75 lík hafa fundist eftir ferjuslys í Grikklandi

Fórnarlamba ferjuslyssins er minnst á Paros í Grikklandi í dag.
Fórnarlamba ferjuslyssins er minnst á Paros í Grikklandi í dag. AP

Með batnandi veðri var unnt að kafa að flaki ferjunnar Express Samina úti fyrir eyjunni Paros í gríska Eyjahafinu í morgun. Lík tíu manna fundust og með því er tala látinna orðin 75 og ferjuslysið orðið það versta í sögu Grikkja. Yfirvöld segja fórnarlömbin tíu öll hafa verið farþega um borð í ferjunni sem sökk á þriðjudag með rúmlega 500 manns um borð.

Óttast er að tala látinna geti hækkað enn frekar þar sem ekki er vitað hve margir voru um borð í ferjunni þegar hún sökk um 3,2 km eftir að hafa steytt á skeri sem á var viti. Talið er að einhverjir farþeganna hafi keypt farmiða um borð en hermenn og börn undir fimm ára aldri þurfa ekki að hafa farmiða. Ekki hefur verið unnt að kafa að flakinu undanfarna tvo daga vegna hvassviðris. Björgunarstörf reyndust einnig erfið sökum veðurs kvöldið sem ferjan sökk en þó tókst að bjarga 108 ferðamönnum og 365 Grikkjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert