Hæstiréttur Kanada komst í vikunni að þeirri niðurstöðu, að hárgreiðslumaður frá Ontario ætti ekki rétt á 25 milljóna króna skaðabótum vegna þess að hann fann dauða flugu í vatnsbrúsa.
Allir 9 dómarar réttarins voru sammála um að fyrirtækið Culligan of Canada Ltd. væri ekki skaðabótaskylt vegna þess andlega skaða, sem Waddah Mustapha beið vegna þess, að fyrirtækið hefði ekki getað séð fyrir hin óvenjulegu og öfgakenndu viðbrögð Mustaphas við að finna fluguna.
Sagði forseti dómsins í dómsorði, að Mustapha hafi ekki getað sýnt fram á að maður með venjulegt sálarþrekmyndi bíða alvarlegan andlegan skaða af því að sjá flugur í vatnsflöskum. Mustapha hefði þurft að sýna fram á að Culligan hafi vitað, að hann væri sérlega viðkvæmur fyrir reynslu af þessu tagi.
Mustapha, sem er 47 ára innflytjandi frá Líbanon, á tvær hárgreiðslustofur. Árið 1986 setti hann upp vatnsskammtara frá Culligan í stofunum og heima hjá sér og fjölskylda hans drakk aðeins flöskuvatn frá fyrirtækinu. Þangað til 21. nóvember 2001 þegarMustapha sá flugu í vatninu.
Mustapha höfðaði skaðabótamál og héraðsdómur féll honum í vil árið 2005. Í dómsorðinu þá sagði, að Mustapha hefði orðið taugaveiklaður og þunglyndur. Hann átti erfitt með svefn og fékk martraðir og gat ekki drukkið kaffi vegna þess að það innihélt vatn. Þegar hann fór í sturtu horfði hann niður svo vatnið rynni ekki í andlit hans. Sálarástand hans kom niður á samskiptum hans við eiginkonu og börn og rekstri fyrirtækisins.
Lögmaður Mustapha sagði að skjólstæðingur hans hefði fengið það á tilfinninguna, að hann og fjölskylda hans hefðu innbyrt fjöldann allan af skordýrum frá árinu 1986.