítrekar að Katrínu og Vilhjálmi sé mjög svo umhugað um að halda sínu einkalífi fjarri augum almennings. 

Karl konungur og Katrín prinsessa greindust með krabbamein í byrjun …
Karl konungur og Katrín prinsessa greindust með krabbamein í byrjun árs. AFP/Yui Mok and Adrian Dennis

Guðný bendir á í þessu samhengi öll áföllin sem Vilhjálmur hefur gengið í genum, svo sem skilnað foreldra sinna og umfjöllun um hann, dauða móður hans, stirt samband við Harry bróður hans, krabbameinsgreiningu föður hans og nú greiningu eiginkonunnar. 

„Það getur ekki verið auðvelt.“

Enginn einn í veikindunum

Guðný bendir á að lokum að konungsfjölskyldan verði ábyggilega dugleg að vekja athygli á alls konar stofnunum og góðgerðarsamtökum fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra í ljósi veikindanna. 

„Þau segja að það sé enginn einn í þessu, sem er í raun mjög fallegt og sýnir líka hvernig þau hugsa. Þau eru persónulegir einstaklingar en eru alltaf með þetta opinbera skyldustarf í huga.“

Guðný heldur úti reikningi á Instagram þar sem hún fjallar um allt sem tengist konungsfjölskyldum, Royal Icelander.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson