Segja „Deep Throat“ vart hafa átt annars úrkosti en tala við fjölmiðla

Bernstein og Woodward í New York í morgun.
Bernstein og Woodward í New York í morgun. AP

Bandarísku blaðamennirnir Bob Woodward og Carl Bernstein sögðu í morgun að Mark Felt, fyrrverandi starfsmaður bandarísku alríkislögreglunnar, hafi verið sannfærður um réttmæti þess að afhjúpa það glæpsamlega athæfi sem síðar hlaut nafnið Watergate. Þrem áratugum síðar sé enn ekki fyllilega orðið ljóst hvað Felt hafi ætlast fyrir.

Felt var hinn svonefndi „Deep Throat“, helsti heimildarmaður Woodwards og Bernsteins í Watergate-málinu, sem uppvíst varð um fyrir þrjátíu árum. Hefur því allar götur síðan verið haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var, þar til frá því var greint í tímaritinu Vanity Fair í vikunni.

Bernstein hafnaði þeirri gagnrýni, sem komið hefur frá mörgum fyrrverandi embættismönnum í forsetatíð Richards Nixons, að það hefði verið réttara af Felt að segja af sér sem aðstoðarforstjóri FBI. „Maðurinn vildi greinilega koma á einhverjum breytingum og binda enda á glæpsamlegt atferli og stjórnarskrárbrot sem áttu sér stað,“ sagði Bernstein í viðtali í morgunþætti ABC-sjónvarpsstöðvarinnar. „Í ljósi þess hvernig fréttir við höfðum flutt má geta sér þess til að þetta hafi verið eina leiðin sem var honum fær. Alls staðar annars staðar réði spillingin ríkjum.“

Woodward sagði í morgunþætti NBC-sjónvarpsins að Felt hafi óviljugur en talið sér nauðugan einn kost. „Við höfðum ekki hugmynd um hvað fyrir honum vakti, og það er að sumu leyti enn óljóst,“ sagði Woodward. Hann sagðist telja líklegt að með því að leka upplýsingum í blaðamennina - og brjóta þar með lög - hafi Felt viljað gæta hagsmuna FBI en láta um leið Nixon og aðstoðarmenn hans svara til saka.

Woodward lýsir í löngu máli í grein í Washington Post í dag kynnum sínum af Felt en þeir kynntust fyrst áður en Woodward gerðist blaðamaður. Felt aðstoðaði Woodward við upplýsingaöflun í nokkrum málum áður en Watergatemálið kom upp en krafðist þess jafnframt að Woodward héldi sambandi þeirra leyndu.

Meðan á Watergatemálinu stóð krafðist Felt þess að þeir Woodward hittust að næturlagi í bílageymslu en Woodward kom beiðni um fundina á framfæri við Felt með því að setja rauðan fána í blómapott á svölum íbúðar sinnar.

Woodward segir að sagan öll um samskipti þeirra Felts verði sögð í nýrri bók, sem væntanleg er á vegum bókaforlagsins Simon & Schuster.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert