Fyrrum aðstoðarmenn Nixons gagnrýna Mark Felt

Mark Felt.
Mark Felt. AP

Fyrrum aðstoðarmenn Richards Nixons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, gagnrýndu í dag Mark Felt, fyrrum aðstoðarforstjóra bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) og sögðu hann hafa framið trúnaðarbrot með því að leka upplýsingum til fjölmiðla.

Felt, sem er 91 árs, upplýsti í gær að hann hefði verið heimildarmaðurinn „Deep Throat" sem veitti blaðamönnum Washington Post mikilvægar upplýsingar í Watergatemálinu. Málið leiddi til þess að Nixon neyddist til að segja af sér embætti árið 1974.

G. Gordon Liddy, sem skipulagði innbrotið í skrifstofur Demókrataflokksins í Watergatebyggingunni í Washington árið 1972 og afplánaði 4½ árs fangelsisdóm, sagði að Felt hefði brotið siðareglur bandarísku löggæslunnar.

„Ef hann bjó yfir upplýsingum um lögbrot þá var honum skylt að leggja þær fyrir rannsóknarkviðdóm og tryggja að ákæra yrði gefin út en ekki leka þeim til einnar fréttaveitu," sagði Liddy við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN. Liddy er nú vinsæll útvarpsþáttastjórnandi.

„Deep Throat" sem nefndur var eftir vinsælli klámkvikmynd á þessum tíma, aðstoðaði þá Bob Woodward og Carl Bernstein, blaðamenn Washington Post, við að tengja innbrotið í Watergatebygginguna við Hvíta húsið og nefnd sem vann að endurkjöri Nixons. Tilgangurinn með innbrotinu var að koma fyrir hlerunarbúnaði í skrifstofum kosninganefndar Demókrataflokksins. Fjörutíu aðstoðarmenn Nixons voru ákærðir í tengslum við málið.

Leonard Garment, lagalegur ráðgjafi Nixons á árunum 1969 til 1973, sagðist telja að Felt hefði haldið hlutverki sínu í Watergatemálinu leyndu í 31 ár vegna þess að hann hefði talið að gerðir hans hafi verið vafasamar.

Garment sagði að málið snérist um það hvenær starfsmenn stjórnvalda, sem hefðu undir höndum leynilegar trúnaðarupplýsingar, teldu sig knúna til að gerast uppljóstrarar og brjóta þannig trúnaðareiða sína.

Chuck Colson, yfirmaður samskiptamála Hvíta hússins árið 1972, sagði að Felt hefði getað komið í veg fyrir djúpa pólitíska kreppu í Bandaríkjunum hefði hann komið upplýsingum sínum á framfæri á viðeigandi stöðum.

„Mark Felt hefði getað komið í veg fyrir Watergate," sagði Colson, sem sat um tíma í fangelsi en er nú sjónvarpspredikari. „Hann var í þannig stöðu og bjó yfir þannig upplýsingum. En þess í stað gróf hann beinlínis undan stjórnvöldum."

Pat Buchanan, fyrrum ræðuritari Nixons, sagði á sjónvarpsstöðinni MSNBC að Felt væri svikari. En David Gergen, sem einnig var aðstoðarmaður Nixons um tíma og af sumum talinn hafa verið „Deep Throat" sagði að sér væri létt að liggja ekki lengur undir þeim grun.

Helstu dagblöð Bandaríkjanna hrósa Felt í dag og segja að hann sé dæmi um það hvernig nafnlausir heimildarmenn geti flett ofan af því þegar stjórnvöld misbeita valdi sínu.

„Hefði Felt þagað hefði Nixon hugsanlega komist upp með einhverja alvarlegustu misnotkun á valdi, sem nokkur forseti hefur reynt," segir Washington Post.

The New York Times veltir því fyrir sér hvort Watergatemálið hefði verið upplýst hefði það komið upp nú á tímum... „þegar hart er sótt að rétti blaðamanna til að vernda heimildarmenn."

G. Gordon Liddy ásamt lögmanni sínum árið 2001.
G. Gordon Liddy ásamt lögmanni sínum árið 2001. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert