Saka hvor annan um ofbeldi í bundnu máli

Hinn bandaríski Kendrick Lamar Duckworth og kanadíski Aubrey Drake Graham.
Hinn bandaríski Kendrick Lamar Duckworth og kanadíski Aubrey Drake Graham. Samsett mynd

Tveir stærstu rapparar heims eiga nú í þungum deilum. Bandaríski rapparinn Kendrick Lamar sakar kanadíska rapparann Drake um barnaníð, jafnvel mansal, á meðan Drake sakar Kendrick um heimilisofbeldi.

Rímnastríðið vestanhafs, sem virtist í upphafi aðeins snúast um hver væri betri rapparinn, er nú gengið skrefinu lengra. Upp er komin sú staða þar sem tónlistarmennirnir bera hvor annan þungum sökum, auk þess sem þeir saka hvor annan um rógburð.

Enn sem komið er hefur hvorugur sýnt fram á gögn sem styðja við ásakanirnar en samfélagsmiðlar hafa logað undanfarna viku vegna deilunnar.

Stiklað verður hér á stóru um atburðarásina sem leiddi til skítkastsins á milli þeirra Aubrey Drake Graham, 37 ára, og Kendricks Lamars Duckworth, 36 ára.

Allir virðast hata Drake

Kendrick er alls ekki einn um sína úlfúð í garð Drakes, heldur hefur fjöldi listamanna slegist til liðs við Kendrick, oft­ast óum­beðið. Þar á meðal eru Rick Ross, Kanye West, ASAP Rocky, The Weeknd, Future, Metro Boomin og fleiri.

All­ir eiga þeir í sín­um eig­in per­sónu­leg­u erj­um við Kanadamann­inn.

Þeir hafa gefið Drake sök um margt. Þeir segja hann ekki haga sér eins og svartur maður, hann komi fram við rappara úr trapp-mekkunni Atlanta eins og hann sé „nýlenduherra“. Hann er sagður slæmur faðir, barnaníðingur og jafnvel sagður hafa farið í bras­il­íska rasslyft­ingu (BBL).

Ekki ljóst hvers vegna þetta byrjaði

Eins og mbl.is greindi frá í apríl hófust deilurnar fyrir alvöru þann 22. mars, þegar Kendrick hraunaði yfir Drake og rapparann J. Cole í gestaerindi á laginu Like that.

Enn er ekki fullkomlega ljóst hvers vegna Kendrick orti þetta níðkvæði en það vakti mikinn ugg meðal aðdáenda. Deilan er talin eiga rætur sínar að rekja til ársins 2013, þegar Kendrick átti stefnuyfirlýsingu á laginu Control eftir Big Sean, þar sem hann nefnir Drake og aðra rappara á nafn og segist virða þá en jafnframt „reyna að myrða ykkur“.

Segja má að Cole sé strax dottinn úr leik. En hann svaraði Kendrick í apríl og baðst síðan afsökunar tveimur dögum síðar. Þótti svar hans kjánalegt.

Drake svaraði þann 13. apríl í laginu Push Ups. Hann gerði þar saklaust grín að hæð Kendricks (165 sentímetrar) en virtist hann þó einnig nefna barnsmóður Kendircks, Whitney Alford, á nafn og strauk það Kendrick illa.

Til þess að egna Kendrick enn frekar til viðbragða gaf Drake út annað lag þann 19. apríl, Taylor made Freestyle, þar sem hann notaði gervigreind til að endurgera rödd Tupacs Shakurs, sem var betur þekktur sem rapparinn 2Pac.

Shakur, sem var myrtur 1996, er yfirlýst fyrirmynd Kendricks. Aðstandendur Shakurs kröfðust þess að Drake tæki lagið af samfélagsmiðlum og streymisveitum, þar sem það væri vanvirðing gagnvart 2Pac. Lagið er ekki lengur aðgengilegt á síðum Drakes.

Drake faldi barn árið 2018

Þriðjudaginn 30. apríl svaraði Kendrick í laginu Euphoria, þar sem hann lýsir mikla hatri sínu á kanadíska rapparanum. Kendrick kallar Drake ýmsum illum nöfnum, aðallega lygara. Titillinn er tilvísun í þættina Euphoria, sem Drake framleiddi.

Nokkrum dögum síðar fylgdi Kendrick laginu sínu eftir með, 6:16 in LA. Þar gaf Kendrick í skyn að menn í innsta hring Drakes hefðu veitt Kendrick meiðandi, jafnvel mannorðsskemmandi, upplýsingar um vin sinn. Þar sagði Kendrick að Drake væri „hræðileg manneskja“ og jafnvel slæmur faðir.

Þegar Drake átti í deilum við rapparann Pusha-T árið 2018 uppljóstarði sá síðarnefndi í bundnu máli að Drake hefði haldið syni sínum, Adonis, í felum og neitað að gegna föðurhlutverki í lífi hans. Það breyttist eftir þetta.

Svaraði innan hálftíma

Síðasta föstudag gaf Drake út lagið Family Matters og fjallar það einnig um Kendrick, sem er þar sakaður um að beita barnsmóður sína ofbeldi.

Kendrick hefur aldrei áður verið sakaður beint um að beita konu ofbeldi en árið 2014 fóru orðrómar um slíkt í dreifingu. Hann þvertók fyrir orðrómana á sínum tíma.

En Kendrick hafði greinilega beðið spenntur eftir svari frá Drake, þar sem innan 30 mínútna eftir að Drake gaf út Family Matters birtist skyndilega nýtt lag YouTube-rás Kendricks: meet the grahams.

„Kæri Adonis, mér þykir leitt að þessi maður sé faðir þinn,“ er það fyrsta sem Kendrick segir í laginu. Á hann þar við um Adonis Graham, son Drakes.

Sakar Drake um barnaníð og um að fela annað barn

Lagið er vægast sagt ósvífið, þar sem Kendrick ávarpar son Drakes beint og einnig Drake sjálfan, foreldra hans og jafnvel „dóttur“ hans – hann heldur því sem sagt fram að Kanadamaðurinn hafi falið annað barn.

Kendrick virðist þá kalla Drake og vini hans kynferðisafbrotamenn og barnaníðinga. Til eru dæmi um sambönd Drakes við barnungar stúlkur sem hafa verið kölluð vafasöm. Kendrick gefur í raun í skyn að hann þeir félagarnir stundi mansal á heimili Drakes. Undir lok lagsins hvæsir Kendrick um að Drake „laug“ um hitt og þetta.

Og Bandaríkjamaðurinn var ekki búinn. Degi síðar, á laugardagskvöldi, gaf Kendrick út enn annað lag: Not Like Us. Þar segir hann blátt áfram að Drake og félagar séu barnaníðingar, nafngreindi jafnvel nokkra vini hans.

Á plötuumslaginu er jafnvel loftmynd af húsi Drakes og rauðum örvum sem eiga að gefa til kynna að þar búi barnaníðingar.

Náði Drake að plata Kendrick?

Drake svaraði enn og aftur í gærkvöldi með enn öðru lagi, The Heart Part 6. Hann neitar þar ásökunum um barnaníð og vísaði því á bug að hann ætti dóttur í felum.

Kanadíski rapparinn hélt því einnig fram að margt af því sem Kendrick sakaði hann um væri byggt á röngum upplýsingum sem Drake hefði vísvitandi lekið til Kendricks til þess að gabba hann.

Hann hefur enn sem komið er ekki rökstutt þetta ekki með neinum gögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ástæðulaust að fyllast sektarkennd út af þeim hlutum sem ekki eru í þínu valdi að breyta. Reyndu að sýna lipurð og samstarfsvilja og þá muntu ná takmarki þínu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ástæðulaust að fyllast sektarkennd út af þeim hlutum sem ekki eru í þínu valdi að breyta. Reyndu að sýna lipurð og samstarfsvilja og þá muntu ná takmarki þínu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg